Kauphöll snýst um skilaboð og skilvirkni

Kauphöll snýst um skilaboð og skilvirkni

Skilvirk kauphöll með verðbréf myndar grunn að viðskiptaverði með nær allar eignir í íslenskum krónum. Skilvirk kauphöll veitir upplýsingar sem minnka áhættu og lækka kostnað. Skilvirk kauphöll stuðlar að lægri fjármagnskostnaði fyrir ríkissjóð, stuðlar að hagstæðari lánskjörum íbúðalána, stuðlar að lægra leiguverði, stuðlar að lægri fjármagnskostnaði fyrirtækja og stuðlar að því að fleiri sprotafyrirtæki vaxa úr grasi á Íslandi. Stundum er ástæða til að rifja upp ávinninginn af skilvirkum verðbréfamarkaði.

Kauphöll snýst um skilaboð og skilvirkni

Þó skammt sé stórra högga á milli í lífi þeirra félaga sem mynda Kauphöll Íslands þá er rætt um að  ládeyða sé yfir íslenskum hlutabréfamarkaði. Þetta birtist m.a. í því að sömu daga og stórar fréttir berast af kauphallarfélögum þá eru viðskipti með hluti í félögunum fátíð, lítið um kaup- og sölutilboð en verðbreytingar miklar. Blaðamenn hafa varpað því fram að markaðurinn væri hálfgerður „Mikka mús markaður“ og almenningi finnist kannski þetta kauphallarbrölt í besta falli krúttlegt en kannski bara tíma- og peningasóun. Það er því ástæða til að rifja upp ávinning af því að starfræktur er skipulegur innlendur hlutabréfamarkaður og reyndar verðbréfamarkaður yfirhöfuð. Hvað er í húfi ef markaðurinn virkar ekki sem skyldi?

Skilaboðin eru það sem skiptir máli

Flestir kannast við þá umræðu að markaðurinn sé leið fyrirtækja til að sækja fjármagn og vettvangur fjárfesta til að eiga viðskipti sín á milli. Mikilvægasta hlutverk hlutabréfamarkaðarins gagnvart almenningi er samt líklega að miðla upplýsingum og senda skilaboð. Þau skilaboð mynda grunn eða viðmið fyrir öll önnur viðskipti með eigin fé í íslenskum krónum. Á sama hátt myndar markaður með skráð íslensk skuldabréf grunn að öllum viðskiptum með skuldir í íslenskum krónum. Ef þessi grunnur er veikburða er ekki bara markaður með skráð bréf undir heldur verðlagning á öllum fjármálamarkaði. Tökum fimm dæmi:

  1. Ríkissjóður ákveður að gefa út skuldabréf til þess að fjármagna nýjan spítala, vegaframkvæmdir eða bara hallarekstur eitthvert árið. Fjármögnunarkjör, vaxtakostnaður ríkissjóðs og þar með skattgreiðenda, fara eftir því á hvaða verði (ávöxtunarkröfu) viðskipti með flokka ríkisbréfa er í Kauphöll Íslands.
  2. Bankar gefa út sértryggð skuldabréf til þess að fjármagna lán til húsnæðiskaupa. Lánskjör húsnæðislána bankanna, og þar með greiðslubyrði lántaka, endurspegla það verð sem markaðurinn er tilbúinn að greiða fyrir sértryggð skuldabréf. Lánskjör annarra húsnæðislánveitenda (lífeyrissjóða, Íbúðarlánasjóðs) tekur sömuleiðis mið af ávöxtunarkröfu sértryggðra bréfa.
  3. Fasteignafélag gefur út hlutabréf og/eða skuldabréf til þess að fjármagna kaup á atvinnuhúsnæði eða uppbyggingu nýs atvinnuhúsnæðis. Fjármögnunarkjör sem mælist í ávöxtunarkröfu á markaði ræður því hvort af kaupunum eða byggingu húsnæðisins verður. Fjármagnskostnaður sem stærsti kostnaðarliður fasteignafélaga stýrir því hve háa húsaleigu félagið þarf að innheimta. Húsaleiga er stór hluti af rekstrarkostnaði fyrirtækja og hefur talsverð áhrif á verðlag.
  4. Vaxtarfyrirtæki vill sækja sér nýtt eigin fé til að þróa vöru, fjárfesta í tækjum og búnaði, ráða fólk, markaðssetja osfrv. Verðlagning á eigin fé skráðra fyrirtækja (hlutabréfaverð) er grunnur að verðlagningu eigin fjár á Íslandi enda er það opinn markaður með stífar reglur um upplýsingagjöf. Eftir því sem ávöxtunarkrafa á skráðum hlutabréfamarkaði er hærri þeim mun hærri kröfu er líklegt að fjárfestar geri til vaxtarfyrirtækja – færri vaxtarfyrirtæki hljóta náð fyrir augum fjárfesta.
  5. Börn erfa hlutabréf foreldra í óskráðu fyrirtæki. Verðlagning á hlutabréfum sambærilegra skráðra félaga gefur vísbendingu um hvaða verðmiði væri ásættanlegur í mati á óskráðu hlutabréfunum.

Markaðurinn veitir þannig skilaboð um hvert sé verð ólíkra eigna. Hugtakið „skilvirkur markaður“ fangar þetta. Eftir því sem markaður er skilvirkari endurspeglar hann betur virði undirliggjandi eigna í samhengi við áhættu.

Þetta snýst um skilvirkni

Það er ekki markmið í sjálfu sér að velta með hlutabréf eða skuldabréf sé mikil svo fremi sem markaðurinn sé skilvirkur og heilbrigði er ekki mælt í hækkun eða lækkun hlutabréfaverðs nema í samhengi við breytingar á aðstæðum. Miklar verðsveiflur í litlum viðskiptum, skortur á kaup- og sölutilboðum eða engin viðbrögð við breytingum á aðstæðum gefa þó til kynna að markaður sé ekki sérstaklega skilvirkur. Því minni skilvirkni á markaði, því síður gagnast hann sem grunnur fyrir aðra verðlagningu. Lélegur grunnur eykur áhættu og áhætta hækkar kostnað. Af því leiðir að fjármagnskostnaður ríkissjóðs verður hærri en ella, lánskjör íbúðalána verða lakari en ella, leiguverð verður hærra en ella, fjármagnskostnaður fyrirtækja verður hærri en ella og færri sprotar vaxa úr grasi en ella.

Enn fremur er vert að hafa hugfast að óskilvirkur markaður leiðir af sér mismunun þegar kemur að aðgengi að upplýsingum. Skráning á markað felur í sér að útgefendur undirgangast skuldbindingar um upplýsingagjöf um allt það sem kann að hafa áhrif á virði undirliggjandi eigna og að allir hafa jafnan aðgang að þeim upplýsingum. Á skilvirkum markaði leiða þær upplýsingar til verðbreytinga sem eftir að rykið sest leiða af sér besta mat á virði.

Köttur, mús og kauphöll

Ef þið hafið staðið í fasteignaviðskiptum einhvern tímann síðustu tvo áratugina eða svo kannist þið eflaust við að fylgjast með framboði og verði á fasteignavefjum. Sama gildir ef þið hafið staðið í bílaviðskiptum nú eða keypt ykkur notuð garðhúsgögn eða barnarúm. Þá hafið þið sjálfsagt skoðað bílasöluvefi, Blandið eða Brask og brall svo eitthvað sé nefnt. Svo eru smáauglýsingar blaðanna alltaf klassískur vettvangur.

Sama á við um það markaðstorg sem kauphöll er. Hún sýnir hvaða ávöxtun og áhættu kaupendur og seljendur eru tilbúnir að sættast á. Til að tryggja jafnræði birta svo útgefendur allar nauðsynlegar upplýsingar. Uppgjör sýna afkomu, eignastöðu, skuldir og eigið fé. Verð á markaði sýnir síðan það verð sem greitt er fyrir eigið féð og eftir atvikum skuldirnar sömuleiðis. Fréttir og uppgjör skráðra útgefanda veita hins vegar fleiri upplýsingar. Sem dæmi þá sýna uppgjör atvinnuhúsnæðisfélaga afkomu og leigutekjur eftir eignaflokkum. Með skráningu félaganna á markað lukust þannig upp upplýsingar um markaðinn sem gagnast öllum haghöfum. Sama gildir um nýlega skráningu Heimavalla á markað. Hún bætti miðlun upplýsinga um íbúðaleigumarkaðinn og ef hlutabréfamarkaðurinn er skilvirkur þá sýnir hann þá ávöxtun sem eigendur félaga ætlast til. Slík miðlun upplýsinga getur gagnast þátttakendum vítt og breitt á leigumarkaði, ekki aðeins haghöfum Heimavalla. Með haghöfum er hér átt við eigendur, starfsmenn, viðskiptavini og eftir atvikum fleiri aðila.

Aðgangur að upplýsingum liðkar fyrir viðskiptum og dregur úr líkum á því að þeir sem litla reynslu og þekkingu hafa kaupi köttinn í sekknum. Á „Mikka mús markaði“ er kötturinn úr sekknum og leikur sér að músinni.

Þó alltaf megi gera betur verða útgefendur skráðra verðbréfa ekki sakaðir um að halda aftur af sér í upplýsingagjöf. Útgáfa upplýsinga verður sífellt ítarlegri og aðgengilegri, bæði hvað varðar fréttir og reglulega kynningarfundi. Það er hins vegar í höndum þátttakenda á markaði að meðtaka upplýsingarnar, taka afstöðu sem byggð er á upplýsingunum og breyta þeim í skilaboð sem síðan endurspeglast í skilvirkri verðmyndunum íslenskra eignaflokka.