Haukar sem dúfur horfa til Rannveigar

Haukar sem dúfur horfa til Rannveigar

Á miðvikudaginn eftir viku verður vaxtaákvörðun peningastefnunefndar birt. Verða þá 77 dagar, eða tveir og hálfur mánuður, frá því síðasta vaxtaákvörðun var kynnt. Rannveig Sigurðardóttir tók við embætti aðstoðarseðlabankastjóra þann 1. júlí og er þetta því fyrsta peningastefnufundur sem hún situr sem nefndarmaður. Spennandi verður að sjá hvort og hvernig koma hennar hefur áhrif á afstöðu nefndarinnar. Við eigum þó von á átakalítilli vaxtaákvörðun enda teljum við nokkuð borðleggjandi að nefndin ákveði að halda stýrivöxtum óbreyttum. Það verður þó forvitnilegt að sjá hvernig nefndin mun orða hugsanir sínar í garð vinnumarkaðarins og ríkisfjármála en hvorutveggja hljóta að lita peningastefnuna næstu misserin.

Frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi hefur krónan styrkst eilítið og verðbólgan hækkað úr 2% í 2,7%. Hagkerfið er ennþá í fullu fjöri og ferðamannatölur fyrir júní og júlí sýndu meiri þrautseigju ferðaþjónustunnar en margir höfðu reiknað með. Þingmenn hafa verið í sumarfríi og því lítið gerst í opinberum fjármálum, en forkólfar vinnumarkaðarins hafa haft í nægu að snúast í kringum harða kjarabaráttu ljósmæðra. Forsætisráðherra hefur síðan ítrekað bent á að hann sjái fyrir sér að ríkissjóði verði beitt til að liðka fyrir lendingu á vinnumarkaði. Þó að flestar hreyfingar yfir sumarið falli undir yfirráðasvæði Haukadals teljum við að breytingarnar séu langt því frá að hreyfa við nefndinni og að vöxtum verði því haldið óbreyttum.

Prófsteinn á kjölfestuna

Frá síðustu vaxtaákvörðun hefur verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hækkað um 0,4-0,5% (tveggja og átta ára verðbólguálag). Fimm ára verðbólguálag stendur í 3,6%, eftir að hafa farið lægst í 1,8% í júní 2017 en þá mældist verðbólgan 1,7%. Raunstýrivextir hafa lækkað samhliða hækkandi takti verðbólgunnar og standa nú í rúmlega 1,5%. Á síðasta vaxtaákvörðunarfundi taldi nefndin að verðbólguvæntingar væru í ágætu samræmi við verðbólgumarkmið bankans. Annað hvort hafa væntingarnar hækkað vegna hækkandi stundarverðbólgu eða að ótti er farinn að grípa um sig aðallega vegna yfirvofandi kjaradeilna og horfa á hækkun innfluttrar verðbólgu. Nefndin mun vafalaust gefa þessari þróun gaum, sérstaklega þar sem framleiðsluspennan er ennþá nokkur og spenna á vinnumarkaði hvergi nærri horfin.

Heimildir: Kodiak Excel, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Nefndin horfir á fleira en álag á markaði og verðbólgu þegar taumhald peningastefnunnar er metið og er tekið meðaltal yfir nokkra mismunandi mælikvarða. Nýjar tölur um væntingar heimila, fyrirtækja og markaðsaðila liggja ekki fyrir opinberlega en nefndin mun hafa nýjustu tölur undir höndum. Líkt og sjá má á myndinni hér að neðan hefur taumhald peningastefnunnar slaknað á milli funda, en við teljum að breytingin sé enn um sinn það lítil að hún muni ekki raska ró nefndarinnar eða sannfæra nefndarmenn um að kjölfestan sé farin fyrir bí.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa íslands, Greiningardeild Arion banka

Allir norður, enginn niður

Undanfarin ár hafa aukin umsvif ferðamannaiðnaðarins haft mikil áhrif á krónuna til styrkingar, innkoma Costco og H&M hefur hert samkeppni og sett þrýsting á innlenda framleiðendur og því  einungis hækkun fasteignaverðs sem hefur séð til þess að 12 mánaða taktur verðbólgunnar hefur verið fyrir norðan núllið. Núna eru teikn á lofti um að undirliggjandi verðbólga sé að aukast; hlutfall undirvísitalna vísitölu neysluverðs sem hafa hækkað undanfarna 12 mánuði hefur verið að hækka, vísitala neysluverðs án húsnæðis er einnig að hækka og áhrif innfluttra vara hefur farið frá því að vera til hjöðnunar verðbólgu yfir í að vera til hækkunar á verðbólgu. Í fundargerð peningastefnunefndar kom fram að nefndin telur að þessi þróun haldi áfram, þ.e. að undirliggjandi ástæður verðbólgunnar séu að breytast.

Heimildir: Hagstofa íslands, Greiningardeild Arion banka

Samhliða því að allir undirliðir eru farnir að leggjast á eitt hefur verðbólgan þokast yfir verðbólgumarkmið. Nefndin hefur þó gefið út að verðbólga yfir markmiði muni ekki leiða til vaxtabreytinga, svo lengi sem kjölfesta verðbólguvæntinga haldi. Að okkar mati er of snemmt að draga sterkar ályktanir um ástand kjölfestunnar og því teljum við að verðlagsbreytingar og breyting á ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði síðustu mánuði muni ekki knýja nefndina til að grípa til vaxtavandarins.