Er Ísland orðið of dýrt?

Er Ísland orðið of dýrt?

Upp á síðkastið hefur mikið verið ritað og rætt um það að Ísland sé orðið of dýrt. Að sama skapi þykir Íslendingum verðlag erlendis gjarnan vera lágt og spyrja sig hvers vegna það sé svona mikill verðmunur á sambærilegum vörum og þjónustu á Íslandi og erlendis. Hér býr að baki raungengi íslensku krónunnar en raungengið mælir kaupmátt Íslendinga erlendis og útlendinga á Íslandi. Raungengi er í raun ekkert nema verðlagsleiðrétt nafngengi en raungengi krónunnar styrkist þegar verðlag á Íslandi hækkar umfram verðlag erlendis og/eða þegar nafngengið styrkist. Raungengisstyrking skerðir samkeppnishæfni Íslands þar sem styrking þýðir að íslenskar vörur og þjónusta eru að hækka umfram vörur og þjónustu í helstu viðskiptalöndum Íslands.

Leitin að sjálfbæra genginu - jafnvægisraungenginu

Þegar það er sagt að Ísland sé „of dýrt“ þá gefur það til kynna að verðlag sé hærra en hið „rétta“ verð. Í þessu samhengi er eðlilegt að kynna til sögunnar hugtakið jafnvægisraungengi en með því er reynt áætla hvaða raungengisstig sé sjálfbært til lengri tíma litið. Það getur reynst þrautinni þyngri að áætla þetta en algeng skilgreining á jafnvægisraungengi er sú að það sé það raungengi sem stuðli að jafnvægi í utanríkisviðskiptum. Þessa skilgreiningu má svo einfalda með því að gera ráð fyrir að jafnvægi í utanríkisviðskiptum þýði að viðskiptajöfnuður sé jafn núlli, þ.e. að það sé hvorki viðskiptahalli né viðskiptaafgangur.

Önnur skilgreining á jafnvægisraungengi er að það sé einfaldlega langtímameðaltal raungengisins.Til skamms tíma sveiflast raungengið mikið og þá sérstaklega eftir að fastgengisstefna varð mun sjaldgæfari. Tölfræðilegar rannsóknir á löngum raungengistímaröðum benda þó til að ef litið er til mjög langs tíma hafi raungengi tilhneigingu til að leita í langtímameðaltal sitt.

Ef litið er á söguleg gögn um raungengi krónunnar frá 1914-2018 má sjá að helstu frávik raungengisins verða í báðum heimsstyrjöldunum og svo í kjölfar þeirrar seinni. Þetta skýrist af háu verði fiskafurða og þ.a.l. auknum útflutningsverðmætum Íslands í styrjöldunum. Að þessu frátöldu virðist raungengið hafa verið býsna stöðugt sem er undarlegt vegna þess hve óstöðug krónan hefur verið, eða hvað?

 Verðbólga hefur lengi verið vandamál á Íslandi og var meðalverðbólga á 8. og 9. áratugnum t.a.m. 34%. Þegar verðlag hækkar svona mikið og verðleggur íslenskar vörur og þjónustu einfaldlega út af markaði verður eitthvað undan að láta og á Íslandi hefur það alltaf verið nafngengið. Nafngengi krónunnar hefur rýrnað svo mikið að það er nú innan við 0,06% af upphaflegu verðgildi sínu m.v. dönsku krónuna. Það má því með sanni segja að Íslendingar hafa kynnst kröftum raungengisins í gegnum tíðina.

Heimildir: B.Sc. ritgerðin "Jafnvægisraungengi krónunnar", Seðlabankinn og Greiningardeild Arion banka

Í ljósi þess hve ólíkir viðskiptahættir Íslendinga fyrir 1960 eru núverandi viðskiptaháttum og hve mikil frávik verða í raungenginu vegna heimsstyrjaldanna kann að vera skynsamlegt að líta til meðaltalsins eftir 1960 í leit að jafnvægisraungenginu. Núverandi raungengi mældist 98,9 í júlí síðastliðnum sem er 12,4% yfir meðaltalinu frá 1960 en raungengið hefur hækkað um 57% frá því það snerti botninn árið 2009.

Af hverju hefur raungengið hækkað?

Hver er ástæðan fyrir því að raungengið hefur hækkað um 57%? Raungengisstyrking síðustu ára skýrist bæði af innlendri verðbólgu og því að nafngengið hefur hækkað verulega, m.a. vegna aukinna útflutningstekna og bættrar erlendrar stöðu. Síðan 2008 hefur verðbólgan verið að meðaltali rúmlega 3 prósentustigum hærri á Íslandi en í hinum OECD ríkjunum.

Heimildir: B.Sc. ritgerðin "Jafnvægisraungengi krónunnar", OECD og Greiningardeild Arion banka

Nafngengi krónunnar hefur styrkst um 35% á sama tíma en þessi styrking hefur að miklu leyti orðið í skjóli hafta þrátt fyrir að nú sé búið að milda höftin umtalsvert. Þessi nafngengisstyrking ásamt verðbólgunni skýrir raungengisstyrkingu síðustu ára. Þar sem hækkun á gengisvísitölunni samsvarar gengisveikingu hefur y-ásnum verið snúið við á myndinni að neðan og þá samsvarar upp styrkingu en niður veikingu.

Heimildir: Seðlabankinn og Greiningardeild Arion banka

Viðskiptaafgangurinn er byrjaður að dragast saman

Söguleg gögn benda til þess að það sé neikvætt samband milli raungengis og viðskiptajafnaðar. Þetta er viðbúið þar sem hærra raungengi skerðir samkeppnisstöðu útflutningsgreina og gerir innflutning ódýrari, en hvort tveggja hefur neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuðinn.

Sífellt jákvæðari viðskiptajöfnuður þrátt fyrir sífellt sterkara raungengi frá 2009-2016 bendir til að einhvers konar kerfisbreyting hafi átt sér stað. Það sem skýrir þetta er einfaldlega auknar útflutningstekjur í gegnum ferðamannaiðnaðinn. Þrátt fyrir að Ísland sé að verða dýrara hefur ferðamönnum fjölgað gífurlega. Svo virðist því vera að Ísland sé orðin lúxusvara í ákveðnum skilningi og að nægilega margir ferðamenn séu tilbúnir að borga einhvers konar „Íslandsálag“ til að þeim fjölgi milli ára, þó neyslan breytist. Þetta bendir til þess að jafnvægisraungengið hafi hækkað síðastliðinn áratug.

Viðskiptaafgangurinn brást loksins við hærra raungengi árið 2017 og fór niður í 3,4% af VLF samanborið við 7,7% árið 2016. Í uppfærðri hagspá spáum við að hann verði aðeins 1,5% af VLF árið 2018, en það samsvarar 80% lækkun á tveimur árum. Af þessu má ráða að við núverandi raungengisstig gæti afgangurinn vel snúist í halla. Viðskiptajöfnuður bregst ekki samstundis við breytingum á raungenginu og í ljósi þess hversu hratt viðskiptaafgangurinn hefur dregist saman er ekki ólíklegt að núverandi raungengi myndi að lokum leiða til viðskiptahalla.

Leiði núverandi raungengi til viðskiptahalla er það yfir jafnvægisgildi sínu sem þýðir þá að Ísland sé of dýrt en það er of snemmt að segja til um það hvort sú verði raunin. Það skal tekið fram að viðskiptahalli þarf ekki að vera slæmur, t.d. ef hann er nýttur í arðbærar fjárfestingar í staðinn fyrir neyslu eins og tíðkaðist fyrir hrun.

 

Heimildir: B.Sc. ritgerðin "Jafnvægisraungengi krónunnar", Seðlabankinn, Hagstofa Íslands og Greiningardeild Arion banka

Ferðamennirnir fjármagna innflutninginn

Ef litið er á sundurliðun á framlagi undirþátta til viðskiptajafnaðar má sjá að mikill afgangur af þjónustuviðskiptum hefur vegið á móti vöruskiptahalla síðan 2014 og leitt til viðskiptaafgangs. Það má því segja að ferðamannaiðnaðurinn hafi fjármagnað vöruskiptahalla síðustu ára.

Heimildir: Seðlabankinn og Greiningardeild Arion banka

Nú hafa ferðamennirnir hins vegar sýnt þess merki að raungengi krónunnar sé farið að hafa áhrif á neyslu þeirra. Breyting kortaveltu á ársgrundvelli á hvern ferðamann, án flugliðar og á föstu gengi, hefur t.a.m. dregist saman um 1,7% að meðaltali fyrstu fimm mánuði ársins 2018. Ef að það kæmi til samdráttar í ferðaþjónustu t.a.m. ef hægja tæki á heimshagkerfinu eða ef raungengi krónunnar styrktist enn frekar yrði afgangurinn fljótur að snúast í halla.

Heimildir: RSV og Greiningardeild Arion banka

Framleiðnivöxtur í ferðamannaiðnaði hækkar laun í öðrum geirum

Til lengri tíma litið ráðast raunlaun af framleiðni vinnuafls. Það er hins vegar þekkt innan hagfræðinnar að þegar laun hækka í tiltekinni grein vegna aukinnar framleiðni smitast launahækkunin út í allt hagkerfið. Þau fyrirtæki sem neyðast til að hækka laun til að missa ekki starfsfólk yfir í aðrar greinar en njóta ekki framleiðniaukningar geta fátt annað gert en að hækka verð þeirrar vöru eða þjónustu sem þau selja. Þau fyrirtæki sem búa hins vegar við mikla samkeppni og geta ekki velt auknum launakostnaði út í verðlagið horfa fram á verri afkomu, að leggja niður starfsemi, flytjast úr landi eða að missa starfsfólk yfir í aðrar greinar. Verðlagshækkanir þeirra fyrirtækja sem búa aftur á móti ekki við mikla samkeppni leiða til þess að verðbólgan fer af stað sem hækkar raungengið og skerðir samkeppnisstöðu landsins. Dæmi um slíka vinnustaði eru t.d. flest opinber fyrirtæki og stofnanir. Þessi atburðarás er gjarnan nefnd Balassa Samuelson áhrifin og skýrir hvers vegna mikilvægt er að samkeppnisgreinar séu leiðandi í launaþróun í hverju landi.

Tölur Hagstofunnar um framleiðni vinnuafls sýna að framleiðni í veitinga- og gististaðarekstri hefur vaxið langt umfram það sem almennt gerist. Þetta stafar af þeirri stærðarhagkvæmni sem fylgir sífellt auknum straumi ferðamanna til landsins. Þrátt fyrir að mikill munur sé á framleiðnivexti milli greina hafa raunlaun reglulegs tímakaups þróast með svipuðu móti á milli geira sem skýrist af samkeppni um vinnuafl og því í raun Balassa Samuelson áhrifunum.

Heimildir: Hagstofa Íslands og Greiningardeild Arion banka

Verðbólgan hefur hins vegar ekki tekið við sér þrátt fyrir launahækkanir umfram framleiðnivöxt en það stafar af þeirri gengisstyrkingu sem hefur átt sér stað. Síðan að verðbólgan fór undir markmið Seðlabankans í febrúar 2014 hefur gengið styrkst um 22%. Gengislekinn er talinn vera u.þ.b. 40% á Íslandi og hefur þessi nafngengisstyrking krónunnar því dregið töluvert úr verðbólgunni. Ef gengið gefur hins vegar eftir sökum hás raungengis og skertrar samkeppnishæfni myndi það m.a. koma fram í aukinni verðbólgu.

Raungengi á mælikvarða launa

Seðlabankinn reiknar einnig raungengi út frá hlutfallslegum launakostnaði á framleidda einingu. Þessi mælikvarði ber saman hversu dýrt vinnuafl er hér á landi samanborið við erlendis. Raungengi á mælikvarða launa er því sérstaklega gott viðmið til að meta samkeppnishæfni útflutningsgreina Íslands. Eins og áður kom fram geta fyrirtæki á alþjóðlegum samkeppnismarkaði ekki ýtt auknum launakostnaði út í verðlagið og þ.a.l. getur sífellt dýrara vinnuafl ógnað rekstrargrundvelli útflutningsfyrirtækja.

Raungengi á mælikvarða launa hefur náð sömu hæðum og fyrir hrun og stendur nú í 103,9 en íslenskt vinnuafl hefur aðeins tvisvar mælst dýrara síðan mælingar hófust árið 1991. Langtímameðaltal raungengis á mælikvarða launa er 78,0 og núverandi raungengi er því 33% yfir meðaltalinu. Það skal þó tekið fram að þar sem jafnvægisraungengið virðist hafa hækkað síðastliðin áratug er raungengið í betra samhengi við undirliggjandi þætti nú en fyrir hrun. Versnandi afkoma útflutningsfyrirtækja sem búa við harðan samkeppnismarkað ber þess þó merki að íslenskt vinnuafl sé of dýrt. Þessi áhrif snerta ekki aðeins hefðbundnar útflutningsgreinar eins og ferðaþjónustu eða sjávarútveg heldur einnig innlend fyrirtæki í framleiðslu, verslun og þjónustu. Íslensk fyrirtæki búa við harðara samkeppnisumhverfi en áður, t.a.m. vegna aukinnar netverslunar, innkomu alþjóðlegra fyrirtækja á innlendan markað og sífellt betri samgangna milli landa.

Heimildir: Seðlabankinn og Greiningardeild Arion banka

Raungengið líklega of sterkt

Raungengi er eins og nafnið gefur til kynna raunstærð og ræðst þ.a.l. til lengri tíma litið af þáttum úr raunhagkerfinu líkt og tæknistigi, framleiðni, náttúruauðlindum, stofnanafyrirkomulagi og sparnaðarhneigð.

Núverandi raungengi er hátt í sögulegu samhengi, bæði á mælikvarða verðlags og launa en eins og áður kom fram hefur jafnvægisraungengið hækkað og því virðist núverandi raungengi vera í betra samhengi við undirliggjandi þætti nú en fyrir hrun.

Þrátt fyrir það eru teikn á lofti um að raungengið sé farið að hafa áhrif á neyslu ferðamanna. Kortavelta á hvern ferðamann hefur verið að dragast saman auk þess sem hægt hefur töluvert á fjölgun ferðamanna. Þar að auki dróst viðskiptaafgangurinn sem hlutfall af VLF saman um meira en helming frá 2016-2017. Það er því okkar mat að núverandi raungengi muni að lokum leiða til halla og þá sérstaklega ef ytri aðstæður þróast til verri vegar. Þar við bætist að m.v. erlenda fjárfestingarþörf lífeyrissjóða þarf þjóðarbúið á talsverðum viðskiptaafangi að halda til að mæta fyrirsjáanlegu útstreymi nema til komi erlent innstreymi á móti.

Samfelld hækkun raungengis krónunnar er ekki sjálfbær til lengri tíma litið. Skert samkeppnishæfni og versnandi afkoma fyrirtækja sem búa við harðan samkeppnismarkað er til þess fallin að eitthvað verður undan að láta. Spenna á vinnumarkaði bendir til þess að innlent verðlag sé líklegra til að styrkja raungengið en veikja það. Sögulega séð hefur raungengið alltaf veikst í gegnum nafngengið á Íslandi og að okkar mati verður engin breyting þar á.