Óbreyttir stýrivextir: Peningastefnunefnd hnyklar vöðvana

Óbreyttir stýrivextir: Peningastefnunefnd hnyklar vöðvana

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnti í dag að hún hefði ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum í 4,25%. Ákvörðunin sjálf kom fáum á óvart, enda höfðu allir greiningaraðilar spáð óbreyttum meginvöxtum, en yfirlýsing nefndarinnar vakti töluverða athygli. Eftir fremur þurrar, litlausar og tilbreytingasnauðar yfirlýsingar að undanförnu tók tónn nefndarinnar kúvendingu. Að okkar mati var nefndin hvöss í máli og otaði vaxtaspjótinu að verðbólguvæntingum til lengri tíma, sem hafa farið yfir verðbólgumarkmið að undanförnu. Ítrekar nefndin að hún hafi bæði „vilja og þau tæki sem þarf til að halda verðbólgu við markmið til lengri tíma litið.“ Þá nýtti nefndin einnig tækifærið til að hnykla vöðvana og sendi vinnumarkaðnum og ríkisfjármálum tóninn, sem túlka má einhvern veginn svona: Við hikum ekki við að hækka vexti og ef hegðun ykkar mun ekki samræmast verðbólgumarkmiði mun það bitna á atvinnustigi. Boltinn er hjá ykkur.

Hvað varðar framsýnu leiðsögnina þá hefur hin trygga og trausta setning „Eigi að síður er þörf fyrir peningalegt aðhald í ljósi mikils vaxtar innlendrar eftirspurnar og undirliggjandi spennu á vinnumarkaði.“ fengið að fjúka og verið skipt út fyrir „Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili minni spennu í þjóðarbúskapnum, launaákvarðana og þróunar verðbólgu og verðbólguvæntinga.“ Peningastefnunefnd hefur sett leikreglurnar, munu aðrir spila með?

„Við gerum allt sem þarf“

Á kynningarfundinum í morgun kom fram að það olli nefndinni áhyggjum hvað verðbólguálag hefði hækkað mikið, þrátt fyrir að lítið að upplýsingum lægu fyrir sem ættu að valda auknum verðbólguvæntingum. Frá miðju sumri hefur álagið hækkað en mesta hækkunin kom eftir að Hagstofan birti verðbólgutölur í júní og árstakturinn hækkaði í 2,6%, úr 2%. Mælingar komu greiningaraðilum í opna skjöldu, enda vel yfir væntingum. Væntanlega hefur hærri taktur verðbólgunnar hreyft við markaðsaðilum sem hafa keypt verðtryggð skuldabréf og selt frá sér óverðtryggð. Aðalhagfræðingur Seðlabankans telur að mögulega hafi áhættuálag, sem er hluti af verðbólguálagi, aukist eftir að hafa verið frekar lágt tímabundið og að það væri áhyggjuefni ef verðbólguvæntingar væru farnar að hækka vegna óvissu um verðbólguþróun. Einnig er mögulegt að áhættuálagið hafi lítið breyst heldur hafi hærri verðbólga ýtt markaðsaðilum af stað í viðskipti sem þeir ætluðu að framkvæma en voru ekki vissir um tímasetningu.

Það eru hinsvegar ekki verðbólguvæntingar til skemmri tíma sem halda vöku fyrir nefndinni, heldur til lengri tíma. Verðbólguvæntingar markaðsaðila til fimm og tíu ára hafa hækkað að undanförnu, en tímabundið hærri verðbólga ætti ekki að losa um þær. Samkvæmt skoðanakönnun á meðal markaðsaðila þá vænta aðilar þess að stýrivextir haldist óbreyttir næstu tvö árin, þrátt fyrir stígandi verðbólgu og verðbólguvæntingar. Það má túlka það sem svo að markaðsaðilar telji auknar líkur á því að vægi fjármálastöðugleika verði aukið á kostnað verðlagsstöðugleika eða að óvissan um mögulegar breytingar á peningastefnu dragi úr líkum á því að Seðlabankinn hækki stýrivexti, þ.e. ef komi til “óvinsælla vaxtahækkana” þá auki það líkur á því að Alþingi breyti um stefnu í peningastefnumálum.

Seðlabankastjóri minnti markaðsaðila á að ef verðbólguvæntingar losna frá verðbólgumarkmiði þá hefur bankinn tæki til að bregðast við. "Við gerum allt sem þarf." eins og hann sagði á fundi með greiningaraðilum. Þó Seðlabankastjóri hafi gert lítið úr þeirri áherslu á fundinum þá er það vafalaust engin tilviljun að slíkt hafi verið nefnt nú.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Spennan eykst

Samhliða vaxtaákvörðuninni var nýtt rit Peningamála birt þar sem nýja þjóðhagsspá Seðlabankans er að finna. Þó að endapunkturinn, þ.e.a.s. hagvöxturinn sjálfur hafi tekið litlum breytingum, nú spáir Seðlabankinn 3,6% hagvexti samanborið við 3,3% í maí, hefur spáin sjálf tekið töluverðum breytingum. Mestu munar um hagstæðara framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar en áður var talið (fyrst og fremst sökum minni innflutningsvaxtar), sem vegur á móti hægari vexti þjóðarútgjalda, en spár fyrir bæði einkaneyslu og fjárfestingu voru færðar niður á við.

Þetta er nokkuð meiri hagvöxtur en við spáðum í júlí, en munurinn felst nær allur í ólíkri sýn á fjárfestingu, og þá einkum og sér í lagi á opinberri fjárfestingu. Seðlabankinn gerir ráð fyrir að hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi verði 4,6% en lækki þegar líður á árið. Samspil meiri hagvaxtar og hægari fjölgunar fólks á vinnualdri leiðir til þess að framleiðsluspennan samkvæmt áætlunum Seðlabankans mælist nokkuð meiri en í maí. Þetta eitt og sér eru ekki góðar fréttir fyrir vaxtadúfur, þar sem minnkandi framleiðsluspenna hefur að undanförnu verið burðarstólpinn í dúfnaprikinu.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Jafnvægi í ójafnvægi?

Annað í nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem vakti athygli okkar er spá bankans um þróun utanríkisverslunar og raungengis, og þá sérstaklega hversu lífseigur viðskiptaafgangurinn virðist vera út spátímann. Viðskiptaafgangurinn einn og sér vekur í sjálfu sér ekki upp spurningar, heldur hversu lítið sterkt, og hækkandi, raungengi virðist hafa á hann. Þannig spáir Seðlabankinn áfram raungengisstyrkingu, þó hún sé öllu minni en í maíhefti Peningamála.

Eins og við bentum á fyrir skömmu í markaðspunkti hefur jafnvægisraungengið hækkað, en við setjum hinsvegar spurningamerki við þróunina sem Seðlabankinn setur fram í þjóðhagslíkani sínu. Er raungengið í jafnvægi í dag, þegar landið er eitt það dýrasta í heimi og stærsta atvinnugreinin er farin að kveinka sér verulega? Getur hagkerfið staðið undir þeirri staðhæfingu til lengri tíma? Við teljum ekki. 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Sama hvernig horft er á það, verðbólgan er að aukast

Í Peningamálum er einnig að finna nýja verðbólguspá Seðlabankans og mat hans á undirliggjandi verðbólga. Skv. nýjustu gögnum hefur verðbólgan aukist á alla mælikvarða að mati Seðlabankans. Sem dæmi nemur ársverðbólgan 2,7%, ársverðbólga án húsnæðis 1,4% samanborið við -3,1% fyrir ári og samræmd vísitala neysluverðs (sem inniheldur ekki húsnæðisliðinn) nemur 1,9% en var -1,9% fyrir ári. Undirliggjandi verðbólga hefur aukist og miðgildi ólíkra mælikvarða nam 2,9% í júlí samanborið við 2,3% fyrir þremur mánuðum. Undirliggjandi verðbólga er því orðinn hærri heldur ársverðbólga.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Innfluttar vörur hafa hækkað um 1,1% undanfarna 12 mánuði á meðan verð innlendra vara hefur hækkað um 3%. Verðbólgan er því að verða til hér innanlands. Íslenska hagkerfið er því hætt að flytja inn verðhjöðnun í gegnum krónuna á sama tíma og útlit er fyrir að verðbólga í helstu viðskiptalöndum fari hækkandi. Seðlabankinn hefur hækkað verðbólguspá sína og nemur hækkunin 0,1-0,2% á ársgrundvelli fram á þriðja ársfjórðung 2019 en gerir síðan ráð fyrir eilítið lægri verðbólgu í framhaldinu en í síðustu Peningamálum. Þrátt fyrir uppfærða spá teljum við engu að síður líklegt að verðbólgan verði meiri en spá Seðlabankans gerir ráð fyrir, enda óvissan að okkar mati upp á við.

Hvað varðar vaxtaþróun næstu mánuðina teljum við ólíklegt að mikið verði hreyft við vöxtum, þó vissulega hafi nefndin galopnað á vaxtahækkanir með orðum sínum í dag. Eins og áður sagði, peningastefnunefnd hefur lagt reglurnar, framhaldið ræðst af því hvort vinnumarkaðurinn og hið opinbera spili með eða láti varnaðarorð nefndarinnar sem vind um eyru þjóta.