Verðbólgan mallar í hlutlausum

Verðbólgan mallar í hlutlausum

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,2% á milli mánaða í ágúst skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan lækkar þar með í 2,6%, úr 2,7% í júlí. Verðbólguspár greiningaraðila voru á bilinu 0,25-0,4% og er mælingin því rétt fyrir neðan spábil greiningaraðila sem birta spár opinberlega. Við spáðum 0,3% hækkun.

Helstu frávikin frá okkar spá eru föt og skór, sem hækkuðu minna en við reiknuðum með og flugfargjöld til útlanda, sem lækkuðu minna en við höfðum áætlað. Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 7,2% (-0,10% áhrif á VNV) milli mánaða í ágúst, en mæling okkar benti til 12,4% lækkunar. Flugliðurinn lækkar venjulega í ágúst og aftur í september, en lækkunin í september er yfirleitt hlutfallslega enn meiri. Í október hækka flugfargjöld síðan aftur. Matarkarfan hækkaði um 0,54% (0,06% áhrif á VNV) en við gerðum ráð fyrir 0,47% hækkun matarkörfunnar. Bensínverð stóð óbreytt á milli mánaða sem er nákvæmlega í takt við verðmælingar okkar á netinu. Bensín og dísel lítrinn stóðu óbreyttir í verði á milli mánaða. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá samantekt á mismun á mælingu Hagstofunnar og spá Greiningardeildar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Verðhækkanir fjölbýlis í raun engar

Eftir miklar sveiflur í fasteignaverði skv. mælingum Hagstofunnar þá var óvenju mikill samhljómur í ágúst, en mælingin fyrir öll svæði var undir 1%. Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkar mest, eða um 0,46%, en árstakturinn lækkar í 8,6%, úr 9,75% í júlí. Fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 0,45% á milli mánaða, árshækkun nemur 2,8% og  fer því hækkandi, úr 2,6%. Við vöktum athygli á því í verðbólguspá okkar að út frá þróun ásetts fermetraverðs færi árstaktur sérbýlis líklega lækkandi, þó hann væri áfram  hár, og að sama skapi sögðum við að líklega myndi árstaktur fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu fara aftur hækkandi, þó árshækkunin myndi ekki ná árshækkun sérbýlis. Fasteignaverð á landsbyggðina rekur lestina þennan mánuðinn, hækkar um 0,28%, en undanfarið árið nemur hækkunin hinsvegar 14,3% og er árstakturinn nær óbreyttur á milli mánaða.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hvað er að drífa verðbólguna?

Litlar breytingar eru á breytingum undirliða verðbólgunnar eftir eðli og uppruna á milli mánaða. Af 2,6% ársverðbólgu orsaka fasteignaverðshækkanir 1,46% (var 1,46% í síðust mælingu), opinber þjónusta 0,22% (0,25%), önnur þjónusta 0,34% (0,27%), innfluttar vörur 0,19% (0,3%) og innlendar vörur 0,33% (0,36%). Það er því ekki mikið undirliggjandi sem virðist vera að breytast. Hinsvegar eru nokkrir undirliðir sem virðast hafa breyst með öðrum hætti en vænst var. Flugfargjöld lækka minna en almennt var gert ráð fyrir, sem gæti þýtt að flugfargjöld séu farin að hækka vegna hærra eldsneytisverðs eða að lækkunin í september verði einfaldlega meiri. Verð á húsgögnum lækkar um 1,33% en spár bentu til hækkunar, áhrifin eru þó ekki mikil á vísitölu neysluverðs. Sama á við um verð á fatnaði, sem að vísu hækkar um 3,2%, en það er talsvert undir spám greiningaraðila. Þetta segir okkur að liðir sem undir venjulegum kringumstæðum verða fyrir miklum útsöluáhrifum, eru seinni til að hækka í ár eða eru ekki farnir að hækka , mögulega er þetta vegna meiri samkeppni en það ætti að sjást betur eftir næstu mælingu.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá: Með höfuðið í skýjunum

Útlit er fyrir að verðbólgan stígi í næsta mánuði þegar útsölur ganga að fullu tilbaka, en með haustinu detta einnig inn árstíðabundnar verðhækkanir. Þar sem lækkun flugliðarins var minni nú en almennt var gert ráð fyrir, gæti komið fram meiri verðlækkun flugfargjalda í september en ella, eða þá að flugfargjöld séu almennt að hækka vegna hækkandi olíuverðs. Það verður því spennandi að sjá hver mæling Hagstofunnar verður á flugliðnum, spenningur sem eflaust fleiri munu deila en sérstakir áhugamenn um undirliði vísitölunnar.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • September 0,35%: Ýmsar reglulegar hækkanir að hausti, útsölur ganga að fullu tilbaka.
  • Október 0,45%: Flugfargjöld hækka eftir árstíðabundna lækkunarsveiflu og því má búast við meiri hækkun vísitölu neysluverðs en mánuðina á undan ef undirliggjandi hækkun annarra undirliða helst óbreytt.
  • Nóvember -0,05%: Flugfargjöld lækka en annars rólegur verðbólgumánuður.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka