Þjónustuviðskipti á 2F: Afgangurinn minnkar og minnkar

Þjónustuviðskipti á 2F: Afgangurinn minnkar og minnkar

Hagstofan birti í morgun tölur um þjónustuviðskipti á öðrum ársfjórðungi. Út frá komutölum erlendra ferðamanna til landsins, kortaveltutölum erlendra ferðamanna og fordæmalausri ferðagleði landans lá fyrir að afgangurinn af þjónustuviðskiptum myndi minnka, og það verulega. Sú varð raunin. Afgangur af þjónustuviðskiptum nam 54,9 ma.kr., sem samsvarar 13,9% samdrætti á milli ára á föstu gengi. Þetta er annar ársfjórðungurinn í röð sem afgangur af þjónustuviðskiptum dregst saman, en sé fyrri helmingur ársins tekinn sem ein heild hefur afgangurinn minnkað um 15% frá sama tíma í fyrra. Þrátt fyrir það eru ekki öll glösin hálftóm, til að mynda hefur annar útflutningur reynst þrautseigari en á horfðist og hver ferðamaður er að eyða meira í krónum talið en áður.

Vöruskiptahallinn á öðrum ársfjórðungi, á greiðslujafnaðargrunni, var 49,8 ma.kr., sem er sambærilegur halli og á sama tíma í fyrra, er hann var 48,6 ma.kr., á föstu gengi. Þó að vöruskiptahallinn sé að breytast lítið sem ekkert milli ára vegur minni afgangur af þjónustuviðskiptum á móti, og vel það, og gerir það að verkum að afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum nam aðeins 5,2 ma.kr., sem samsvarar hvorki meira né minna en 66% samdrætti milli ára.

Í stuttu máli sagt eru heildartölurnar í góðu samræmi við okkar spá og væntingar. Þjónustujöfnuður á öðrum ársfjórðungi var jákvæður um 54,9 ma.kr. en við höfðum gert ráð fyrir 55,8 ma.kr. afgangi í okkar spá frá því í júlí. Þó munurinn á spánni og rauntölunum sé í sjálfu sér óverulegur, má sjá ýmis frávik þegar samsetning þjónustuútflutnings er skoðuð nánar. Helsti munurinn felst í óferðaþjónustutengdum útflutningi sem var talsvert sterkari en við þorðum að vona. Skiptir hér vöxtur í útfluttri fjármálaþjónustu og fjarskipta-, tölvu, og upplýsingaþjónustu mestu máli. Það eru jákvæðar fréttir að óferðaþjónustutengdur þjónustuútflutningur sé jafn þrautseigur og raun ber vitni, en mikið hefur verið rætt og ritað um að ferðaþjónustan sé að ryðja öðrum útflutningsgreinum úr vegi, gjarnan nefnt „hollenska veikin“.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

„When it hasn‘t been your day, your week, your month, or even your year“

Hvað varðar ferðaþjónustuna sjálfa þá voru tölurnar nokkuð lakari en vonir stóðu til um. Það voru þó ekki ferðamennirnir sem ollu vonbrigðum, heldur var verðmætasköpun farþegaflutninga með flugi nokkuð minni en við höfðum spáð. Fyrirfram höfðum við reiknað með lítilsháttar vexti í útflutningstekjum, enda samanlagður farþegafjöldi íslensku flugfélaganna að aukast um rúm 16% milli ára. Raunin varð hinsvegar 6% samdráttur milli ára, á föstu gengi, þróun sem mögulega má rekja til lægri meðalverða á flugfargjöldum. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2014 sem samdráttur mælist í farþegaflutningum, enda hafa leiðarkerfi íslensku flugfélaganna farið ört stækkandi síðustu ár.

Verulega hægði á vexti í neyslu ferðamanna (undirliðurinn Ferðalög) og nam hann 4% á öðrum ársfjórðungi. Svo lítill vöxtur hefur ekki mælst frá árinu 2010. Þessi þróun er þó ekki eins og þruma úr heiðskýru lofti, þar sem komutölur til landsins og kortaveltutölur höfðu sýnt fram á að farið væri að þykkna upp og draga fyrir sólu.

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Þó farið sé að þykkna upp yfir ferðaþjónustunni eru nokkrir sólargeislar sem smjúga í gengum skýin. Sem dæmi bera ferðaþjónustufyrirtæki flest hver kostnað í krónum, og því ætti að vera ánægjulegt að sjá að eyðsla á hvern ferðamann í krónum talið er að aukast, annan ársfjórðunginn í röð. Á móti vegur að hver ferðamaður er að eyða minna en áður í sinni eigin mynt. Mögulega er þetta ein birtingarmynd þess hversu dýr áfangastaður landið er orðið og að dvalartíminn sé tekinn að styttast. Hafa ber í huga að samdrátturinn nemur þó aðeins 0,8% milli ára og því ekki hægt að draga of sterkar ályktanir að svo stöddu.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Ferðamálastofa, Greiningardeild Arion banka

Sól, sól skín á mig

Þjónustuinnflutningur jókst verulega umfram þjónustuútflutning á milli ára, eða um 13% samanborið við 3% vöxt útflutnings. Vöxtinn má fyrst og fremst rekja til ferðagleði landans á öðrum ársfjórðungi, en íslenskir ferðamenn voru svo sannarlega ófeimnir við að nýta sér sterka krónu og mikinn kaupmátt í erlendri mynt á öðrum ársfjórðungi (og mögulega að flýja vætusamt vor). Hver íslenskur ferðamaður eyddi að jafnaði 296 þúsund krónum í utanlandsferð sinni, sem er 7% aukning frá sama tíma í fyrra, á föstu gengi. Það er sama hvort horft er á neyslu íslenskra ferðamanna í erlendri mynt eða krónum, neyslan er að aukast á báða mælikvarða, annan ársfjórðunginn í röð. Fram að því hafði birtingarmynd sterkari krónu verið tíðari fjöldi utanlandsferða, ekki meiri eyðsla, en einhver viðsnúningur virðist vera þar á. Ferðagleði landans á öðrum ársfjórðungi þýðir að ferðalagajöfnuður, þ.e. neysla erlendra ferðamanna hér á landi að frádreginni neyslu íslenskra ferðamanna erlendis, hefur dregist nokkuð saman á milli ára, eða um 8,5%.

Á mánudaginn næsta birtir Seðlabankinn tölur um viðskiptajöfnuð. Í ljósi þess að afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum er ekki meiri en raun ber vitni, útilokum við ekki að viðskiptahalli verði raunin á öðrum ársfjórðungi. Eftir því sem innfluttu vinnuafli fjölgar á landinu hafa neikvæð rekstrarframlög, s.s. hreinar peningasendingar milli landa, farið að hafa meiri áhrif á viðskiptajöfnuð. Frumþáttatekjurnar eru stærsti óvissuþátturinn, en við reiknum með að þær verði neikvæðar. Líkurnar á viðskiptahalla eru þar af leiðandi meiri en minni.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Ferðamálastofa, Greiningardeild Arion banka