Enn minnkar viðskiptaafgangurinn

Enn minnkar viðskiptaafgangurinn

Í gær birti Seðlabanki Íslands bráðabirgðatölur um greiðslujöfnuð og erlenda stöðu þjóðarbúsins fyrir annan ársfjórðung. Viðskiptaafgangur við útlönd á öðrum ársfjórðungi 2018 var 1,6 milljarður króna. Þetta er töluvert minni afgangur en á sama tíma í fyrra og minnsti afgangur á einstaka fjórðungi frá árinu 2014. Þrátt fyrir það eru tölurnar nokkuð sterkari en við áttum von á, en spá okkar frá því í júlí hljóðaði upp á 1,5 ma.kr. viðskiptahalla. Frávikin frá spánni má fyrst og fremst rekja til frumþáttatekna, sem reyndust jákvæðar þvert á væntingar okkar, og rekstrarframlaga, sem reyndust ekki jafn neikvæð og við höfðum áður talið. Þá er áhugavert að sjá að Seðlabankinn hefur uppfært tölurnar fyrir fyrsta ársfjórðung, úr 0,3 ma.kr. afgang í 3,2 ma.kr. afgang. Munar þar mestu um endurskoðun á þjónustujöfnuði og frumþáttatekjum upp á við. Þó nýjustu tölur fyrir fyrri helming ársins séu betri en væntingar stóðu til um sjáum við ekki ástæða til að breyta spá okkar fyrir árið, sem hljóðar upp á rúmlega 40 ma.kr. viðskiptaafgang, þar sem hratt hefur hægt á ferðaþjónustunni að undanförnu.

Sem fyrr er það afgangur af þjónustuviðskiptum sem dregur vagninn, með ferðaþjónustuna í farabroddi. Frumþáttatekjur, sem eru laun og fjárfestingatekjur sem innlendir aðilar fá greitt frá erlendum aðilum að frádreginni þeirri upphæð sem innlendir aðilar greiða erlendum aðilum, leggja einnig hönd á plóg en þær voru jákvæðar um 104 m.kr.. Þessi undirliður er gjarnan mikið ólíkindatól og er þetta langt frá því að vera í fyrsta skipti sem þróun hans kemur okkur á óvart. Fyrirfram höfðum við búist við halla, þrátt fyrir jákvæða erlenda stöðu þjóðarbúsins, þar sem vaxtamunur milli Íslands og útlanda er ennþá nokkur. Við vorum þó ekki ein um það, sem dæmi færði Seðlabankinn spá sína fyrir jöfnuð frumþáttatekna niður á við í nýjasta hefti Peningamála sem kom út í síðustu viku, úr -0,8% af VLF í -1% af VLF. Hvað varðar síðasta undirliðinn, rekstrarframlög, þá var hann neikvæður um 3,6 ma.kr., sem er töluvert minni halli en við höfðum gert ráð fyrir. Undir rekstrarframlög falla peningasendingar milli landa, hreyfingar sem hafa aukist töluvert að undanförnu eftir því sem erlendu vinnuafli fjölgar. Í ljósi þess að undir lok annars ársfjórðungs bjuggu 41 þúsund erlendir ríkisborgarar á Íslandi og erlendum ríkisborgurum fjölgaði nettó um 1.750 á fjórðungnum gerðum við ráð fyrir nokkuð neikvæðari rekstrarframlögum en raun ber vitni.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Viðskiptaafgangur á öðrum ársfjórðungi 2017 nam 11,9 ma.kr., samanborið við 1,6 ma.kr. í ár. Það samsvarar hvorki meira né minna en 86% samdrætti milli ára! Hér að neðan má sjá í hverju munurinn felst. Ef við byrjum á einu jákvæðu breytingunni þá voru rekstrarframlög ekki jafn neikvæð og fyrir ári síðan. Á móti vegur meiri vöruskiptahalli í ár en í fyrra og minni afgangur af þjónustuviðskiptum, sem samtals nemur 9,5 ma.kr. Líkt og við fjölluðum um í Markaðspunkti á föstudaginn mátti finna nokkra sólargeisla í tölunum yfir þjónustuviðskipti, þrátt fyrir minni afgang, s.s. að annar útflutningur reyndist þrautseigari en á horfðist og hver ferðamaður var að eyða meiru í krónum talið. Fjórða og síðasta breytingin er minni frumþáttatekjur. Samkvæmt nýjustu tölum fóru þær úr því að vera jákvæðar um 2,5 ma.kr. niður í 104 m.kr. Skiptir hér mestu minni tekjur af beinni erlendri fjárfestingu, en á móti vegur að tekjur erlendra aðila af beinni fjárfestingu hér á landi voru einnig að dragast saman.

Hvað varðar fyrri helming ársins þá hefur viðskiptaafgangurinn minnkað úr 19,6 ma.kr. niður í 4,8 ma.kr., eða um 75% milli ára. Vegur þar þyngst minni afgangur af þjónustuviðskiptum. Aftur á móti er örlítið minni vöruskiptahalli í ár, enda ekkert sjómannaverkfall eða annars konar áfall að lita vöruútflutning. Þriðji ársfjórðungur ber alla jafna höfuð og herðar yfir aðra fjórðunga þegar kemur að viðskiptaafgangi, enda nær hann yfir háannatíma ferðaþjónustunnar. Við teljum að svo verði einnig raunin í ár, en að þróun undanfarinna fjórðunga haldi áfram, þ.e.a.s. að afgangurinn muni minnka allverulega á milli ára.

 

 Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Erlend staða þjóðarbúsins vænkast

Samkvæmt nýjustu tölum Seðlabankans hefur erlend staða þjóðarbúsins aldrei verið betri, en hún nam 260 ma.kr. undir lok annars ársfjórðungs, sem samsvarar hvorki meira né minna en 10% af VLF. Alls batnaði hrein erlend staða um 69 ma.kr., eða 2,6% af VLF á fjórðungnum. Hrein erlend staða mælir mismun erlendra eigna og skulda þjóðarbúsins. Þetta er fjórði fjórðungurinn í röð sem erlenda staðan batnar um 50 ma.kr. eða meira, en fyrir ári síðan var erlenda staðan neikvæð um 1,1% af VLF. Samspil tveggja þátta útskýrir breytinguna á 2F, í fyrsta lagi bættu hrein fjármagnsviðskipti erlendu stöðu þjóðarbúsins um 15. ma.kr. og í öðru lagi höfðu gengis- og verðbreytingar jákvæða áhrif um sem nemur 59 ma.kr.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Krónan rær í ládeyðu

Í grunninn má líta á greiðslujöfnuð sem pening, á annarri hliðinni er viðskiptajöfnuðurinn, á hinni hliðinni er fjármagnsjöfnuðurinn. Í hinum fullkomna heimi ættu fjármagnsjöfnuður og viðskiptajöfnuður að núlla hvorn annan út. Ef fyrirtæki flytur út vörur til erlendra kaupenda þá færast viðskiptin sem vöruútflutningur, og þar af leiðandi í viðskiptajöfnuð, á meðan greiðslan fyrir vörurnar færast í fjármagnsjöfnuð. Heimurinn er hinsvegar langt því frá að vera jafn einfaldur og heimur hagfræðibókanna m.a. vegna tímaskekkju, verðskekkju og magnskekkju, og því er alla jafna talsverður munur á viðskipta- og fjármagnsjöfnuði.

Nokkuð hefur verið fjallað um litla veltu á gjaldeyrismarkað að undanförnu og spegla tölurnar þá þróun vel, en lítið er um stórar breytingar. Á öðrum ársfjórðungi var fjármagnsjöfnuðurinn jákvæður um 14,9 ma.kr. Erlend eign Íslendinga jókst um 15 ma.kr. á meðan innlend eign erlendra aðila jókst um 178 m.kr. Þannig var eignastaða Íslendinga gagnvart útlöndum að batna, sem endurspeglast í bættri erlendri stöðu. Hvað varðar erlendar eignir Íslendinga í útlöndum munar mestu um aukna fjárfestingu í hlutabréfum og hlutdeildaskírteinum. Þetta er fimmti fjórðungurinn í röð sem fjármagnsjöfnuðurinn er jákvæður, eða allt frá því að höft voru losuð. Eins og staðan er í dag teljum við flest benda til þess að áfram verði útflæði í erlendar eignir og að þrýstingur geti orðið á gengi krónunnar. Vaxtamunur við Bandaríkin er að minnka, lífeyrissjóðirnir eru að stækka erlent eignasafn sitt og viðskiptaafgangurinn er að minnka hratt. Til að viðhalda hinu margumtalaða góða jafnvægi á gjaldeyrismarkaði er því ljóst að fjárfestingar erlendra aðila hér á landi þurfa helst að aukast.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka