Dúndrandi hagvöxtur

Dúndrandi hagvöxtur

 

Hagstofa Íslands birti nú í morgun þjóðhagsreikninga annars ársfjórðungs þessa árs. Hagvöxtur mældist 7,2% á öðrum fjórðungi sem er mun meiri vöxtur en greiningaraðilar gerðu ráð fyrir. Þess ber þó að geta að hagvöxtur á fyrsta fjórðungi var tekin niður úr 6,6% í 5,6% sem gæti skýrt þetta að hluta til. Það sem kemur okkur hvað helst á óvart er 7,5% vöxtur fjárfestingar ásamt því að innflutningur dróst saman.

Heimildir: Hagstofa Íslands og Greiningardeild Arion banka

Það sem skýrir þennan mikla fjárfestingarvöxt er hvað helst atvinnuvegafjárfestingin en hún óx um 6%. Atvinnuvegafjárfestingin vegur alla jafna þyngst í fjárfestingunni eða u.þ.b. 2/3 af heildarfjárfestingu. Seðlabankinn færði spá sína um atvinnuvegafjárfestinguna niður í -7,2% úr -2,5% fyrir árið 2018 í nýútgefnum Peningamálum og við spáum samdrætti upp á 3,5%. Þær tölur sem liggja fyrir núna virðast því miklu sterkari en spá okkar og Seðlabankans.

Vöxtur fjárfestingar í íbúðarhúsnæði um 19% hefur auðvitað áhrif líka en íbúðarhúsnæðið hefur þó mun minna vægi eða um 1/6 og var fjárfesting í því töluvert betur í takti við væntingar.

Heimildir: Hagstofa Íslands og Greiningardeild Arion banka

Tölur um inn- og útflutning voru miklu hagstæðari en við reiknuðum með og komu okkur því verulega á óvart. Ekki síst þar sem helstu undirliggjandi tölur um utanríkisviðskipti lágu fyrir, svo sem tölur um vöruviðskipti og þjónustuviðskipti, eins og við fjölluðum um í Markaðspunkti fyrr í vikunni. Niðurstaða Hagstofunnar um inn- og útflutning kemur okkur því á óvart. Vöruinnflutningur dróst saman um 6,5% á öðrum ársfjórðungi og vöruútflutningur um 1,4% samkvæmt útreikningum Hagstofunnar. Þjónustuútflutningur óx um 2,7% á meðan að þjónustuinnflutningur óx um 10,3% sem stafar að miklu leyti af ferðagleði Íslendinga á fjórðungnum.

Heimildir: Hagstofa Íslands og Greiningardeild Arion banka

Framlag einkaneyslu til hagvaxtar var mest eða 2,6% sem nemur 37% af vextinum. Þar á eftir kemur fjármunamyndunin en framlag hennar var 1,8% eða um fjórðungur vaxtarins. Loks má nefna að framlag birgðabreytinga til hagvaxtar nam 22% á fjórðungnum sem er umtalsvert meira en það hefur verið að undanförnu.  

 

 Heimildir: Hagstofa Íslands og Greiningardeild Arion banka

Einkaneyslan hefur vaxið samfleytt síðan á þriðja fjórðungi árið 2010 en vöxturinn náði hámarki á öðrum fjórðungi 2017 og nam þá 9,8%. Þar af leiðandi verður 5,1% vöxtur einkaneyslunnar að teljast mikill í ljósi þess hve sterkur samanburðarfjórðungurinn var. Þrátt fyrir að vægi einkaneyslu í landsframleiðslunni hafi heilt yfir farið minnkandi síðasta áratug að þá hefur hún enn mesta vægið og þ.a.l. hefur vöxtur hennar mikil áhrif á hagvöxtinn.

Heimildir: Hagstofa Íslands og Greiningardeild Arion banka

Ef litið er á fyrri helming ársins (1H) samanborið við fyrri helming ársins 2017 þá óx landsframleiðslan um 6,4% samanborið við 5,4% árið 2017, sem er því öllu meiri vöxtur en á sama tíma á síðasta ári. Einkaneyslan jókst um 5,3%, samneyslan um 3,1% og fjármunamyndun um 7,6%. Þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, jukust alls um 6,2%, sem er sambærilegur vöxtur og í fyrra. Atvinnuvegafjárfestingin það sem af er ári spilar stóra rullu í því að fjárfestingin hefur haldist svona sterk það sem af er ári. Þá jókst innflutningur um 4,1% og útflutningur um 4,5% en hafa ber í huga að sjómannaverkfallið sem stóð yfir í byrjun árs litar samanburð milli ára.

Heimildir: Hagstofa Íslands og Greiningardeild Arion banka

Í ágúst uppfærðum við hagspána okkar og færðum hagvaxtarspá okkar eilítið upp á við eða úr 2,8% hagvexti í 3,0%. Að sama skapi færði Seðlabankinn spá sína úr 3,3% vexti upp í 3,6% vöxt í nýútgefnum Peningamálum. Verði enginn hagvöxtur það sem eftir lifir árs yrði hagvöxtur 2018 miðað við þær tölur sem liggja fyrir u.þ.b. 3,4%. Þar af leiðandi virðast vera meiri líkur en minni að hagvöxtur verði meiri á árinu en við höfðum gert ráð fyrir.