Flug og föt vega salt

Flug og föt vega salt

Við spáum 0,3% hækkun á vísitölu neysluverðs í september, sem er rétt undir bráðabirgðaspá okkar frá því í lok ágúst sem hljóðaði upp á 0,35% hækkun. Samkvæmt spánni hækkar 12 mánaða taktur verðbólgunnar í 2,8% úr 2,6% frá því í síðasta mánuði. Hagstofan mælir vísitöluna 10. til 14. september og mælingin verður birt miðvikudaginn 27. september.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Helstu áhrifaliðir á verðbólguna í september eru lesendum gamalkunnir.  Sá veigamesti þennan mánuðinn er tvímælalaust flugfargjöld, þrátt fyrir að vega aðeins 1,32% í vísitölunni, enda gríðarlega sveiflukenndur liður og breytingin milli mánaða oftar en ekki tveggja stafa tala.  Tölfræðilíkanið okkar, sem notar hegðun undirvísitölunnar undanfarin ár, bendir til þess að lækkunin verði rúmlega 20% þennan mánuðinn. Mæling okkar á flugfargjöldum á netinu bendir til að lækkunin sé enn meiri en tölfræðilíkanið gefur til kynna. Góð reynsla af tölfræðilíkaninu, og þar sem mælingin á netinu er lítil í sniðum, segir okkur að horfa frekar til niðurstöðu líkansins.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Og allir saman nú

Flestir aðrir undirliðir eru til hækkunar en þó með örlítið breyttu sniði en undanfarin misseri. Þó fasteignaverð virðist enn vera að hækka þá eru vísbendingar um að það sé farið að hægja á hækkununum en á móti virðast ýmsar aðrar vörur vera að hækka meira. Í síðasta mánuði hækkaði verð á húsgögnum og fatnaði minna en vænst var og því má gera ráð fyrir að verðhækkanirnar verði meiri nú í september en ella. Venjulega hækka þessir tveir liðir í ágúst og september þegar útsöluáhrif ganga til baka. Einnig hefur komið fram að IKEA hækkaði verðskrána um 4% að meðaltali, í fyrsta sinn í dágóðan tíma. Ef gert er ráð fyrir að aðrir smásalar húsgagna hækki sín verð í sama mæli má ætla að heildaráhrif þessarar hækkunar séu 0,05% til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Í spánni er hinsvegar ekki gert ráð fyrir að hækkun húsgagna komi inn strax að fullu.

Mæling okkar á bensínverði á netinu bendir til að bensínverð hafi hækkað um 1,1% samanborið við mánuðinn á undan (0,03% áhrif á VNV). Þrátt fyrir háværa umræðu um veikingu krónunnar og hækkun olíuverðs  að undanförnu þá verður að hafa í huga að  krónan hefur veikst minna á móti Bandaríkjadal. Verðbreytingar á olíu eru í dollar og því eru heildaráhrifin minni en umræðan gefur til kynna. Bensínverð í Bandaríkjunum reiknað yfir í krónur hefur lítið hækkað miðað við mánuðinn á undan, sem er staðfest af mælingu okkar á netinu.

Heimildir: bensinverd.is, Greiningardeild Arion banka

Dregur úr hækkunartakt fasteignaverðs – frá Quickstep í hægan vals

Gagnasöfnun okkar á ásettu verði í fasteignaauglýsingum bendir til þess að árshækkunartaktur fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu haldi áfram að lækka þó hann sé enn jákvæður. Árshækkun fasteignaverðs á landsbyggðinni er enn talsvert hærri en takturinn á höfuðborgarsvæðinu. Það sem vekur mesta athygli er hversu mikill munur er á ársbreytingu ásetts verðs sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu og ársbreytingu í mælingum Hagstofunnar. Í síðustu mælingu Hagstofunnar nam árstakturinn 8,6% en þróun ásetts verðs bendir til að árstakturinn sé nær 2-4%. Ásett verð sérbýlis nam um 350 þúsund krónur á fermetra í byrjun árs 2017, hækkaði síðan í um 400 þúsund krónur á fermetra í september fyrir ári og stendur þar enn. Árstakturinn er því að lækka hratt samkvæmt þróun ásetts verðs á sérbýli. Í mánaðarlegu verðbólguspánni gerum við heilt yfir ráð fyrir að reiknuð húsaleiga (fasteignaverð) hækki um 4% eða 4,9% á ársgrundvelli.

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá:

Innfluttar vörur vega rúmlega 30% í vísitölu neysluverðs. Síðan við gerðum síðustu verðbólguspá hefur gengisvísitala íslensku krónunnar veikst um 5,9%, þróun sem hefur leitt til þess að bráðabirgðaspá okkar hefur hækkað umtalsvert. Haldist krónan óbreytt næstu mánuði spáir skammtímalíkanið okkar 3,5% verðbólgu í lok árs, sem er nokkuð meiri verðbólga en við höfum áður spáð og hraðari stígandi en við höfðum áður reiknað með. Ef aftur á móti krónan styrkist og  fer í sama gildi og hún var í byrjun ágúst, þegar síðasta spá var gerð, þá spáir líkanið að ársverðbólgan í desember verði 3,1%. Innlendar vörur eru í samkeppni við innfluttar vörur og því veita innfluttar vörur ákveðið aðhald. Hækki innfluttar vörur í verði eykur það líkurnar á að innlendir hækki einnig.
Við teljum að árstakturinn fari yfir 3% næstu mánuði.  Það er meiri verðbólga en hagspá okkar gerði ráð fyrir, sem birt var í byrjun ágúst. Samkvæmt þeirri spá færi verðbólgan í 3% í lok árs 2018 en myndi síðan aukast enn frekar þegar líða tæki á árið 2019. 
Undirliggjandi forsendur í þeirri spá voru að gengi krónunnar myndi haldast nokkuð stöðugt framan af en gefa eftir þegar líða tæki á árið 2019. Raunin er hinsvegar sú að í dag stendur krónan í 130 gagnvart evrunni, staða sem við héldum að myndi ekki koma upp fyrr en mun síðar. Lesendur ættu að hafa í huga að verðbólguspáin er unnin í tíðindamikilli fréttaviku og hætt er við því að skammtímasveiflur liti verðbólguspá næstu mánaða um of.

Verðbólguþróun næstu mánuði (bráðabirgðaspá síðasta mánaðar birt í sviga):

  • Október 0,6% (0,4%): Flugfargjöld hækka eftir árstíðabundna lækkunarsveiflu og því má búast við meiri hækkun vísitölu neysluverðs en í mánuðunum á undan, veiking krónunnar hefur áhrif á flestar innfluttar vörur
  • Nóvember 0,15% (-0,05%): Flugfargjöld lækka en annars rólegur verðbólgumánuður
  • Desember 0,5%: Flugfargjöld hækka sem og flestir vöruflokkar

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka