Seðlabankinn mun halda í sér, rétt svo

Seðlabankinn mun halda í sér, rétt svo

Peningastefnunefnd kynnir vaxtaákvörðun miðvikudaginn 3. október. Rúmur mánuður verður þá liðinn frá síðustu ákvörðun. Þá var nefndin á einu máli um að halda vöxtum óbreyttum, sjöunda fundinn í röð. Skilaboð nefndarinnar voru hins vegar harkalegri en áður og framsýna leiðsögnin afdráttarlausari: „Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili minni spennu í þjóðarbúskapnum, launaákvarðana og þróunar verðbólgu og verðbólguvæntinga,“ eins og segir í yfirlýsingunni. Í ljósi þess hve september hefur verið tíðindaríkur gætu orðið skiptar skoðanir innan nefndarinnar um vaxtaákvörðun en við höllumst að því að nefndin haldi vöxtum óbreyttum að þessu sinni.

Verðbólguálag áfram á uppleið – áhætta, spá eða bæði?

Við kynningu á síðustu vaxtaákvörðun og í umræðu á opinberum vettvangi hafa meðlimir í peningastefnunefnd að okkar mati tekið af öll tvímæli um að hækkun stýrivaxta kunni að vera á næsta leiti. Hvað svo sem líður umræðu um breytta peningastefnu þá veitir núverandi umgjörð nefndinni lítið svigrúm til þess að láta annað en verðbólguhorfur ráða för.

Heimild: Kodiak Excel, Greiningardeild Arion banka

Frá síðustu vaxtákvörðun hefur verðbólguálag á markaði haldið áfram að hækka og situr langtíma verðbólguálag á markaði í kringum 4%. Þó svo við eigum von á því að verðbólga skríði upp í 3,5% fyrir lok árs og að hún geri atlögu við 4% á næsta ári þá er 4% verðbólguálag til lengri tíma líklega fullhraustlegt. Seðlabankinn hefur haldið fram þeirri skoðun að verðbólguálag á markaði endurspeglaði einnig aukið áhættuálag. Við erum sammála þeirri skoðun. 

 

Heimild: Hagstofan, Greiningardeild Arion banka

Óbreyttir vextir en aðhald hefur samt verið að aukast

Það er hins vegar svo að peningalegt aðhald er ekki eingöngu ákvörðun Seðlabankans. Að undanförnu hefur gætt hækkunar á vöxtum húsnæðislána hjá bönkum og lífeyrissjóðum. Í því felst aukið peningalegt aðhald. Í frétt á Vísi í gær bendir Gylfi Zoëga, nefndarmaður í Peningastefnunefnd, réttilega á að þessar hækkanir endurspegla hækkun verðbólguvæntinga. Hækkun húsnæðislánavaxta endurspeglar einnig minni eftirspurn á skuldabréfamarkaði eftir sértryggðum skuldabréfum og lítinn og einsleitan fjárfestahóp. Við teljum að Peningastefnunefnd og Seðlabankinn þurfi í auknum mæli að hafa í huga miðlun peningastefnunnar í gegnum alla eignamarkaði nú þegar dregið hefur úr lausu fé á markaði.

Heimild: Hagstofan, Greiningardeild Arion banka

Mælingar á verðbólguvæntingum, t.d. heimila og fyrirtækja, hafa þokast upp á við að undanförnu. Hingað til hafa þær þó ekki gefið til kynna afgerandi hækkun á verðbólguvæntingum. Hafa ber í huga að yfirlýsingar Peningastefnunefndar í þá átt að stýrivextir geti farið hækkandi, hækka yfirleitt nafnvexti frekar en raunvexti, og verðbólguálag hækkar. Hættulegt gæti því verið að túlka verðbólguálag á markaði um of. Peningastefnunefnd mun væntanlega hafa úr nýrri upplýsingum að spila við vaxtaákvörðun í næstu viku. Við eigum von á að væntingarnar haldi áfram að þokast upp á við og því verður úr vöndu að ráða.

Veikari króna þarf ekki að kalla á hærri vexti

Stærsta ástæða hærri verðbólguvæntinga er veiking krónunnar á síðustu vikum. Fljótt á litið og horft til baka á sögu vaxtaákvarðana ætti að vera nokkuð borðleggjandi að komið væri að þeim lið í íslensku efnahagshringrásinni að veikari króna leiddi af sér hærri verðbólguvæntingar sem síðan leiddu af sér hækkun vaxta. Við höldum hins vegar að nefndin kjósi að bíða. Við teljum að nefndin muni líka hafa í huga að á bak við veikingu krónunnar liggur ótti um um að samdráttur kunni að standa fyrir dyrum í ferðaþjónustunni. Verði það raunin má ætla að hratt myndist slaki á vinnumarkaði og framleiðsluspenna dragist saman, en hingað til hefur framleiðsluspennan verið ein helsta ástæðan fyrir því að vextir hafa ekki lækkað þeim mun meira.

Hafa má í huga að þjóðhagsspá Seðlabankans gerir ráð fyrir lítils háttar styrkingu krónunnar. Þróun krónunnar að undanförnu er því líkleg til að hækka verðbólguvæntingar bankans. Líklega mun peningastefnunefnd þó endurtaka að þrátt fyrir allt sé gjaldeyrismarkaður í jafnvægi. Við teljum að sú skoðun að krónan sé fullsterk njóti vaxandi fylgis og að á komandi misserum verði þrýstingur til veikingar. M.v. fyrri yfirlýsingar stjórnenda bankans (t.d. ræðu Seðlabankastjóra á ársfundi bankans) slá þeir ekki hendinni á móti lækkun á raungengi krónunnar burtséð frá gengisspá í þjóðhagslíkani. Það gæti þýtt að stjórnendur bankans telji brátt tímabært að huga að endurskoðun innflæðishafta, t.d. með því að heimila fjárfestingu útlendinga í löngum skuldabréfum fyrirtækja. Að okkar mati er sú breyting tímabær.

Ótrúlegur hagvöxtur – hagfelld samsetning

Hagvaxtartölur fyrir annan ársfjórðung sem birtar voru fyrr í þessum mánuði gefa hins vegar ekki til kynna að hér sé að slakna á, þvert á móti. Hagvöxtur var langt yfir okkar væntingum, sem og væntingum Seðlabankans en bankinn vænti 4,6% hagvexti á öðrum ársfjórðungi. Við eigum von á að Peningastefnunefnd taki hagvaxtartölunum með ákveðnum fyrirvara. Þannig kemur það nefndinni eflaust spánskt fyrir sjónir að hér hafi mælst samdráttur í innflutningi á sama tíma og mikill kraftur var í vexti fjárfestingar. Ef nefndin hins vegar tekur útkomunni fyrirvaralaust þá hlýtur hún að gleðjast yfir samsetningu hagvaxtarins, enda sýndi hún mjög hagfellda samsetningu þar sem framlag utanríkisverslunar var jákvætt á sama tíma fjárfesting stóð traustum fótum.

Öll viðbrögð við hagvaxtartölum annars ársfjórðungs einkenndust að vantrú eða áhugaleysi. Krónan hélt t.d. veikingu áfram sama dag og tölurnar voru kynntar og hlutabréf lækkuðu. Það voru enda ýmist tíðindi eða tíðindaleysi af útboði WOW air sem áttu sviðsljósið og ýttu við markaðsaðilum. Það er einkennandi fyrir væntingar til næstu ára. Allir vita að hagkerfið hefur verið sterkt en það eru blikur á lofti í ferðaþjónustu og það eru framtíðarvæntingar en ekki fortíðartölur sem ráða stefnu markaða. Við teljum að Seðlabankinn kjósi að líta stöðuna sömu augum og velji að bíða með vaxtahækkun þar til skýrari mynd fæst á þróun framboðs á flugi til og frá landinu, og þar með horfur á fjölda ferðamanna á næstu árum.

Heimild: Hagstofan, Greiningardeild Arion banka

Nú er tími fyrir sviðsmyndir

Smám saman er að fást skýrari mynd á kröfur launaþegahreyfinga í komandi kjaraviðræðum. Það kemur okkur ekki á óvart að spjótum er beint að hinu opinbera og áhersla lögð á breytingar á félagslegum aðgerðum á borð við hækkun persónuafsláttar, hækkun vaxtabóta, barnabóta og fleira í þeim dúr. Þá verður vafalítið gerð krafa um sérstakar aðgerðir á húsnæðismarkaði. Útspil ríkisins í fjárlagafrumvarpi næsta árs mun væntanlega ekki duga til að aðilar vinnumarkaðar fallist í faðma og því teljum við líklegt útgjöld ríkisins verði talsvert meiri. Á þessari stundu er hins vegar engan veginn tímabært fyrir Peningastefnunefnd að breyta um kúrs vegna annað hvort krafna á vinnumarkaði eða nýs fjárlagafrumvarps. Nefndin ætti að okkar mati að túlka frumvarpið nokkuð hlutlaust og engar launákvarðanir eða launakröfur liggja fyrir sem breyta ættu kúrs nefndarinnar.

Þó svo að þungi kjarabóta næstu misserin komi fram í gegnum félagslegar aðgerðir fylgir því ákveðinn verðbólguþrýstingur, leiði þær aðgerðir til lakari afkomu hins opinbera. Það væri í anda gagnsærrar peningastefnu að nefndin myndi gefa innsýn í hvaða sviðsmyndir kalla á hvaða viðbrögð af hennar hálfu. Af fréttum að dæma má vænta kröfugerða frá stórum launþegasamtökum í næsta mánuði.

Húsnæðið fer að kæla

Síðasta mæling á vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sýndi 4,1% hækkun á ársgrundvelli sem er minnsta hækkun frá 2011. Verulega hefur hægt á húsnæðisverði og við erum áfram þeirrar skoðunar að húsnæðisliður muni áður en langt um líður stuðla að kælingu verðbólgu, þ.e. hækki minna en annað verðlag. Í ljósi þess þarf að vanda mjög til verka ef ráðast á í stórtækar sértækar aðgerðir á húsnæðismarkaði. Sagan kennir að illa tímasettar opinberar aðgerðir á eftirspurnarhlið geta þrýst húsnæðisverði frekar upp, eða á framboðshlið fryst kaldan markað.

Heimild: Þjóðskrá, Greiningardeild Arion banka

Loks getur nefndin ekki litið framhjá því að hækkun undirliggjandi verðbólgu og verðbólguvæntinga á að hluta til rætur að rekja í hækkun verðbólgu og verðbólguvæntinga erlendis. Að hluta skýrist sú verðbólga af hækkun olíuverðs en einnig af krafti efnahagslífs og hækkun launakostnaðar í okkar viðskiptalöndum. Verðbólguþrýstingur erlendis frá er tæpast innan áhrifasviðs peningastefnu Seðlabanka Íslands.

Heimild: Bloomberg, Greiningardeild Arion banka