Verðbólgan rétt undir væntingum – aftur

Verðbólgan rétt undir væntingum – aftur

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,24% á milli mánaða í september skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan hækkaði þar með í 2,7%, úr 2,6% í ágúst. Verðbólguspár greiningaraðila voru á bilinu 0,3-0,4% og er mælingin því rétt fyrir neðan spábil greiningaraðila sem birta spár opinberlega. Við spáðum 0,3% hækkun. Helsta frávikið frá okkar spá má rekja til matarkörfunnar, sem hækkaði um 1,2%. Matarkarfan hefur ekki hækkað jafn mikið í verði síðan í október á síðasta ári þegar hækkunin milli mánaða nam 1,9%. Meðalhækkun matarkörfunnar hefur verið 0,2% á mánuði að meðaltali frá því í október á síðasta ári fram í ágúst á þessu ári, og hefur hækkað um 5,1% undanfarna 12 mánuði. Reiknuð húsaleiga hækkaði aftur á móti minna en við höfðum spáð og sömuleiðis heilsa. Út frá spágetu deildarinnar í september mætti halda að um væri að ræða móðins, ferðaglaða einstaklinga í ljósi þess að verðbreytingar á fatnaði og skóm og flugfargjöldum voru í góðu samræmi við okkar væntingar.

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Flug lækkar, föt hækka

Að hækkun á verði fatnaðar hafi verið eilítið hærri en meðalspár kemur ekki ekki á óvart þar sem hækkunin í ágúst var eilítið minni en meðalmánaðarhækkun undanfarinna  ára. Flugfargjöld hafa ekki lækkað jafn mikið á milli mánaða síðan í september 2014, eða í fjögur ár. September er sá mánuður þar sem flugfargjöld lækka iðulega um 20% eða svo, en sama má segja um flug og föt, þ.e. lækkunin í ágúst var minni en gera hefði mátt ráð fyrir m.v. meðalbreyting í ágúst undanfarin ár. Þetta er mögulega skellur fyrir þá sem hafa fylgst með flugliðnum í mælingum Hagstofunnar með það að markmiði að meta skammtímahorfur í rekstri flugfélaganna. Lækkun á verði flugfargjalda undanfarna tvo mánuði nemur 31%, sem er meira en liðurinn hefur lækkað undanfarin þrjú ár á sama tíma (meðallækkun á undirliðnum undanfarin þrjú ár er 26%). Líkt og kom fram í ferðaþjónustuskýrslu Greiningardeildar sem kynnt var á þriðjudag þurfa flugfargjöld að hækka ef ekkert annað breytist. Olíuverð hefur hækkað skarpt að undanförnu en sökum mikillar samkeppni hafa flugfargjöld ekki fylgt eftir. Það segir sig sjálft að til lengri tíma geta flugfélögin ekki borgað með hverjum farþega. Hvort, og hvenær, hækkunin kemur fram getur haft töluverð áhrif á vísitöluna, bæði bein og óbein.

Hækkun húsnæðisverðs: Made in sveitin

Samkvæmt mælingu Hagstofunnar þá fer árstaktur á verði sérbýlis (4%) hratt lækkandi. Þrátt fyrir það er árstakturinn hærri heldur en árstaktur á verði fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu (2,9%). Á milli mánaða lækkaði vísitala einbýlis á höfuðborgarsvæðinu um 0,65% en fjölbýli á sama svæði hækkaði um 0,4%. Enn er fasteignaverð á landsbyggðinni í ákveðinni sérstöðu hvað árshækkun varðar, en fasteignaverð þar hefur hækkað um 13,4% undanfarið árið og 0,6% í mánuðinum. Samkvæmt okkar mælingu á ásettu verði fasteignaauglýsinga, þá bendir allt til að árshækkunartakturinn verði áfram jákvæður en umtalsvert lægri en verið hefur.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hvað er að drífa verðbólguna?

Enn heldur áfram að draga úr áhrifum húsnæðis á hækkun vísitölunnar. Húsnæði hefur hækkað verðbólguna um 1,3 prósentustig undanfarna 12 mánuði, var 1,46 prósentustig í síðasta mánuði en fór hæst í 4,9 prósentustig í júlí á síðasta ári. Liðirnir sem tekið hafa við keflinu eru innfluttar sem og innlendar vörur. Áhrif þessara tveggja liða á ársverðbólguna nema einu prósentustigi en var hálft prósentustig í síðasta mánuði og fór lægst (einnig) í júlí á síðasta ári þegar áhrif þessara tveggja liða á ársverðbólgu námu -2,43 prósentustigum. Verðbólgan er því að breytast frá því að vera drifin nær einungis fram af húsnæðisverðshækkunum yfir í að aðrir liðir ráði för.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá hangir á krónunni

Þegar þetta er skrifað er hefur gengisvísitala íslensku krónunnar veikst um 2,9% m.v. meðalgengi sumarmánaðanna og gengi krónu á móti evru veikst um 3,4%. Það er viðbúið að veiking krónunnar muni hafa áhrif á verðbólguna til hækkunar en hversu mikil þau áhrif verða fer eftir því hvað krónan gerir næstu mánuði. Bráðabirgðaspáin nú er því lituð af þessari þróun og skammtímaspá okkar gerir ráð fyrir að árstaktur verðbólgunnar nálgist 3,5% undir lok árs.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Október 0,6%: Flugfargjöld hækka eftir árstíðabundna lækkunarsveiflu og því má búast við meiri hækkun vísitölu neysluverðs en í mánuðunum á undan, veiking krónunnar hefur áhrif á flestar innfluttar vörur
  • Nóvember 0,15%: Flugfargjöld lækka en annars rólegur verðbólgumánuður
  • Desember 0,5%: Flugfargjöld hækka sem og flestir vöruflokkar

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka