Óbreyttir stýrivextir: Hagkerfið er víst að kólna

Óbreyttir stýrivextir: Hagkerfið er víst að kólna

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum. Ákvörðunin er í samræmi við spár greiningaraðila og í samræmi við þann tón sem var sleginn í síðustu tilkynningu. Tónn síðustu tilkynningar í lok ágúst var harðari en áður og töldum við eins og fleiri greinendur að svo yrði áfram nú. Þar litum við m.a. til mikils hagvaxtar á öðrum fjórðungi, hærra verðbólguálags á markaði og veikingu krónunnar í september. Þrátt fyrir að haukatónn nefndarinnar frá síðustu ákvörðun sé endurtekinn finnst okkur tilkynningin, ef eitthvað er, mýkri en við áttum von á.

Peningastefnunefnd undirstrikar framsýni í ákvörðun sinni. Þannig ákveður nefndin ekki að láta ótrúlega sterkar hagvaxtartölur á fyrri árshelmingi breyta kúrsinum. „Spennan í þjóðarbúskapnum gæti því hafa verið meiri en spáð var. Hins vegar benda hátíðnivísbendingar og kannanir til að mögulega dragi hraðar úr vexti eftirspurnar en áður var talið.“  Þarna er átt við hátíðnivísbendingar á borð við verðbólguvæntingar fyrirtækja og kortaveltutölur. Að mati nefndarinnar trompa þessar vísbendingar tölur um liðinn hagvöxt. Burtséð frá 7,2% hagvexti á öðrum ársfjórðungi þá telur Seðlabankinn að hagkerfið sé að kólna og þar erum við sammála bankanum.

Nefndin lítur þó ekki framhjá því að verðbólguvæntingar á alla mælikvarða virðast nokkuð yfir markmiði:  „Peningastefnunefnd ítrekar að hún hefur bæði vilja og þau tæki sem þarf til að halda verðbólgu við markmið til lengri tíma litið. Haldi verðbólguvæntingar áfram að hækka og festist í sessi umfram markmið mun það kalla á harðara taumhald peningastefnunnar.“  Þetta er sama orðalag og í síðustu yfirlýsingu frá 29. ágúst.

Varðandi verðbólguvæntingar bendir nefndin á að verðbólga á þriðja ársfjórðungi hafi aukist eins og hún hafði spáð í ágúst. Nefndin benti á að samsetning verðbólgunnar hefur breyst. Verulega hefur hægt á hækkunartakti húsnæðisverðs en á móti hefur innflutningsverð hækkað, m.a. vegna hækkunar olíuverðs. Verðbreytingar á hrávörumörkuðum heimsins eru að sjálfsögðu utan áhrifasviðs Peningastefnunefndar. Nefndin getur hins vegar haft áhrif á gengi krónunnar og innlenda eftirspurn og þannig verðlagsáhrif hækkandi olíuverðs. Að þessu sinni kýs nefndin a.m.k. ekki að auka aðhaldsstigið vegna hækkunar innflutningsverðs erlendis frá. Það er í samræmi við væntingar enda teljum við að vilji nefndarinnar standi til að horfa í gegnum skammtímasveiflur á hrávörumörkuðum við vaxtaákvarðanir.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: Bloomberg, Greiningardeild Arion banka

Þá segir nefndin: „Gengi krónunnar hefur lækkað frá síðasta fundi peningastefnunefndar og gengisflökt jókst í september m.a. vegna óvissu um fjármögnun eins af stóru flugfélögum landsins.“  Erfitt er að ráða af orðunum hvort nefndin telji gengisflöktið tímabundið eða hvort frekari inngrip Seðlabankans séu líkleg.

Heimildir: Bloomberg, Greiningardeild Arion banka

Líkt og í síðustu tilkynningu endar nefndin á orðunum: „Aðrar ákvarðanir, einkum á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum, hafa þá áhrif á hversu mikill fórnarkostnaður verður í lægra atvinnustigi. Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili minni spennu í þjóðarbúskapnum, launaákvarðana og þróunar verðbólgu og verðbólguvæntinga.“

Ljóst er að hátíðnigögn benda í þá átt að hagkerfið sé að kólna. Væntingar landsmanna hafa lækkað mjög hratt og mældar væntingar almennings til sex mánaða ekki staðið neðar síðan 2009.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Auk þess hefur hægt verulega á raunvexti kortaveltu Íslendinga eins og aðstoðarseðlabankastjóri nefndi á fundinum. Meðalvöxturinn frá maí til ágúst var t.a.m. aðeins 3,9% samanborið við 12,6% meðalvöxt á sama tímabili árið 2017.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Að okkar mati les Seðlabankinn rétt í stöðuna að auka ekki aðhaldið að þessu sinni. Nú standa yfir þreifingar milli aðila á vinnumarkaði og endanleg aðkoma ríkisins að niðurstöðu kjarasamninga liggur ekki fyrir. Með vaxtatækið, bindiskylduna og gjaldeyrisforðann í búrinu þá er Seðlabankinn þungvopnaðri en hann hefur áður verið. Vinnumarkaðurinn og hið opinbera geta því ekki annað en tekið tillit til ábendinga bankans, ella tekist á við afleiðingarnar.