Verðbólgan í október var beint í mark

Verðbólgan í október var beint í mark

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,57% á milli mánaða í október skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan hækkaði þar með í 2,8%, úr 2,6% í september. Verðbólguspár greiningaraðila voru á bilinu 0,5-0,6% og meðalspáin var 0,55% og er mælingin því í takt við spár greiningaraðila. Við spáðum 0,6% hækkun. Rétt er að taka fram að í fréttinni á vef Hagstofunnar kemur fram að stöðvun gjaldtöku í Hvalfjarðagöngin hafi haft 0,13% áhrif til lækkunar á verðbólguna í október. Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 6,6% (0,07% áhrif á VNV). Mæling okkar benti til hækkunar á flugfargjöldum og gerðum við ráð fyrir 6,9% hækkun á undirliðnum. Flugliðurinn hækkar venjulega í október en lækkar síðan í nóvember og er hreyfingin nú í takt við undanfarin ár. Matarkarfan hækkaði um 0,9% (0,1% áhrif á VNV) en við gerðum ráð fyrir 1,3% hækkun matarkörfunnar. Bensínverð hækkaði um 0,9% (0,03% áhrif á VNV) en við spáðum 1,0% hækkun. Verð á fötum og skóm hækkar 0,6% (0,02% áhrif á VNV) sem er talsvert fyrir neðan spá okkar upp á 1,7% hækkun. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá samantekt á mismun á mælingu Hagstofunnar og spá greiningardeildar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Fasteignamarkaður að ná jafnvægi - raunhækkun fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu nær engin undanfarið árið

Á milli mánaða hækkaði sérbýli (0,98%) sem og fjölbýli (0,49%) á höfuðborgarsvæðinu en fasteignaverð á landsbyggðinni lækkaði lítillega (-0,2%). Hinsvegar hefur fasteignaverð á landsbyggðinni hækkað mest undanfarna 12 mánuði eða um 14,1% en verð á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu um 5,0% og fjölbýli um 3,6%. Árstaktur verðbólgunnar stendur í 2,8% og fer hækkandi. Samkvæmt bráðabirgðaspá okkar í nóvember gerum við ráð fyrir 0,25% hækkun á milli mánaða og fer árstakturinn þá í 3,3%. Ef fjölbýlisverð á höfuðborgarsvæðinu helst óbreytt í október þá lækkar takturinn í 3,2% og raunhækkun á fjölbýli undanfarna 12 mánuði verður þá orðin neikvæð. Raunárstaktur sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu og fasteignaverð á landsbyggðinni helst að öllum líkindum áfram jákvæður. Frá upphafi árs 2017 hefur fasteignaverð á landsbyggðinni hækkað um 26,5%, sérbýli á höfuðborgarsvæðinu um 23,7% og fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu um 17,9%.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hvað er að drífa verðbólguna?

Samsetning verðbólgunnar heldur áfram að breytast á milli mánaða, áhrif vegna veikari krónu og hækkandi hráolíuverðs verða æ kröftugri. Innfluttar vörur hafa haft 0,61 prósentustiga áhrif á ársverðbólguna til hækkunar en áhrifin voru neikvæð þar til í júní. Áhrif íbúðaverðs fara minnkandi en um helmingur af árstakti verðbólgunnar er samt sem áður vegna hækkandi íbúðaverðs eða um 1,45 prósentustig. Opinber þjónusta á heiðurinn á 0,22 prósentustigi sem er í takti við fyrri mánuði. Önnur þjónusta hefur haft 0,03 prósentustiga áhrif ársverðbólguna, en áhrif stöðvunar gjaldtöku í Hvalfjarðagöngin ættu að falla undir þennan lið. Innlendar vörur skýra 0,44 prósentustig af árstaktinum.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá

Síðan verðbólguspá okkar fyrir október var birt hefur gengisvísitala krónunnar veikst um 3,6%. Ef verðbólgulíkanið er uppfært m.v. gildi dagsins í dag þá hækkar desember spáin í rúmlega 1% úr 0,6% og verðhjöðnun sem von er á í janúar vegna vetrarútsala hverfur og líkanið spáir óbreyttri vísitölu neysluverðs í janúar. En er þó tími til stefnu og gengið mun væntanlega flökta fram að því og getur einnig styrkst. Því er fullsnemmt að hækka bráðabirgðaspárnar um of en áhættan er vissulega upp á við þegar kemur að verðbólgumælingum næstu mánaða.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  •  Nóvember 0,25%: Flugfargjöld lækka en annars rólegur verðbólgumánuður. Veiking krónu hefur áhrif til hækkunar
  •  Desember 0,6%: Flugfargjöld hækka sem og flestir vöruflokkar. Veiking krónu hefur áhrif til hækkunar
  •  Janúar -0,2%: Vetrarútsölur. Veiking krónu hefur áhrif til hækkunar

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka