Hótelmarkaðurinn að taka við sér?

Hótelmarkaðurinn að taka við sér?

Hagstofan birti fyrr í dag gistináttatölur í september. Eftir nokkuð þunga mánuði á fyrri árshelmingi virðist vera sem að hótelmarkaðurinn sé að taka við sér að nýju. Tölurnar fyrir septembermánuð voru sterkar og áframhald frá jákvæðum tölum sem birtust fyrir ágúst. Í ferðaþjónustuskýrslu Greiningardeildar, sem birt var í lok september, var bent á að vísbendingar væru um að gistinætur séu í auknum mæli að færast aftur yfir til hótela. Gistináttatölurnar fyrir september virðast styðja það þar sem gistinóttum á vefsíðum á borð við Airbnb hélt áfram að fækka og hótelgistinóttum fjölgaði hlutfallslega meira en fjölgun ferðamanna.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Fjöldi ferðamanna yfir væntingum

Tölur um fjölda ferðamanna hafa á síðastliðnum mánuðum komið á óvart og í raun verið þvert á spár. Spá ISAVIA sem birt var í maí gerði til að mynda ráð fyrir að ferðamönnum hingað til lands myndi fækka milli ára alla háannarmánuði ársins, þ.e. júní, júlí og ágúst. Í reynd fjölgaði ferðamönnum alla þessa mánuði og um rúm 3% á háannartímanum. Ástæðan fyrir sterkari ferðamannatölum er líklega einkum tvíþætt; annarsvegar mátti sjá á uppgjörsfundi Icelandair Group nú í morgun að skiptifarþegum hjá félaginu fækkaði um 9% milli ára á þriðja ársfjórðungi, meðal annars á kostnað ferðamanna hingað til lands. Þessi þróun er nokkuð óvænt, enda hefur farþegasamsetning íslensku flugfélaganna heldur verið á þá leið að vægi skiptifarþega væri að aukast, en samkvæmt Icelandair Group mátti rekja þessa þróun til ójafnvægis í leiðakerfi, sem félagið segir að búið sé að leiðrétta fyrir áætlun 2019. Hinsvegar eru líkur til þess að sætanýting erlendra flugfélaga sem fljúga hingað til lands hafi batnað milli ára, sem hefur lagt sín lóð á vogaskálar fjölgunar ferðamanna nú sumar.

 

Heimildir: Ferðamálastofa, Isavia, Greiningardeild Arion banka *spá Isavia fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins er spá félagsins frá því í nóvember 2017, ný spá tekur við í maí

Í hagspánni sem við birtum í byrjun þessarar viku var lítilsháttar uppfærsla gerð á spá okkar um fjölgun ferðamanna til næstu ára. Í ljósi betri talna fyrir bæði september og ágúst væntum við þess nú að ferðamönnum muni fjölga um 6% á þessu ári, en stóra myndin fyrir næstkomandi ár er óbreytt, þar sem við gerum ráð fyrir 2-3% vexti í komum ferðamanna ár hvert til ársins 2021.

 

Heimildir: Ferðamálastofa, Greiningardeild Arion banka

Hótelmarkaðurinn að ranka við sér?

Dræmar ferðamannatölur á fyrri árshelmingi endurspegluðust hvað best í gistináttatölum. Gistinóttum fjölgaði hlutfallslega mun hægar en fjölgun ferðamanna og fækkaði einhverjum tilvikum. Á höfuðborgarsvæðinu fækkaði t.a.m. gistinóttum á milli ára fjóra af fyrstu sjö mánuðum ársins. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan hefur þróunin hins vegar verið allt önnur síðustu tvo mánuði og gistinóttum fjölgað á milli ára og þar að auki fjölgað hlutfallslega meira en nemur fjölgun ferðamanna á sama tímabili. Hótelgistinætur á hvern ferðamann sem kemur til landsins hefur þannig fjölgað á síðustu tveimur mánuðum.

Heimild: Ferðamálastofa, Hagstofa Íslands, Greiningardeild

Nýtingin tekur u-beygju

Á fyrri árshelming sáum við nýtingu hótelherbergja lækka þó nokkuð meðfram fækkun gistinótta og hægagangi í komum erlendra ferðamanna. Sú þróun hefur tekið u-beygju síðustu tvo mánuði þar sem gistinóttum hefur fjölgað og nýting verið prýðileg. Nýtingin á höfuðborgarsvæðinu í september var sambærileg þeirri sem sást á sama tímabili í fyrra og sé litið á landsbyggðina í heild hefur nýtingin aldrei mælst hærri í septembermánuði. Heilt yfir batnaði nýting á milli ára allsstaðar á landsbyggðinni.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Að mati Greiningardeildar eru líkur á því að nýtingarhlutföll muni lækka á næstu tveimur árum samhliða auknu framboði hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu og hægari fjölgun ferðamanna. Nýtingarhlutföll í höfuðborginni hafa verið og eru enn mjög há í alþjóðlegum samanburði.

Airbnb heldur áfram að gefa eftir

Í ferðaþjónustuskýrslu Greiningardeildar var komið inn á þróun gistinótta í gegnum vefsíður á borð við Airbnb. Tölur Hagstofunnar náðu bara fram yfir júnímánuð þegar að sú skýrsla var gefin út en þær bentu til þess að gistinóttum í gegnum Airbnb væru byrjaðar að dragast saman eftir mikinn vöxt á undanliðnum árum. Á þeim tíma lágu aftur á móti fyrir tölur frá gagnaveitunni Airdna sem virtust benda til þess að samdráttur hefði orðið yfir alla sumarmánuðina á höfuðborgarsvæðinu. Nú þegar að tölur Hagstofunnar liggja fyrir má sjá staðfestingu þess efnis. Þannig hefur gistinóttum í gegnum vefsíður á borð við Airbnb fækkað síðustu fjóra mánuði. Fækkun gistinótta á vefsíðum á borð við Airbnb einskorðast ekki við höfuðborgarsvæðið heldur landið allt. Það má því leiða að því líkur að gistinætur séu að færast í auknum mæli frá Airbnb og yfir til hótelanna.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka