Vaxtahækkun í aðalrétt, verður bindiskylda í eftirrétt?

Vaxtahækkun í aðalrétt, verður bindiskylda í eftirrétt?

Við spáum því að Peningastefnunefnd Seðlabankans muni hækka meginvexti um 25 punkta á fundi sínum í næstu viku, úr 4,25% í 4,5%. Að undanförnu hefur harður tónn nefndarinnar stigmagnast þar sem stígandi verðbólguvæntingar hafa verið þyrnir í augum nefndarinnar. Í ljósi þróunar þeirra að undanförnu getur nefndin því ekki gert ekki neitt. Að okkar mati eru þrír réttir á matseðli nefndarinnar að þessu sinni: 1) Að hækka vexti um 25 punkta, 2) Að hækka vexti um 50 punkta, 3) Að létta bindiskyldu á fjárfestingu útlendinga á skuldabréfum í krónum. Við reiknum með að nefndin velji hefðbundin meðul og hækki vexti um 25 punkta. Aðstæðurnar nú eru samt eins og klæðskerasaumaðar fyrir næsta skref í léttingu bindiskyldunnar og í sporum nefndarinnar myndum við heldur kjósa aðeins þá leið. Ekki er loku fyrir það skotið að niðurstaðan verði að blanda saman réttum – velja blandaða leið.

Peningastefnunefnd hefur haldið stýrivöxtum óbreyttum undanfarna átta vaxtaákvörðunarfundi. Í lok ágúst, rétt áður en krónan fór að veikjast, varð tónn nefndarinnar harðari og hótaði hún að grípa til vopna ef verðbólguvæntingar þokuðust ekki niður. Þá voru allir nefndarmenn þeirrar skoðunar að halda ætti stýrivöxtum óbreyttum. Í byrjun október hafði krónan veikst, verðbólguálag hækkað og kominn skjálfti í nefndarmenn, en einn nefndarmaður var þeirrar skoðunar að ekki væri hægt að horfa framhjá hækkandi verðbólguvæntingum til lengdar, en með hliðsjón af óvissu um þróunina væri hann sammála um að bíða bæri eftir nánari vísbendingum. Núna tæplega mánuði síðar hefur gengisvísitalan veikst um 7,3% til viðbótar og verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hækkað um 0,5 prósentustig m.v. sama meðallíftíma. Verðbólguálag m.v. fimm ára meðallíftíma er núna 4,7%. Við teljum því að nefndin muni ekki sjá sér annað fært en grípa til aðgerða. Spurningin er aðeins, til hvaða aðgerða?

Talk the talk, walk the walk

Miðað við umræðuna sem átti sér stað á síðasta stýrivaxtaákvörðunarfundi er mjög erfitt að ímynda sér að peningastefnunefnd sitji með hendur í skauti, enda gæti slíkt aðgerðarleysi dregið úr trúverðugleika nefndarinnar. Þó tónninn verði vafalaust hvass er líklegt að einhver tregða ríki innan nefndarinnar við að hækka vexti áður en betri mynd fæst af þróun mála á vinnumarkaði.

Af þeim sökum er mögulegt að nefndin grípi til þess ráðs að draga úr innflæðishöftum í þeirri von að styrkja krónuna og draga úr verðbólguvæntingum. Kortavelta Íslendinga, væntingar fyrirtækja og heimila og innflutningstölur benda  til þess að hagkerfið sé að kólna. Á sama tíma eru óverðtryggðir útlánavextir farnir að hækka vegna krónuskorts í kerfinu, sem hefur dregið úr eftirspurn og hert þannig peningalegt aðhald. Því er spurning hvort að peningastefnunefnd kjósi aðalrétt og eftirrétt, þ.e. 0,25% hækkun stýrivaxta ásamt því að draga úr innflæðishöftum, eða þungan aðalrétt þ.e. að hækka stýrivexti um 0,5%. Við spáum 0,25% hækkun stýrivaxta ásamt einhverjum breytingum á innflæðishöftum sem síðan þarf að koma reynsla á næstu fjórðunga.

Var kjölfestan ekkert annað en tálsýn?

Eins og fyrr segir hefur verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hækkað skarpt að undanförnu með veikari krónu. Miklar sviptingar hafa verið í gengi krónunnar á haustmánuðum, bæði vegna gjárinnar sem stendur á milli atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar í kjarasamningsgerð en einnig vegna titrings um stöðu ferðaþjónustunnar. Nefndinni hefur verið tíðrætt um mikilvægi kjölfestu verðbólguvæntinga og hvernig sú kjölfesta gæti gefið nefndinni tækifæri til þess að horfa í gegnum tímabundnar sveiflur í verðbólgu, s.s. vegna gengishreyfinga. Miðað við þróun síðustu vikna verður nefndin líklega að viðurkenna sig sigraða – í bili. Vaxtahækkun gæti hinsvegar gefið skýr skilaboð um að nefndinni sé fúlasta alvara og slegið á væntingar á markaði. Í næstu viku verða birt ný Peningamál og þar verða birtar frekari vísbendingar um þróun verðbólguvæntinga.

Heimildir: OMX Nasdaq Ísland, Kodiak Excel, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: Bloomberg, Greiningardeild Arion banka

Lægri raunstýrivextir, hækkandi markaðsvextir

Frá ársbyrjun hafa stuttir raunstýrivextir lækkað um 0,7 prósentustig, og standa núna í 1,3%. Þrátt fyrir að á yfirborðinu virðist eins og taumhald peningastefnunnar hafi slaknað virðist raunin vera önnur. Vísbendingar eru uppi  um að farið sé að draga úr útlánavexti bankanna, óverðtryggðir vextir íbúðalána hafa hækkað, innstæður á innlánsreikningum fara vaxandi og uppgjör bankanna sýna að lausafjárstaða bankanna í krónum hefur minnkað, sem leiðir til minni útlánagetu í krónum. Taumhaldið hefur því herst ef eitthvað, ekki í gegnum vaxtatækið heldur t.d. í gegnum innflæðishöftin, sem draga úr skilvirkni skuldabréfamarkaðar og valda því að vaxtakostnaður innlendra fyrirtækja er hærri en ella. Að okkar mati væri því skynsamlegt að taka skref í átt til lyftingar hafta.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, OMX Nasdaq Ísland, Kodiak Excel, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: Seðlabanki Íslands, OMX Nasdaq Ísland, Kodiak Excel, Greiningardeild Arion banka

Verðbólgan á uppleið

Í byrjun vikunnar birti Hagstofa Íslands verðbólgutölur fyrir október. Verðlag í mánuðinum hækkaði um 0,57%, en hefði hækkað um 0,7% ef ekki hefði komið til fráfall á vegatollum. Ársverðbólgan stendur því í 2,84% en hefði verið 2,98% ef áhrifa vegatollanna hefði ekki gætt. Samsetning verðbólgunnar hefur haldið áfram að breytast á milli mánaða, og fer veikari króna og hækkandi hráolíuverð að vigta sífellt þyngra. Sem dæmi hafa innfluttar vörur haft 0,61 prósentustiga áhrif á ársverðbólguna í október til hækkunar en áhrifin voru neikvæð þar til í júní. Á móti vegur að áhrif íbúðaverðs fara minnkandi, þó um helmingur af árstakti verðbólgunnar er samt sem áður vegna hækkandi íbúðaverðs, eða um 1,45 prósentustig. Þegar mest var fóru áhrif húsnæðisverð hinsvegar í 4,91 prósentustig.

Í nýrri hagspá okkar sem birt var fyrr í vikunni er að finna verðbólguspá út árið 2021. Við gerum ráð fyrir að verðbólgan verði farin yfir 3,5% undir árslok og fari yfir efri vikmörk Seðlabankans, 4%, þegar líður á árið. Áhrif gengisveikingarinnar sl. vikur eru ekki komin að fullu inn í verðbólguna og því líklegt að verðlag hækki nokkuð skarpt á næstunni. Því til viðbótar er staðan á vinnumarkaði farin að velgja mörgum undir uggum, enda ljóst að veturinn verður erfiður. Þó að lítið svigrúm virðist vera til staðar hjá atvinnulífinu og hinu opinbera til að takast á við verulegar launahækkanir teljum við engu að síður að laun muni hækka umfram þolmörk, og umfram það sem samrýmist verðstöðugleika. Peningastefnunefnd mun því mögulega þurfa að standa við stóru orðin á næstunni ef halda skal verðbólgunni í skefjum. Við gerum að minnsta kosti ráð fyrir því að nefndin láti sér ekki nægja að panta einu sinni af matseðlinum.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka