Vaxtahækkun prýdd dúfnafjöðrum

Vaxtahækkun prýdd dúfnafjöðrum

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnti í dag um hækkun meginvaxta bankans um 0,25 prósentur. Ákvörðunin er í takti við okkar væntingar en fyrirfram sögðum við að í ljósi stígandi verðbólguvæntinga gæti nefndin ekki gert ekki neitt. Á haustmánuðum hefur tónn nefndarinnar harðnað til muna og var engin breyting þar á að þessu sinni. Miði hagkerfisins á byssusýningu nefndarinnar er ennþá gildur og hótanir um hærri vexti á kostnað lægra atvinnustigs eru ennþá hafðar uppi. Þrátt fyrir það, og vaxtahækkun, er haukatónninn að okkar mati prýddur dúfnafjöðrum að þessu sinni og sveipaður afsakandi tón, nefndin hreinlega gat ekki gert annað í ljósi lækkandi raunvaxta og núverandi efnahagsástands.

Hvað varðar framsýna leiðsögn þá virðist sem nefndin hafi tileinkað sér núvitund. Við lifum í núinu, setjum í hlutlausan, sjáum hvað setur. Slík afstaða kemur í sjálfu sér ekki á óvart í ljósi tíðindamikilla daga að undanförnu. Fyrst lækkaði bindiskyldan, síðan ákváðu flugfélögin að ganga í eina sæng. Þessi tíðindi ættu að vera til þess fallin að styðja við krónuna og stöðva rússíbanareið hennar, bæði í gegnum aukið innflæði og hugsanlega minni óvissu um afkomu stærstu útflutningsgreinar landsins. Viðbrögðin á gjaldeyrismarkaði hafa hinsvegar verið lítil að svo stöddu, og því skiljanlegt að nefndin vilji bíða og sjá.

Hvar er gólfið?

Að þessu sinni rökstuddi nefndin ákvörðun sína með lægri raunvöxtum en æskilegt væri í núverandi efnahagsástandi. Í ljósi þess að verðbólga hefur hækkað skarpt að undanförnu og verðbólguvæntingar reynst þrjóskari en nefndin hefði kosið voru raunvextir bankans komnir undir eitt prósent þegar nefndin hittist fyrir þennan fund. Fyrir síðustu vaxtaákvörðun í október stóðu raunvextir bankans í 1,2% miðað við meðaltal mismunandi mælikvarða og taldi þá nefndin aðhaldsstigið verða hæfilegt. Hæfilegir raunvextir hafa því lækkað hratt en þeir voru líklega nær 2% fyrir rúmu ári síðan. Í ljósi vaxtahækkunar veltum við því fyrir okkur hvort 1% sé nýja gólfið?

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

 Í könnun markaðsaðila sem Seðlabankinn framkvæmdi í síðustu viku kom fram að markaðsaðilar eru í auknum mæli að gera ráð fyrir hækkandi stýrivöxtum (notast er við veðlánavexti í könnuninni sem eru 0,75 prósentum hærri en stýrivextir) og að vextirnir verði 0,6 prósentum hærri í lok 2019 en þeir voru fyrir hækkun stýrivaxta nú. Ef reiknaður er mismunur á væntingum markaðsaðila um þróun stýrivaxta horft fjóra ársfjórðunga fram í tímann og væntingar um þróun stýrivaxta á þeim ársfjórðungi sem könnunin var framkvæmd, sést að væntingar markaðaðila fyrir núverandi vaxtaákvörðun hafa ekki verið jafn háar síðan á fyrsta ársfjórðungi 2016. Samkvæmt þessu þá ættu stýrivextir í lok 2019 að vera 0,35 prósentum hærri en þeir verða eftir tilkynninguna í dag.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Í könnun markaðsaðila er einnig spurt hvort að svarendur telji taumhald peningastefnunnar vera of laust, of þétt eða hæfilegt. 40% svarenda töldu taumhaldið vera of laust eða alltof laust (var 0% í síðustu könnun) en 12% töldu það vera of þétt eða alltof þétt (var 19%). Ef horft er framhjá þeim sem eru hlutlausir og telja taumhaldið vera hæfilegt, má sjá að fjöldi þeirra sem telja taumhaldið vera laust tók stórt stökk á milli ársfjórðunga en þeim sem telja taumhaldið vera of þétt hefur fækkað frá þriðja ársfjórðungi 2016.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Við eigum samleið ég og þú

Samhliða kynningu á vaxtaákvörðun voru Peningamál birt, þar sem nýja þjóðhags- og verðbólguspá Seðlabankans er að finna. Hvað varðar árið í ár mætti segja að hagspá okkar og þjóðhagsspá Seðlabankans séu eins og hanski og hönd. Seðlabankinn hefur fært hagvaxtarspá sína fyrir árið í ár verulega upp á við og spáir nú 4,4% hagvexti, samanborið við 3,6% hagvöxt sem spáð var í ágúst. Ástæðuna má fyrst og fremst rekja til meiri hagvaxtar á fyrri helmingi ársins en gert hafði verið ráð fyrir og samdrætti í innflutningi, bæði á öðrum og þriðja ársfjórðungi skv. spá bankans. Hvað varðar næsta ár munar mestu um fjárfestingarvöxt í spá Seðlabankans, en gert er ráð fyrir að allir undirliðir vaxi talsvert, einkum íbúðafjárfesting og fjárfesting hins opinbera.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Þó að þjóðhagsspár okkar og Seðlabankans gangi hönd í hönd verður það sama ekki sagt um verðbólguspárnar. Líkt og kemur fram í nýjum Peningamálum hafa verðbólguhorfur versnað og undirstrikar ný verðbólguspá bankans það. Þannig er nú búist við 3,4% ársverðbólga að meðaltali á næsta ári. Að okkar mati er Seðlabankinn full bjartsýnn á verðbólguna og skýrist það fyrst og fremst af gengisþróuninni sem bankinn gefur sér.

Spá Seðlabankans felur í sér að meðalgengi krónunnar á næsta ári verði um 170,5. Í því felst talsverð styrking krónunnar frá núverandi gengi (180,6) og að frekari styrking verði á meðalgenginu er líður á spátímabilið, sem styður við verðbólguspá bankans. Bankinn er nú sem áður tvístígandi þegar kemur að gengi krónunnar og á kynningarfundi í morgun ítrekuðu stjórnendur bankans þá óvissu sem ríkir. Í Peningamálum kemur hins vegar fram sú skoðun að jafnvægisraungengi krónunnar hafi líklega lækkað að undanförnu. Þá nefndi aðalhagfræðingur (með öllum fyrirvörum) að krónan væri líklega ekki langt frá sannvirði núna.

Í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings, sem meðal annars birtist í væntingum fyrirtækja um verðhækkanir, verulega hægari vexti í ferðaþjónustu og komandi kjarasamninga teljum við svo mikla gengisstyrkingu ólíklega. Við erum sammála Seðlabankanum að því leiti að við teljum að viðbrögð á gjaldeyrismarkaði hafi verið full harkaleg og væntingadrifin og gengisstyrking því möguleg á næsta ári. Við erum hinsvegar ekki jafn brött á krónuna og gerum ráð fyrir að meðalgengið verði nær 175.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka