Verðbólgan kemur í bæinn

Verðbólgan kemur í bæinn

Við spáum 0,35% hækkun á vísitölu neysluverðs í nóvember sem er yfir bráðabirgðaspá okkar frá því í lok október sem hljóðaði upp á 0,25% hækkun. Samkvæmt spánni hækkar 12 mánaða taktur verðbólgunnar í 3,4% úr 2,8% frá því í síðasta mánuði. Hagstofan mælir vísitöluna 12. til 16. nóvember og mælingin verður birt miðvikudaginn 29. nóvember.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Helstu áhrifaþættir á vísitölu neysluverðs til hækkunar í nóvember eru að okkar mati nánast allir undirliðir aðrir en eldsneyti og flugfargjöld til útlanda. Af liðum til hækkunar má helst nefna matarkörfuna, farartæki, kostnaður við húsnæði, áfengi, tómstundir (m.a. sjónvörp ), fatnaður og húsgögn. Áhrif krónunnar gætir í öllum þessum liðum. Í skammtímalíkani Greiningardeilar tekur það um 1-2 mánuði frá því að krónan veikist þar til fyrstu áhrifa gætir í hækkandi verðlagi.

Bensínverð lækkaði um helgina og borið saman við verð í síðustu mælingarviku þá hefur bensínlítrinn lækkað í 228,7 kr. úr 230,0 kr. sem er lækkun um 0,6%. Dísillítrinn hefur hinsvegar hækkað í 226,7 kr. úr 224,2 kr. eða um 1,1%. Heildaráhrifin er 0,009% til lækkunar á vísitölunni. Hráolían hefur lækkað mikið í verði mælt í Bandaríkjadal en á sama tíma hefur dalurinn styrkst gagnvart öðrum myntum t.d. gagnvart krónu sem jafnar út lækkunaráhrifin að stórum hluta.

Heimildir: bensinverd.is, Greiningardeild Arion banka

Flugfargjöld hafa lækkað í nóvember undanfarin fjögur ár. Að meðaltali hefur lækkunin numið 15% en tölfræðilíkanið okkar gerir ráð fyrir því að lækkunin í ár verði eilítið meiri eða um 18% (0,23 áhrif á VNV).

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Undanfarna 12 mánuði hefur fasteignaverð á landinu hækkað um 5,8% samkvæmt mælingum Hagstofunnar. Fasteignaverð á landsbyggðinni hefur hækkað um 14,1% en fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu um 3,6% og sérbýli á höfuðborgarsvæðinu um 5,0%. Mælingar á ásettu verði í fasteignaauglýsingum hafa verið í ágætu samræmi við þessa þróun. Árstaktur ásetts verðs hefur farið lækkandi samhliða lækkandi fasteignaverði, en árstaktur ásetts verðs er hinsvegar lægri en mæling Hagstofunnar gefur til kynna. Því er líklegt að áfram dragi úr árstakti í mælingum Hagstofunnar. Í mánaðarlegu verðbólguspánni gerum við heilt yfir ráð fyrir að reiknuð húsaleiga (fasteignaverð) hækki um 0,33% eða 4,0% á ársgrundvelli.

 

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá:

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvernig skammtímalíkan Greiningardeildar breggst við breytingum á gengi krónunnar. Eins og sjá má þá hækkar tólf mánaða takturinn m.v. óbreytt gengi fram að miðju næsta ári, gráu svæðin sýna mögulega þróun m.v. að krónan haldi áfram að veikjast eða að krónan styrkist. Ef gengi krónu breytist frá því sem komið er, þá koma gengisáhrifin ekki fram fyrr en í fyrsta lagi í janúar samkvæmt líkaninu en aukast síðan. Til samanburðar má sjá spá Seðlabankans sem birt var í síðustu viku. Spá Seðlabankans gerir ráð fyrir styrkingu krónu (meðalgengi 165,4 á næsta ári) sem er 1,5% styrking gengisvísitölunnar að meðaltali á mánuði á næsta ári. Ef við setjum slíka styrkingu krónu inn í okkar skammtímalíkan má sjá að tólf mánaða taktur verðbólgunnar hækkar fram í febrúar en tekur síðan að lækka skarpt þegar líður á árið og endar í 1,2%. Skammtímalíkan Greiningardeildar virðist því vera næmara fyrir gengishreyfingum heldur en spá Seðlabankans. Spá Seðlabankans inniheldur vaxtaspá þannig að ef í forsendum Seðlabankans er gert ráð fyrir hækkandi vöxtum, þá leiða þeir mögulega til sterkari krónu sem og slaka í eftirspurn. Hér er ekki um eiginlega spá að ræðu heldur að sýna hvernig líkanið þróast m.v. ef forsendum er breytt.

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

* Mismunur á spá m.v. 1% veikingu á mánuði að meðaltali og óbreytt gengi  ** Gengisspá SÍ: 1,5% styrking á mánuði að meðaltali til að fá meðalgengi ársins

Gangi spáin fyrir nóvember eftir fer árstakturinn í 3,4% og í gegnum 3%-múrinn og nálgast 4 prósentin. Til samanburðar lækkaði vísitala neysluverðs um 0,16% í nóvember fyrir ári. Bráðabirgðaspáin gerir ráð fyrir að vísitalan hækki um 0,8% í desember, haldist óbreytt í janúar en hækki á ný í febrúar eða um 0,8%. Til samanburðar þá námu mánaðarbreytingar fyrir ári í sömu mánuðum 0,27%, -0,09% og 0,62%. Ef bráðabirgðaspáin er borin saman við þróunina fyrir ári, þá sést að bráðabirgðaspáin fyrir janúar og febrúar er ekki mikið hærri en raunin var fyrir ári. En spáin fyrir desember er talsvert fyrir ofan gildið fyrir ári. Þessi samanburður sýnir kannski að þó spáin líti út fyrir að vera í hærra laginu, þá er mánaðarspáin ekki svo mikið hærri en fyrir ári, sérstaklega ef hún er borin saman við þróun krónunnar sem hefur veikst um 12% frá því í ágúst.

Verðbólguþróun næstu mánuði (bráðabirgðaspá síðasta mánaðar birt í sviga):

  • Desember 0,8% (0,6%): Flugfargjöld hækka sem og flestir vöruflokkar. Veiking krónu hefur áhrif til hækkunar
  • Janúar 0,0% (-0,2%): Vetrarútsölur. Veiking krónu hefur áhrif til hækkunar. Ýmsar árlegar verðhækkanir vega yfirleitt til hækkunar í janúar
  • Febrúar 0,8%: Vetrarútsölur ganga til baka. Áfram gætir áhrifa af veikingu krónu

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka