Verðbólga í fimm ára hámarki – gengislekinn minnir á sig

Verðbólga í fimm ára hámarki – gengislekinn minnir á sig

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,24% á milli mánaða í nóvember skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan hækkaði þar með í 3,3%, úr 2,8% í október. Verðbólguspár greiningaraðila voru á bilinu 0,3-0,35% og er mælingin því lægri en spár greiningaraðila sem birta spár opinberlega. Við spáðum 0,35% hækkun. Þó mælingin hafi verið undir spám þá er ekki um að villast að verðbólga er á uppleið en hún hefur ekki verið hærri síðan í desember 2013. Vísitala neysluverðs fyrir desember er birt fyrir jól (20. desember) og því framkvæmir Hagstofan mælinguna í næstu viku. Það má því gera ráð fyrir að næstu verðbólguspár greiningaraðila verði birtar strax í næstu viku.

Af þeim liðum sem ýttu undir hækkun verðlags má helst nefna; verð á bílum hækkaði um 1,66% (0,14% áhrif á VNV), matarkarfan hækkaði um 0,18% (0,02% áhrif á VNV), reiknuð húsaleiga (fasteignaverð) hækkaði um 0,34% (0,07% áhrif á VNV), tómstundir (raftæki falla hér undir) hækkuðu um 0,7% og verð á húsgögnum hækkaði um 1,7% (0,07% áhrif á VNV). Liðir sem ýttu vísitölunni niður á við eru verð á flugfargjöldum til útlanda sem lækkaði um 13,3% (-0,19% áhrif á VNV) og verð á eldsneyti sem lækkaði um 1% (-0,03% áhrif á VNV).

Frá byrjun ágúst hefur gengisvísitalan veikst um 14%, verðbólgan frá því í ágúst nemur 1,1% og ef við gerum ráð fyrir 30% gengisleka, þ.e. ef krónan veikist um 1% þá hækkar verðbólgan um 0,3%, þá má gera ráð fyrir að heildaráhrif veikingar krónu á verðbólgu nemi 4,2% og má því segja að fjórðungur áhrifanna sé kominn fram. Ef krónan hinsvegar styrkist á ný, ættu verðbólguáhrifin að vera minni. Þó er mikilvægt að hafa í huga að gengisáhrifin eru ósamhverf að því leyti að styrking krónunnar dregur ekki jafn mikið úr verðbólgunni og samsvarandi veiking eykur hana.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá samantekt á mismun á mælingu Hagstofunnar og spá Greiningardeildar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Fasteignamarkaður á landinu hreyfist í takt

Fasteignaverð á landinu hækkaði um 0,39% í nóvember samkvæmt mælingu Hagstofunnar. Mest var hækkunin á verði sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu eða 0,63%. Fasteignaverð utan höfuðborgarsvæðisins hækkaði um 0,35% og fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,33%. Það hægði á árshækkunartakti  fasteignaverðs á landinu (5,5%), utan höfuðborgarsvæðis (11,4%) og fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu (3,5%). Á hinn bóginnhækkaði verð á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu (6,0%). Að nafnvirði hefur verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 3,5% undanfarna tólf mánuði en verðbólga á sama tíma nemur sem fyrr segir 3,3%. Raunhækkunin er því um 0,27% og hefur raunárstakturinn ekki verið jafn lágur síðan í september 2011. Fyrir allt landið þá hefur verð hækkað um 5,5% undanfarna 12 mánuði og raunhækkun nemur því 2,1%. Raunárstakturinn hefur ekki verið lægri síðan í september 2013.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Veikari króna drífur verðbólguna

Á milli mánaða þá kemur það ekki á óvart að það er veiking krónunnar sem er að drífa verðbólguna áfram. Áhrif innfluttra vara á verðbólguna undanfarna tólf mánuði fara úr 0,61% í 1,02%. Á sama tíma er enginn liður sem lækkar mikið til að vega upp á móti þeim áhrifum.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá

Síðan verðbólguspá okkar fyrir nóvember var birt hefur verð á hráolíu lækkað hressilega sem er farið að skila sér í lækkandi bensínverði á bensíndælunum. Gengisvísitala krónunnar hefur lækkað smávegis á móti en, þangað til í dag a.m.k., virtist sem að dregið hafði úr veikingarkraftinum. Með hverjum mánuðinum sem líður án þess að gengisveikingin gangi til baka aukast líkurnar á því að bráðabirgðaspá okkar gangi eftir.
Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Desember 0,8%: Flugfargjöld hækka sem og flestir vöruflokkar. Veiking krónu hefur áhrif til hækkunar.
  • Janúar 0,0%: Vetrarútsölur. Veiking krónu hefur áhrif til hækkunar. Ýmsar árlegar verðhækkanir vega yfirleitt til hækkunar í janúar.
  • Febrúar 0,8%: Vetrarútsölur ganga til baka. Áfram gætir áhrifa af veikingu krónu.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka