Íslandsmet í þjónustuviðskiptum

Íslandsmet í þjónustuviðskiptum

Hagstofan birti í morgun tölur um þjónustu- og vöruskipti á þriðja ársfjórðungi.  Afgangurinn af vöru- og þjónustuviðskiptum á föstu gengi nam um 80 ma.kr. á fjórðungnum en fyrir utan þriðja ársfjórðung 2016 hefur ekki verið svo mikill afgangur á einum ársfjórðungi eins langt og gögnin ná aftur. Sem fyrr er halli á vöruskiptum við útlönd en myndarlegur afgangur af þjónustuviðskiptum - myndarlegri en nokkru sinni fyrr eða 124 ma.kr. Tekjur af ferðaþjónustu voru þó í takti við væntingar en annar þjónustuútflutningur sprengdi skalann.


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Þetta er töluvert meiri afgangur en við bjuggumst við eða um 12 ma.kr. meiri. Seðlabankinn mun birta tölur um greiðslujöfnuð á mánudaginn og nema að þáttatekjurnar, sem oftast er óverulegur liður, verði mjög neikvæðar er ljóst að viðskiptaafgangur ársfjórðungsins verður töluvert meiri en við höfðum gert ráð fyrir. Þetta frávik skýrist af óferðaþjónustutengdum þjónustuútflutningi en í þeim flokki kennir ýmissa grasa. Sá undirliður sem veldur þessari skekkju er býsna sveiflukenndur liður sem nefnist „gjöld fyrir notkun hugverka ót.a.“ Gjöld fyrir notkun hugverka voru jákvæð um 14 ma.kr. sem er  10 ma.kr. umfram langtímameðaltal liðarins. Það hefur verið ákveðinn stígandi í þessum lið undanfarin ár og því verður áhugavert að fylgjast með hvort það færist einhver leitnivöxtur í gjöld fyrir notkun hugverka eða hvort liðurinn verður áfram jafn sveiflukenndur og hann hefur verið hingað til. 


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Ferðaþjónustan í takt við væntingar

Tekjur af erlendum ferðamönnum voru í takt við okkar væntingar. Neysla ferðamanna var 7 ma.kr. minni en við bjuggumst við á meðan að tekjur af farþegaflutningum voru 6 ma.kr. meiri en við spáðum. Þetta nettast nokkurn veginn út og því voru tekjur af erlendum ferðamönnum í takt við væntingar okkar. 


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Tekjur af farþegaflutningum uxu um 3% á þriðja ársfjórðungi en þær höfðu dregist t saman á milli ára á öðrum ársfjórðungi. Vöxtur liðarins ferðalög, sem endurspeglar neyslu ferðamanna, hefur ekki vaxið jafn lítið síðan árið 2010 en þó ber vel að merkja að enn er um vöxt að ræða. 


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Ef aftur á móti litið er á neyslu á hvern ferðamann er um samdrátt að ræða hvort sem miðað er við fast eða breytilegt gengi. Hver ferðamaður eyddi 3,8% minna í sinni eigin mynt en á sama tíma í fyrra og 3% minna í krónum talið. Þess ber þó að geta að áhrif veikingar krónunnar gætir ekki að fullu leyti hér þar sem veikingin kom ekki fram fyrr en á seinni hluta fjórðungsins.


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Á meðan að erlendu ferðamennirnir draga úr neyslu er engan bilbug að finna á íslenskum ferðamönnum. Fyrir utan fjórðunginn á undan hafa aldrei farið fleiri Íslendingar út á einum fjórðungi en á þriðja ársfjórðungi 2018. Ekki var nóg með að að mikill fjöldi héldi út í sögulegu samhengi heldur jókst neysla á mann á föstu gengi um 8%.   


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hvað þýðir þetta fyrir krónuna?

Samkvæmt fræðunum þýðir afgangur af utanríkisviðskiptum að hagkerfið geti staðið undir sterkara raungengi. Þrátt fyrir að þessar tölur bendi til að afgangur ársins verði meiri en við höfðum gert ráð fyrir ber að varast að draga of miklar ályktanir af því þar sem þessi aukni afgangur skýrist að mestu leyti af mjög sveiflukenndum lið. 
Raungengið hefur hins vegar veikst hratt undanfarið í gegnum nafngengið sem ætti að stuðla að auknum viðskiptaafgangi. Áhrifin koma hins vegar fram með töf og því gætir þeirra að mjög takmörkuðu ef einhverju leyti í þessum tölum fyrir þriðja fjórðung. Að okkar mati hefur krónan veikst meira undanfarið en undirliggjandi hagstærðir gefa tilefni til og það er grunnurinn fyrir þeirri gengisstyrkingu sem við spáum á næsta ári. 
Ef litið er á þróun gengisvísitölunnar undanfarnar vikur má sjá að mögulega hefur eitthvert viðnám skapast í kringum gildið 185 en það kann að stafa af því að markaðsaðilar eru meðvitaðir um hvernig undirliggjandi hagstærðir eru að þróast þrátt fyrir mikla veikingu undanfarið. Þessar nýjustu tölur um vöru- og þjónustuviðskipti benda a.m.k. til aukinnar gjaldeyrissköpunar í þjóðarbúinu umfram það sem væntingar stóðu til.   


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka