(Næstum því) met viðskiptaafgangur

(Næstum því) met viðskiptaafgangur

Seðlabanki Íslands birti greiðslujafnaðartölur fyrir þriðja ársfjórðung í gær. Heilt yfir eru tölurnar mjög jákvæðar og undirstrika sterkar stoðir þjóðarbúsins. Viðskiptaafgangur við útlönd á þriðja ársfjórðungi 2018 var 76,5 ma.kr. Þetta er nokkuð meiri afgangur en á sama tíma í fyrra, og næstmesti afgangur á einum ársfjórðungi frá upphafi mælinga Seðlabankans (1995). Þá er þetta mun meiri viðskiptaafgangur en við spáðum, en við höfðum gert ráð fyrir 63 ma.kr. afgangi. Líkt og fram kom í umfjöllun okkar á föstudaginn má mismuninn fyrst og fremst rekja til „óferðaþjónustutengds útflutnings“, þá einkum undirliðarins gjöld fyrir notkun hugverka, sem fór langt fram úr væntingum okkar.

Mikill afgangur á þriðja ársfjórðungi er ekki það eina sem vekur athygli okkar í nýbirtum tölum Seðlabankans, heldur einnig uppfærsla á eldri tölum. Samkvæmt þeim var 4,1 ma.kr. viðskiptahalli á öðrum ársfjórðungi, í fyrsta sinn frá árinu 2012, en fyrri tölur höfðu gefið til kynna lítilsháttar viðskiptaafgang. Á móti kemur að afgangur fyrsta ársfjórðungs var færður upp á við, svo fyrri helmingur ársins stóð nokkurn veginn á núlli. Viðskiptaafgangur á fyrstu níu mánuðum ársins nam því 76,6 ma.kr. Gangi spá okkar eftir um viðskiptahalla á fjórða ársfjórðungi má gera ráð fyrir að viðskiptaafgangur ársins verði um 72 ma.kr. Miðað við nýjustu tölur, kraftinn í utanríkisverslun, lækkun olíuverðs að undanförnu og veikingu krónunnar má ætla að viðskiptaafgangur ársins gæti hinsvegar orðið ívið meiri en spá okkar gerir ráð fyrir.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hvað gerðist?

Líkt og áður sagði var viðskiptaafgangurinn nokkuð meiri en á sama tíma í fyrra. Hér að neðan má sjá í hverju munurinn felst. Að þessu sinni var aðeins ein neikvæð breyting á milli ára og það er að rekstrarframlög voru neikvæðari en þau voru fyrir ári síðan. Auknar peningasendingar milli landa skýra þessa breytingu, en alls námu peningasendingar erlendra einstaklinga 6,8 ma.kr. á fjórðungnum. Peningasendingar einstaklinga hafa aukist jafnt og þétt að undanförnu eftir því sem erlendu vinnuafli fjölgar. Alls bjuggu um 43.400 erlendir ríkisborgarar á landinu undir lok þriðja fjórðungs, samanborið við 36.700 einstaklinga á sama tíma í fyrra.

Jákvæðu breytingarnar voru þær að vöruskiptahallinn var minni en á sama tíma í fyrra, þjónustuafgangur var meiri og sömuleiðis jöfnuður frumþáttatekna (laun og fjárfestingatekjur sem innlendir aðilar fá greitt frá erlendum aðilum að frádreginni þeirri upphæð sem innlendir aðilar greiða erlendum aðilum). Það er athyglisvert að sjá að jöfnuður frumþáttatekna er ekki að aukast vegna fjárfestingatekna, heldur er launaliðurinn að valda breytingunni, en launagreiðslur til erlendra drógust saman milli ára.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka 

Viðskiptaafgangurinn nýttur til að greiða niður skuldir

Hin hliðin á peningnum, fjármagnsjöfnuðurinn, var jákvæður um 86 ma.kr. á fjórðungnum. Í hinum fullkomna heimi ættu fjármagnsjöfnuðurinn og viðskiptajöfnuðurinn að núlla hvorn annan út, en m.a. vegna tímaskekkju, verðskekkju og magnskekkju er raunin önnur. Erlend eign Íslendinga jókst um 17 ma.kr. á meðan innlend eign erlendra aðila dróst saman um 69 ma.kr. Á eignahlið Íslendinga munar mestu um aukna verðbréfafjárfestingu, þar sem verðbréfafjárfesting í skuldaskjölum jókst um 22 ma.kr. (á móti vegur að fjárfesting í hlutabréfum og hlutdeildaskírteinum dróst saman um 8 ma.kr.). Þá voru Íslendingar duglegir að greiða niður skuldir gagnvart útlöndum, sem endurspeglast í samdrætti í eign erlendra aðila hér á landi. Liðurinn „önnur fjárfesting“ vegur alltaf þungt á þriðja fjórðungi, en undir hann falla viðskiptakröfur erlendra aðila á innlenda aðila, sem minnkuðu um 22 ma.kr. á fjórðungnum. Innlendir aðilar virðast sem heild safna viðskiptaskuldum fram á sumar og greiða þær svo að jafnaði niður yfir hásumarið og fram á haust, sem er einmitt sá tími þegar viðskiptaafgangur er mestur og gjaldeyrisinnstreymi verulegt. 

Hafa ber í huga að fjármagnsjöfnuður mælir ekki fjármagnshreyfingar á milli landa, eingöngu viðskipti milli innlendra og erlendra aðila.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Myndirnar hér að neðan geta gefið nokkra vísbendingu um hvað hefur legið að baki gengisþróun krónunnar að undanförnu. Ljóst er að aukið útflæði innlendra fjárfesta, bæði lífeyrissjóða og annarra, sem og niðurgreiðsla erlendra skulda og lítið fjármagnsinnflæði á vegum erlendra aðila hefur sett þrýsting á gengi krónunnar. Það verður áhugavert að sjá tölur fyrir fjórða ársfjórðung, þar sem gengi krónunnar hefur haldið áfram að gefa eftir. Að okkar mati hafa hreyfingarnar undanfarna mánuði kallað fram meiri veikingu en undirliggjandi þættir gefa tilefni til. Það er ástæða til að halda til haga að veiking krónu sem stafar fyrst og fremst af uppgreiðslum erlendra skulda og erlendra fjárfestinga er af allt öðrum og jákvæðari toga en veiking krónu sem stafar af viðskiptahalla. Í einfaldri mynd má segja að veikingin stafi að miklu leyti af uppbyggingu sparnaðar sem þjóðarbúið mun síðar njóta ávaxta af.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Ævintýraleg erlend staða

Jákvæður fjármagnsjöfnuður bætti erlenda stöðu þjóðarbúsins um 86 ma.kr. á fjórðungum. Þá kemur fram í tilkynningu Seðlabankans að „gengis- og verðbreytingar höfðu jákvæð áhrif á erlenda stöðu þjóðarbúsins um 79 ma.kr. Skýrist það af 4% lækkun á gengi krón¬unnar gagnvart helstu gjaldmiðlum miðað við gengisskráningarvog og rúmlega 4% verðhækkunum á erlendum verðbréfamörkuðum á ársfjórðungnum.“ Hrein staða þjóðarbúsins við útlönd var jákvæð um 368 ma.kr., eða 13,3% af VLF, og hefur því aldrei verið betri. Alls batnaði erlend staða um 162 ma.kr. á fjórðungnum, sem samsvarar 5,9% af VLF.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka