Hagvöxtur á 3F: Heimilin í essinu sínu

Hagvöxtur á 3F: Heimilin í essinu sínu

Hagstofa Íslands birti í morgun fyrstu tölur yfir landsframleiðslu þriðja ársfjórðungs 2018. Tölurnar sýna svart á hvítu að íslenskt hagkerfi er að gíra sig niður, þó það sé hvergi nærri stopp. Hagvöxtur mældist 2,6% á þriðja ársfjórðungi, sem er nokkuð minni vöxtur en við áttum von á. Þrátt fyrir það var aðeins einn liður sem var undir væntingum okkar, fjárfesting. Að þessu sinni dróst fjárfesting saman um 5,6%, en okkar spá hljóðaði upp á 0,3% vöxt. Munurinn liggur fyrst og fremst í íbúðafjárfestingu, sem dróst saman þvert á væntingar okkar. Samdráttur í hefðbundinni atvinnuvegafjárfestingu er líklega skýrasta birtingarmyndin um kólnun í hagkerfinu, en þetta er fyrsti samdrátturinn sem mælist frá árinu 2010.

Aðrir undirliðir fóru nokkuð fram úr væntingum okkar. Það sem vekur sérstaka athygli er kraftmikill vöxtur einkaneyslu, en fyrirfram höfðum við búist við slökum einkaneyslutölum. Þær hátíðnivísbendingar sem lágu fyrir, svo sem kortavelta, væntingar heimilanna og þróun raunlauna, bentu allar til hægari einkaneysluvaxtar og því lyftust augabrúnirnar þegar raunin reyndist 5,3% vöxtur. Heimilin virðast því hvergi nærri af baki dottin. Þrátt fyrir nýjustu tölur erum við ennþá þeirrar skoðunar að hægja muni á einkaneysluvextinum þegar fram í sækir, samhliða hægari raunlaunahækkunum og auknu peningalegu aðhaldi innan bankakerfisins.

Innflutningur var í takt við væntingar okkar, bæði samdráttur í vöruinnflutningi og vöxtur í þjónustuinnflutningi, en útflutningur var nokkuð meiri en við höfðum áætlað. Eins og við höfum áður fjallað má mismuninn að miklu leyti rekja til meiri þjónustuútflutnings en spá okkar gerði ráð fyrir.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Líkt og undanfarna fjórðunga var það einkaneyslan sem dreif áfram hagvöxtinn. Þrátt fyrir spá um hægari einkaneysluvöxt á komandi misserum teljum við engu að síður að einkaneyslan muni haldi sínu hlutverki sem dráttarklár hagvaxtar. Að þessu sinni var það utanríkisverslun sem lagði hönd á plóg, á meðan fjárfesting vó á móti. Þetta er annar fjórðungurinn í röð sem framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar hefur verið talsvert hagfelldara en við höfum þorað að vona.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Kranar og aftur kranar, en engin hús?

Líkt og áður sagði dróst fjárfesting saman um 5,6%. Að frádreginni fjárfestingu í skipum og flugvélum mælist minni samdráttur, eða 3,7%. Það var viðbúið að vöxtur atvinnuvegafjárfestingar yrði lítill. Lengi hefur legið fyrir að fjárfesting í stóriðju og raforkuframleiðslu myndi dragast saman í ár, enda búið að klára að megninu til þau stóru verkefni sem lágu fyrir, s.s. kísilverksmiðjuna á Bakka og Þeistareykjavirkjun. Þá bentu áætlanir skipa- og flugfélaga til minni fjárfestingar en undanfarin ár. Það sem kemur hinsvegar nokkuð á óvart er samdráttur í hefðbundinni atvinnuvegafjárfestingu, en fyrirfram höfðum við búist við lítilsháttar vexti (1,4%). Þessi þróun er að okkar mati skýrasta merkið um kólnun í hagkerfinu, og verður áhugavert að sjá hvort þetta sé einstakt tilvik eða þróun sem verður endurtekin á fjórða fjórðungi. Haldi þessu þróun áfram á næstu fjórðungum má segja sem svo að gul ljós séu farin að kvikna í mælaborðinu.

Það sem kemur hinsvegar einna mest á óvart í fjárfestingatölunum er samdráttur í íbúðafjárfestingu, í ljósi þess að mikill kraftur hefur verið í íbúðauppbyggingu að undanförnu og byggingarkranar fleiri en ljósum vafin jólatré. Það er þó vert að benda á að fjórði fjórðungur er gjarnan þungur þegar kemur að íbúðafjárfestingu, og því má vel vera að hann vegi upp á móti slökum þriðja fjórðungi. Við sjáum að minnsta kosti ekki ennþá tilefni til að rjúka upp til handa og fóta og lýsa yfir neyðarástandi á húsnæðismarkaði.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hagspáin heldur velli – í bili

Á fyrstu níu mánuðum ársins hefur landsframleiðslan aukist um 5%. Mestu munar um sterkar hagvaxtartölur á fyrri helmingi ársins. Í hagspá okkar sem birt var í október er spáð 4,6% hagvexti í ár. Til þess að sú spá raungerist þarf hagvöxtur á fjórða fjórðungi að vera tæp 3,5%. Að svo stöddu sjáum við ekki tilefni til að breyta þeirri spá, enda heimilin eyðsluglaðari en áður virtist og útflutningur sprækari en á horfðist. Það sem skiptir þó mestu máli er að við teljum að íbúðafjárfesting komi sterk inn á fjórða fjórðungi. Það verður þó að viðurkennast að kortaveltutölur í október og slakar ferðamannatölur í nóvember ýta áhættunni meira niður á við.

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka