Nei, nei ekki um jólin

Nei, nei ekki um jólin

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands fundar í dag og á morgun en aðeins mánuður er síðan að nefndin tók ákvörðun um að hækka stýrivexti um 25 punkta. Í sjálfu sér hefur lítið breyst í millitíðinni; WOW flýgur, stríðslúðrar hljóma á vinnumarkaði, hagfræðibækur eru óvinsælar, útlit er fyrir kólnun í hagkerfinu, verðbólgan er á uppleið og taumhald er laust. Þrátt fyrir það spáum við óbreyttum vöxtum.

Það er ekki þar með sagt að vaxtahækkun komi ekki til greina, og kæmi okkur virkilega á óvart ef nefndin reynist samróma. Væntanlega mun sá nefndarmaður sem kaus með 50 punkta hækkun síðast kjósa 25 punkta hækkun nú. Við spáum því samt að nefndin sitji á sér í bili og haldi vöxtum óbreyttum, m.a. vegna þess að raunvextir hafa lítið breyst frá því eftir síðustu vaxtahækkun, verðbólguálag á lengri endanum hefur lækkað og Seðlabankinn er áfram bjartsýnn á verðbólguhorfur, þrátt fyrir að við teljum ekki ástæðu til þess.

Talið við okkur!

Það er tvennt óvenjulegt við fund peningastefnunefndar sem kalla mun á umræðu og vonandi innihaldsrík skilaboð í framhaldinu. Hið fyrra er frumvörp til laga um breytingu á bindiskyldu og losun aflandskróna sem kynnt voru á föstudaginn en hið síðara er afstaða nefndarinnar til tillagna starfshóps um ramma peningastefnunnar.

Fyrstu viðbrögð á markaði við boðuðum lagabreytingum hafa verið lítils háttar veiking á krónunni, á meðan óverðtryggðir langtímavextir lækkuðu fyrst en hækkuðu svo aftur. Við teljum að markaðurinn óttist að losun aflandskróna muni liggja sem mara á krónunni vel fram á næsta ár. Í ljósi þess að heildarfjárhæð eftirstandandi aflandskróna nemur um fjór- til fimmfaldri meðalmánaðarveltu á millibankamarkaði með gjaldeyri þá skiptir höfuðmáli hvaða hlutverki Seðlabankinn ætlar sér að gegna. Þá er hætt við að markaðsaðilar hafi heldur vonast eftir því að næsta skref yrði afnám bindiskyldu en ekki ný útfærsla. Efnahagslífið þarf því mjög mikið á því að halda þessa dagana að Seðlabankinn noti hvert tækifæri til að skýra stefnu sína og framtíðarsýn.

Varðandi ramma peningastefnu til framtíðar þá reiknum við að með að peningastefnunefnd leggi sín lóð á vogarskálar verðstöðugleika umfram fjármálastöðugleika ef forgangsraða þarf markmiðum. Þannig sér peningastefnunefnd líklega fyrir sér minni breytingar á stefnunni heldur en varpað var upp í tillögum stýrihópsins. Þá kæmi okkur nokkuð á óvart ef nefndin vill beita sér fyrir því að húsnæðisliður verði tekinn út úr viðmiði verðbólgumarkmiðs, sérstaklega eins og horfir með samsetningu verðbólgu á næstu misserum.

Raunvextir knúsa gólfið

Sé vaxtaákvörðunum peningastefnunefndar líkt við jólatré mætti segja að efnahags- og verðbólguhorfur væru tréð sjálft, gengi krónunnar væru ljósin, flugfélögin væru tvær kúlur, vinnumarkaðurinn og hið opinbera aðrar tvær kúlur, en á toppnum, stjarnan sjálf, væru að sjálfsögðu raunvextir.

Peningastefnunefnd rökstuddi síðustu vaxtahækkun með lægri raunvöxtum en æskilegt væri í núverandi efnahagsástandi. Þegar nefndin kom saman fyrir mánuði síðan voru raunvextir bankans komnir undir eitt prósent, óásættanleg þróun að mati nefndarinnar enda voru vextir hækkaðir upp í rúmt prósent. Einn nefndarmaður benti þó á að 25 punkta hækkun dygði ekki til og að raunvextir væru ennþá lægri en á októberfundi nefndarinnar, en þá voru raunvextir 1,2% og ákveðið var að halda vöxtum óbreyttum. Sá nefndarmaður var hinsvegar í minnihluta. Í dag standa raunvextir í rétt rúmu einu prósenti út frá meðaltali mismunandi mælikvarða. Við teljum að það muni duga meirihluta nefndarmanna – í bili – en að tekist verði á innan nefndarinnar hverjir æskilegir raunvextir séu miðað við núverandi framleiðsluspennu og stígandi verðbólgu.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Þrátt fyrir síðustu vaxtahækkun hafa raunvextir miðað við verðbólgu lækkað verulega á milli funda, enda hefur verðbólgan hækkað úr 2,9% í 3,3%. Greiningaraðilar gera ráð fyrir að verðbólgan fari í 3,5%-3,8% í desember, þróun sem tæki raunvexti niður fyrir prósent. Raunvextir miðað við meðaltalið hér að ofan myndu hinsvegar rétt svo námundast upp í prósent, að öðru óbreyttu. Eftir síðustu vaxtaákvörðun töldum við að gólfið, þolmörk nefndarinnar, væru eitt prósent raunvextir. Hafi nefndin trú á spám greiningaraðila ætti hún tæknilega séð að hækka vexti núna, bæði til að viðhalda samfellu og trúverðugleika. Stýrivaxtaspá Seðlabankans, sú spá sem nefndin tekur tillit til við ákvarðanir sínar, er hinsvegar bjartsýnni á verðbólguna en flestir aðrir, þó aðalhagfræðingur Seðlabankans hafi viðurkennt að áhættan væri nær öll upp á við.

Haukar hafa bæði vilja og tæki

Ef reynsla undanfarinna ára er einhver leiðarvísir, þá verður fyrsti stýrivaxtafundur næsta árs í febrúar, eftir tvær verðbólgumælingar frá deginum í dag. Miðað við skammtímaspár greiningaraðila er útlit fyrir að verðbólgan þá verði á bilinu 3,3%-3,9%. Verðbólguspá Seðlabankans gerir ráð fyrir að verðbólgan nái hámarki á fyrri hluta næsta árs. Við veltum því fyrir okkur, ætti nefndin ekki að hækka vexti nú, í stað þess að bíða fram í febrúar? Vaxtahaukar gætu sagt sem svo að verðbólguspár greiningaraðila vanmeti áhrif vaxtahækkana á meðan verðbólguspá Seðlabankans taki mið af talsverðri hækkun á stýrivöxtum. Kemur þar til sögunnar leiðsögn Peningastefnunefndar og óhætt er að segja að það hefur verið haukur í síðustu yfirlýsingum: „Peningastefnunefnd ítrekar að hún hefur bæði vilja og þau tæki sem þarf til að halda verðbólgu við markmið til lengri tíma litið. Haldi verðbólguvæntingar áfram að hækka og festist í sessi umfram markmið mun það kalla á harðara taumhald peningastefnunnar.“ Verðbólguvæntingar hafa hins vegar ekki haldið áfram að hækka sem eykur líkurnar á að nefndin hleypi verðbólguskoti í gegn án þess að sveifla stýrivaxtapísknum svo hagkerfinu svíði undan. Ef verðbólguspá okkar gengur hinsvegar eftir reiknum við allt eins með sterkum viðbrögðum á fyrsta fundi næsta árs, því þó verðbólguvæntingar hafi ekki hækkað, þá teljum við að þær endurspegli lakari verðbólguvæntingar heldur en samsvarar markmiði Seðlabankans.

Heimildir: Kodiak Excel, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hagvöxtur á 3F: Jólafóður fyrir vaxtadúfur

Hagstofan birti á föstudag fyrstu landsframleiðslutölur fyrir þriðja ársfjórðung 2018. Líkt og við fórum yfir í umfjöllun okkar um tölurnar er ljóst að íslenskt hagkerfi er að gíra sig niður, þó það sé hvergi nærri stopp. Hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi mældist 2,6%, sem er eilítið minni vöxtur en við höfðum átt von á. Hinsvegar breyta tölurnar ekki sýn okkar fyrir árið og spáum við ennþá 4,6% hagvexti í ár. Við teljum að peningastefnunefnd muni líta sömu augum á málið, enda eru þjóðhagsspárnar áþekkar (Seðlabankinn gerir ráð fyrir 4,4% hagvexti í ár). Þá er einkaneysluspá Seðlabankans nokkuð hærri en okkar og því má vera að svo kröftugur einkaneysluvöxtur hafi verið eitthvað sem nefndin hafi fyrirfram búist við. Að okkar mati munu tölurnar því ekki ýta undir vaxtahækkun og frekar vera fóður fyrir þann hluta nefndarinnar sem kýs að gera ekki neitt.

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka