Vextir óbreyttir – krónan í aðalhlutverki

Vextir óbreyttir – krónan í aðalhlutverki

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að halda meginvöxtum bankans óbreyttum í 4,5%. Sú ákvörðun er í takt við okkar spá og annarra greiningaraðila. Fyrir fundinn mátti hins vegar greina að flestir voru tvístígandi, enda taumhald peningastefnunnar laust, verðbólgan á uppleið og vaxtavöndurinn kominn í hendi. Flestir töldu því vaxtahækkun allt eins líklega. Raunin varð hins vegar tiltölulega mjúkur tónn og hlutlaus framsýn leiðsögn. Vissulega má greina haukatón en á heildina litið virðist sem að bjart sé yfir Haukadal og  lítil stemning fyrir því að sveifla vendinum. Við útilokum hins vegar ekki að peningastefnunefnd komi tvíefld til baka eftir áramót og láti finna fyrir sér, sér í lagi ef vinnumarkaður og ríkisfjármál ýta verðbólguvæntingum upp á við. Það var aftur á móti krónan sem gegndi aðalhlutverki í yfirlýsingu nefndarinnar í morgun og í orðum stjórnenda Seðlabankans í framhaldinu.

Yfirlýsing nefndarinnar var að þessu sinni eins og dýrari týpan af konfektkassa. Besti molinn var ekki tengdur vöxtunum, heldur gengi krónunnar, sem lék einnig aðalhlutverk á kynningarfundinum nú í morgun. Það sem vekur helst athygli er hversu opinskátt nefndin talar um jafnvægisraungengið og hversu hispurslaust er talað um inngrip á gjaldeyrismarkaði í tengslum við uppgjör aflandskróna. Á kynningarfundinum í morgun kom skýrt fram í máli seðlabankastjóra að frelsun aflandskrónanna verður ekki til þess að veikja gengi krónunnar, enda hafi Seðlabankinn mikið púður í tunnunni í formi gjaldeyrisforðans. Maran sem við höfðum áhyggjur af að myndi leggjast yfir gjaldeyrismarkaðinn ætti því ekki að halda vöku fyrir markaðnum á næstunni.

Er krónan of veik?

Það sem vakti hvað mesta athygli okkar að þessu sinni er umræða nefndarinnar um gengi krónunnar og jafnvægisraungengi. Fram kemur í yfirlýsingu nefndarinnar að “gengislækkunin undanfarið hafi fært raungengið niður fyrir jafnvægisgildi sitt.” Þetta bendir til þess að Seðlabankinn sé þeirrar skoðunar að svartsýniskastið á gjaldeyrismarkaði í haust, eins og seðlabankastjóri orðaði það í morgun, hafi gengið of langt og að krónan eigi styrkingu inni. Við deilum þeirri skoðun, enda teljum við að gengisveikingin undanfarna mánuði hafi verið mun meiri en undirliggjandi þættir gefa tilefni til.

Myndarlegur viðskiptaafgangur á þriðja fjórðungi ársins og jákvæð ytri staða þjóðarbúsins bendir til að hagkerfið geti staðið undir sterkara raungengi. Það er mikilvægt að átta sig á því að viðskiptajöfnuðurinn bregst við breyttu raungengi með töf og því eiga áhrif hratt lækkandi raungengis að mestu leyti eftir að koma fram, að öllu öðru óbreyttu, í batnandi utanríkisviðskiptatölum á komandi fjórðungum.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Seðlabankinn tók að meta jafnvægisraungengið og nota það í QMM líkaninu sínu árið 2008. Síðan þá hefur jafnvægisraungengið hækkað umtalsvert með auknum útflutningstekjum þjóðarbúsins í gegnum ferðaþjónustu. Raungengið í lok nóvember var 12% lægra en það jafnvægisgildi sem Seðlabankinn notaði í QMM líkaninu á öðrum ársfjórðungi. Myndarlegur viðskiptaafgangur á þriðja ársfjórðungi þar sem meðalraungengið var 98 og hafði verið hátt lengi á undan bendir til að hagkerfið geti staðið undir sterkara raungengi. Þrátt fyrir að erfitt sé að meta hvert jafnvægisraungengi krónunnar sé nákvæmlega erum við sammála Seðlabankanum um það að skörp nafngengislækkun undanfarið hafi lækkað raungengið niður fyrir jafnvægisgildi sitt.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Veiking veldur verðbólgu

Í grófum dráttum má segja að nefndin telji verðbólguna aðallega drifna af veikingu krónunnar. Nefndin sér hins vegar vísbendingar um að raungengið sé fullveikt og að framundan sé frekari minnkun á framleiðsluspennu. Eins og sést á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig áhrif innfluttra vara á vísitölu neysluverðs hefur farið frá því að lækka verðbólguna yfir í að ýta við henni upp á við.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Áhrif aflandskróna á gjaldeyrismarkað

Eins og flestum er kunnugt samþykkti ríkisstjórnin síðastliðinn föstudag að setja fram frumvarp um losun aflandskróna og breytingar á bindiskyldu. Krónan veiktist í kjölfarið um rúmt prósent vegna ótta við útflæði en aflandskrónurnar nema 84 ma.kr. Á fundinum tók Seðlabankastjóri fram að betra væri að fá frumvarpið í gegn áður en að bindiskyldan yrði lækkuð alla leið í núllið. Það sem af er degi hefur krónan styrkst lítillega og því má velta fyrir sér hvort þessi orð Seðlabankastjóra hafi haft tilætluð áhrif og eytt öllum áhyggjum um veikingu vegna útflæðis aflandskróna.

Horft fram á veginn

Þróist verðbólgan á næstu mánuðum í takt við verðbólguspár greiningaraðila munu raunstýrivextir verða komnir niður fyrir prósent þegar að nefndin hittist næst þann 6. febrúar. Nefndin minntist á það að verðbólguvæntingar til lengri tíma hefðu ekki hækkað síðan að nefndin kom saman síðast. Samspil verðbólguvæntinga til lengri tíma og raunstýrivaxta mun væntanlega vega þungt við næstu vaxtaákvörðun enda hefur nefndinni verið tíðrétt um þær stærðir undanfarið.

Heimildir: Kodiak Excel, Greiningardeild Arion banka