Verðbólgan í hærri kantinum

Verðbólgan í hærri kantinum

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,74% á milli mánaða í desember skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan hækkaði þar með í 3,7%, úr 3,3% í nóvember. Verðbólguspár greiningaraðila voru á bilinu 0,5 - 0,8% og er verðbólgan því í hærri kantinum en við spáðum 0,8% hækkun.

Af þeim liðum sem ýttu undir hækkun verðlags má helst nefna; verð á flugfargjöldum til útlanda sem hækkaði um 24,8% (0,29% áhrif á VNV), verð á bílum hækkaði um 1,75% (0,15% áhrif á VNV), matarkarfan hækkaði um 0,96% (0,11% áhrif á VNV), reiknuð húsaleiga (fasteignaverð) hækkaði um 0,2% (0,04% áhrif á VNV), tómstundir (raftæki falla hér undir) hækkaði um 0,18% og verð á húsgögnum hækkaði um 1,4% (0,06% áhrif á VNV).  Verð á eldsneyti lækkaði annan mánuðinn í röð eða um 3,2% (-0,11% áhrif á VNV).

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá samantekt niðurstöðu mælingar Hagstofunnar og spá Greiningardeildar Arion banka.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Fasteignamarkaður tók kipp

Fasteignaverð á landinu hækkaði um 0,27% í desember samkvæmt mælingu Hagstofunnar. Mest var hækkun á verði fjölbýlis og sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu eða 0,45 - 0,46% en 0,45% lækkun var á verði fasteigna á landsbyggðinni. Undanfarið ár hefur fasteignaverð á landsbyggðinni hinsvegar hækkað mest eða um 14,5% á meðan fjölbýli og sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 5,1 - 5,4%. Á öllu landinu hækkaði fasteignaverð um 6,9% síðastliðið ár en það er um 3,1% raunverðshækkun. Hækkunartakturinn er aftur farinn að taka við sér eftir að hafa farið lægst í september á þessu ári en þá nam árshækkun fasteignaverðs 5,0%.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hvað drífur verðbólguna?

Á milli mánaða þá kemur ekki á óvart að það er þróun krónunnar sem drífur þróun verðbólgunnar. Áhrif innfluttra vara á verðbólguna undanfarna 12 mánuði fóru í 1,17 prósentustig úr 1,02 prósentustigum en fyrir ári höfðu innfluttar vörur lækkað 12 mánaða taktinn um 1,35 prósentustig. Á sama tíma var enginn liður sem lækkaði mikið til að vega upp á móti þessum áhrifum. Áhrif hækkandi fasteignaverðs voru einnig að aukast og árstakturinn hækkar um 1,64 prósentustig vegna þessa eftir að hafa farið í 1,28 prósentustig í september síðastliðnum.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá

Síðan peningastefnunefnd hélt stýrivöxtum óbreyttum í byrjun mánaðarins eftir að hafa hækkað stýrivexti í nóvember, hafa kortaveltutölur innlendra aðila verið leiðréttar upp á við þannig að samdráttur í einkaneyslu virðist ekki vera næstum jafn mikill og fyrstu gögn bentu til, verðbólguvæntingar stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins hafa hækkað samkvæmt skoðanakönnun SA og Seðlabankans og fasteignaverðshækkanir eru ýta verðbólgunni upp á við á ný. Samkvæmt spá Seðlabankans ætti verðbólga á fyrsta ársfjórðungi næsta árs að nema 3,5% að meðaltali. Ef nýjasta mæling Hagstofunnar er uppreiknuð m.v. bráðabirgðaspár greiningaraðila þá má ætla að meðalársmælingin nemi 3,9% á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Til samanburðar eru stýrivextir 4,5% og raunstýrivextir því 0,74% og ættu að lækka enn frekar ef verðbólguspár greiningaraðila ganga eftir. Það er því spurning hvað Kalkofnsvegur gerir því hagkerfið virðist ekki vera að kólna jafn hratt og tölurnar í nóvember bentu til. Þeim til varnar þá virðast útlánakjör banka og lífeyrissjóða hafa versnað sem bendir til minni áhuga til útlána. Auk þess þá samþykkti fjármálastöðugleikaráð í gær að beina tilmælum til Fjármálaeftirlitsins að hækka sveiflujöfnunarauka um 0,25 prósentur úr 1,75% í 2%. Hækkun sveiflujöfnunarauka þýðir að bankakerfið þarf að binda meira eigið fé við hvert útlán. Þó hækkunin  taki gildi 12 mánuðum eftir ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, þá er hún líkleg til að hafa áhrif á útlánavöxt og útlánavexti fljótlega. Meiri kraftur í einkaneyslu en áður var gert ráð fyrir er einnig líklegur til að auka gengislekann svokallaða, þ.e. hversu mikið innlent verðlag hækkar vegna veikingar krónunnar.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspár fyrir næstu mánuði:

  • Janúar 0,0%: Vetrarútsölur. Veiking krónu hefur áhrif til hækkunar. Ýmsar árlegar verðhækkanir vega yfirleitt til hækkunar í janúar. Flugfargjöld lækka.
  • Febrúar 0,8%: Vetrarútsölur ganga til baka. Áfram gætir áhrifa af veikingu krónu. Flugfargjöld lækka.
  • Mars 0,6%: Vetrarútsölur ganga að fullu til baka. Flugfargjöld hækka.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka