Verðbólguspá: Vægara smit af veikari krónu

Verðbólguspá: Vægara smit af veikari krónu

Við spáum 0,2% lækkun á vísitölu neysluverðs í janúar, sem er undir bráðabirgðaspá okkar frá því í upphafi síðasta mánaðar. Samkvæmt spánni lækkar 12 mánaða taktur verðbólgunnar í 3,6% úr 3,7% frá því í síðasta mánuði. Hagstofan mældi vísitöluna í liðinni viku eða nánar tiltekið 7. til 11. janúar og mælingin verður birt þriðjudaginn 29. janúar.

Ástæðan fyrir því að við spáum minni hækkun á vísitölu neysluverðs nú en í bráðabirgðaspá okkar, er að ákveðnar vísbendingar eru um að smásalar hafi ekki náð að hækka verð sem nemur auknum innflutningskostnaði. Sem dæmi, í tilkynningu Haga til Kauphallarinnar fyrr í þessum mánuði kemur fram að hækkun kostnaðarverðs í innkaupum sé ekki komið fram í verði til viðskiptavina. Við gerum því ráð fyrir að áhrif vegna veikari krónu komi fram með meiri töf en við höfum hingað til áætlað. Sögulega séð hafa áhrif gengisveikingar á verðlag komið að mestu fram fyrstu sex mánuði eftir að krónan tekur að veikjast.  Að þessu sinni virðist sem töfin sé ennþá lengri, mögulega vegna aukinnar samkepnni á innlendum markaði og vaxandi alþjóðlegrar samkeppni.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Helstu áhrifaþættir á vísitölu neysluverðs til lækkunar í janúar eru að okkar mati útsöluliðirnir föt og skór, húsgögn og heimilisbúnaður sem og flugfargjöld til útlanda. Í spánni er gert ráð fyrir að flugfargjöld lækki um 11,3%, niðurstaða sem er byggð á spálíkani sem notar söguleg gögn til að spá fyrir um framtíðina. Mæling okkar á vefnum bendir hins vegar til hækkunar, sem við teljum  frekar ólíklegt á milli desember og janúar, jafnvel þó gera megi ráð fyrir að umfjöllun um rekstur WOW Air og samdráttur í flugferðum séu farin að hafa áhrif á flugfargjöld til hækkunar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bensínverð hefur lækkað örlítið og borið saman við síðustu mælingarviku þá hefur bensínlítrinn lækkað í 219,9 kr. úr 220,0 kr. eða lækkun um 0,05%. Dísillítrinn hefur lækkað í 219,3 kr. úr 220,9 kr. eða lækkun um 0,7%. Heildaráhrifin er 0,006% til lækkunar á vísitölunni.

Heimildir: bensinverd.is, Greiningardeild Arion banka

Lífið gengur sinn vanagang og fasteignaverð hækkar

Undanfarna 12 mánuði hefur fasteignaverð á landinu hækkað um 6,9% samkvæmt mælingum Hagstofunnar. Fasteignaverð á landsbyggðinni hefur hækkað um 14,5%, en fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu um 5,4% og sérbýli á höfuðborgarsvæðinu um 5,1%. Mælingar á ásettu verði í fasteignaauglýsingum hafa verið í ágætu samræmi við þessa þróun en árstaktur á ásettu verði sérbýlis er samt sem áður töluvert lægri en opinbera mælingin gefur til kynna. Í verðbólguspánni gerum við heilt yfir ráð fyrir að reiknuð húsaleiga (fasteignaverð) hækki 0,33% eða 4,0% á ársgrundvelli. Það er í takti við fyrri verðbólguspár.

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá:

Gangi spáin fyrir janúar eftir fer árstakturinn í 3,6% og fjarlægist 4 prósenta múrinn en gangi bráðabirgðaspár næstu mánaða eftir verður sá múr rofinn í apríl. Undanfarin 6 ár hefur verðhjöðnunin í janúar numið 0,5% að meðaltali en verðbólgan í febrúar 0,7%. Því er spáin fyrir janúar talsvert fyrir neðan meðaltal undanfarinna ára en spáin fyrir febrúar nánast í takt við meðaltalið. Ástæðan fyrir minni lækkun vísitölunnar í janúar er veiking krónu sem hefur veikst um 11% frá því í ágúst.

Verðbólguþróun næstu mánuði (bráðabirgðaspá síðasta mánaðar birt í sviga):

  • Febrúar 0,8%: Vetrarútsölur ganga til baka. Áfram gætir áhrif á veikingu krónu. Flugfargjöld lækka
  • Mars 0,6%: Vetrarútsölur ganga að fullu til baka. Flugfargjöld hækka
  • Apríl 0,3%: Hefðbundnar smávægilega hækkanir, enginn liður stendur upp úr

 

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka