Árstaktur verðbólgunnar lækkar í 3,4%

Árstaktur verðbólgunnar lækkar í 3,4%

Vísitala neysluverðs (VNV) lækkaði um 0,41% á milli mánaða í janúar skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan lækkaði þar með í 3,4%, úr 3,7% í desember. Verðbólguspár greiningaraðila voru á bilinu -0,5 til -0,2% og er niðurstaðan eilítið fyrir neðan meðalspá greiningaraðila þ.e. þeirra sem birta spár opinberlega. Við spáðum 0,2% lækkun.

Af þeim liðum sem ýttu undir hækkun verðlags má helst nefna; verð á matarkörfunni sem hækkaði um 0,62% (0,07% áhrif á VNV), rafmagn og hiti hækkaði um 1,33% (0,06% áhrif á VNV) og aðrar vörur og þjónusta hækkaði um 0,66% (0,04% áhrif á VNV).

Af þeim liðum sem lækkuðu má helst nefna verð á fatnaði og skóm sem lækkaði um 11,1% (-0,4% áhrif á VNV), húsgögn og heimilisbúnaður lækkaði um 4,9% (-0,19% áhrif á VNV), verð á bílum lækkaði um -1,8% (-0,15% áhrif á VNV) og verð á flugfargjöldum lækkaði um 4,6% (-0,07% áhrif á VNV).

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá samantekt á mismun á mælingu Hagstofunnar og spá Greiningardeildar Arion banka.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Húsnæðismarkaðurinn á sléttu(nni)

Fasteignaverð á landinu lækkaði um 0,02% í janúar samkvæmt mælingu Hagstofunnar. Mest lækkaði verð sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu, eða 0,45%, en verð á fjölbýli á sama svæði stóð nánast í stað á milli mánaða. Árstaktur sérbýlis stendur í 6,8% og hækkaði á milli mánaða þrátt fyrir lækkun þar sem lækkunin fyrir ári var enn meiri. Fjölbýli hefur hækkað um 4,7% undanfarið ár. Fasteignamarkaður á landsbyggðinni lét hinsvegar engan bilbug á sér finna og hækkaði um 0,48% á milli mánaða. Árstakturinn nemur því 9,2%, og er því ennþá fyrir ofan höfuðborgarsvæðið þrátt fyrir að hægt hafi á undanfarna mánuði.  Til að mynda þá nam árstakturinn 14,1% fyrir þremur mánuðum en árstakturinn lækkar þegar breyting á milli mánaða er minni en breytingin var 12 mánuðum áður. Greiningardeild Arion banka sendi frá sér húsnæðisskýrslu í síðustu viku þar spáð er að fasteignaverð eigi eftir að lækka að raunvirði á næstu árum vegna aukins framboðs og erfiðara aðgengi að lánsfjármagni. Skýrsluna má finna hér.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hvað er að drífa verðbólguna?

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvernig 3,4% árstaktur verðbólgunnar er settur saman. Húsnæði ber ábyrgð á 1,42 prósentustigi, sem þýðir að rétt rúmlega tveir fimmtu hlutar verðbólgunnar eru vegna hækkunar á fasteignaverði. Krónan hefur veikst um 11% síðan í ágúst á síðasta ári en innfluttar vörur bera ábyrgð á 1 prósentustigi af árstaktinum, eða um einum þriðja hluta af árstaktinum. Við gerum ráð fyrir að áhrif húsnæðisverðs á verðbólguna eigi eftir að minnka en áhrif annarra liða gætu aukist.

Áhrif veikingar krónunnar á haustmánuðum hefur haft mildari áhrif á verðbólgu síðustu mánuði en við óttuðumst. Kannski höfum við vanmetið mátt samkeppninnar sem hefur leitt til þess að fyrirtæki hafa fremur gefið eftir álagningu eða lækkað kostnað. Svo kann að vera að fyrirtæki og stofnanir haldi í sér með hækkanir þar til betra skyggni fæst yfir vinnumarkaðinn og horfur í stærstu útflutningsgreininni. Þá má vera að söluverð hluta eins og bíla, húsgagna og heimilisbúnaðar endurspegli enn  „gamla gengið“ og hækkanir eigi einfaldlega eftir að koma fram.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá

Horfur um gengi krónunnar og launakostnað skipta að okkar mati mestu máli nú hvað varðar þá stefnu sem verðbólgan á eftir að taka. Átakshópur ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum skilaði tillögum í síðustu viku um hvernig bæta má stöðuna á húsnæðismarkaði. Samningsaðilar á vinnumarkaði hafa tekið tillögunum fagnandi og vonandi liðka tillögurnar fyrir því að lenda megi kjarasamningum. Hins vegar er ekki ljóst hvernig þær verða fjármagnaðar og hversu umfangsmiklar þær verða. Hversu þensluhvetjandi aðgerðirnar eru fer síðan eftir umfangi þeirra. Gæta verður að því að aðgerðir á húsnæðismarkaði munu hafa áhrif á verðlag og mögulega til hækkunar í heild þó markmiðið sé að lækka húsnæðiskostnað sérstaklega. Verði niðurstaðan t.d. sú að skuldir ríkissjóðs eða Íbúðalánasjóðs verða auknar getur slíkt aukið peningamagn í umferð með tilheyrandi verðbólguáhrifum. Ef fjármögnun aðgerðanna verður síðan nær ótengd markaðskjörum dregur það úr áhrifamætti vaxta Seðlabankans.  Spurningin er því hvort að samspil hófsamra launahækkana og aðgerða á húsnæðismarkaði á verðbólgu verði minni heldur en ef þunginn verður fyrst og fremst á nafnhækkun launa. Svarið felst væntanlega í því eftir hversu umfangsmiklar aðgerðirnar verða en áhrifin koma ekki fram á allra næstu mánuðum.

Bráðabirgðaspá fyrir næstu mánuði:

  • Febrúar 0,8%: Vetrarútsölur ganga til baka. Áfram gætir áhrifa af veikingu krónu. Flugfargjöld lækka.
  • Mars 0,6%: Vetrarútsölur ganga að fullu til baka. Flugfargjöld hækka.
  • Apríl 0,3%: Hefðbundnar smávægilega hækkanir, enginn liður stendur upp úr.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka