Færri ferðamenn, fleiri krónur?

Færri ferðamenn, fleiri krónur?

Ferðaþjónustan var mikið í sviðsljósinu í síðustu viku. Isavia kynnti nýja ferðamannaspá sem beðið var eftir með mikilli eftirvæntingu, Rannsóknarsetur verslunarinnar birti sundurliðaða kortaveltu erlendra ferðamanna í desember og RuPaul gaf tveimur dragdrottningum ferð til Íslands, einn stærsti vinningur sem þáttaröðin hefur séð. Þó fyrirsagnir fréttamiðla hafi ekki endilega borið það með sér voru tölurnar jákvæðar, að minnsta kosti frá okkar bæjardyrum séð, enda kortaveltan að aukast og 2,4% samdráttur í komum erlendra ferðamanna ekki náðarhögg fyrir íslenska ferðaþjónustu.

Kortavelta erlendra ferðamanna í desember nam rúmum 14 milljörðum króna, sem samsvarar hvorki meira né minna en 14,6% vexti milli ára. Erlendum ferðamönnum er sóttu landið heim fjölgaði hinsvegar aðeins um 1,5% á sama tíma, sem þýðir að hver ferðamaður var að eyða 12,9% fleiri krónum í jólaferðinni til Íslands en hann gerði fyrir ári síðan. Hér er gengi krónunnar að verki, en gengisveikingin á síðari hluta árs var eins og hlýr Golfstraumur fyrir innlenda ferðaþjónustuaðila sem flestir hverjir bera kostnað í krónum en tekjur tengdar erlendri mynt. Þetta voru þó ekki einu jákvæðu fréttirnar. Ekki nóg með að ferðamenn hafi eytt fleiri krónum en áður, þá eyddu þeir einnig hærri upphæð í sinni eigin heimamynt. Líkt og við höfum áður fjallað um skiptir eyðsla hvers ferðamanns sífellt meira máli, sérstaklega í núverandi árferði þegar útlit er fyrir samdrátt í komum ferðamanna.

Ef árið 2018 er gert upp þá jókst kortavelta erlendra ferðamanna um 9,4% í krónum talið, en um 5,6% á föstu gengi. Erlendum ferðamönnum hér á landi fjölgaði um 5,5% á síðasta ári, sem þýðir að hver ferðamaður var að eyða fleiri krónum en hann gerði áður. Þá hélt neysla ferðamanna í sinni eigin mynt nokkurn veginn velli, sem verður að teljast til gleðitíðinda þar sem það bendir til þess að okkur sé að einhverju leyti að takast að krækja í hina eftirsóttu „betur borgandi“ ferðamenn.

Heimildir: Rannsóknarsetur verslunarinnar, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. * RSV birtir nú aðeins kortaveltu erlendra ferðamanna án flugliðarins.

Kortaveltan, glugginn að sálu þjónustuútflutnings

Þegar hér er komið að sögu eru eflaust einhverjir sem hugsa með sér að kortaveltan segi aðeins hálfa söguna, og það er sannarlega rétt. Sem dæmi, ef erlendir ferðamenn kaupa pakkaferð til Íslands í gegnum erlendra ferðaskrifstofu sem notast ekki við íslenska færsluhirða, þá koma þessi kaup aldrei fram í kortaveltutölum RSV, þó þau komi fram í þjónustuútflutningi þjóðarbúsins. Þannig nam kortavelta erlendra ferðamanna rúmum 86 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi síðasta árs en neysla ferðamanna skv. þjónustuútflutningi 124 ma.kr. Það er þó ekki þar með sagt að kortaveltutölurnar séu ekki gagnlegur, því eins og sjá má á myndinni hér að neðan hafa þær mjög gott forspárgildi um þróun ferðalaga, eða neyslu ferðamanna, í þjónustuútflutningi.

Samhliða ævintýralegum vexti ferðaþjónustunnar hefur vægi neyslu ferðamanna í þjónustuútflutningi farið vaxandi. Sé litið til fyrstu þriggja fjórðunga síðasta árs stóð neysla ferðamanna undir tæplega helmingi þjónustuútflutnings. Það er því mikið í húfi fyrir þjóðarbúið. Út frá kortaveltutölum fjórða ársfjórðungs má ætla að töluverður vöxtur mælist í neyslu ferðamanna. Þetta rímar vel við hagspá okkar sem kom út í október á síðasta ári, en þar er gert ráð fyrir að nafnvöxtur hafi verið 17% á fjórða fjórðungi.

 Heimildir: Rannsóknarsetur verslunarinnar, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka. * Spá Greiningardeildar fyrir neyslu ferðamanna á fjórða fjórðungi síðasta árs.

Krónan til varnar gegn færri ferðamönnum

Líkt og áður sagði kynnti Isavia nýja ferðamannaspá í síðustu viku. Spárinnar var beðið með mikilli eftirvæntingu, enda töluverð óvissa um flugframboð til landsins á árinu. Það mátti greina að þungu fargi var létt af áhorfendum þegar spáin var kynnt, enda 2,4% samdráttur í komum ferðamanna til landsins langt því frá að vera náðarhögg fyrir íslenska ferðaþjónustu.

Í þjóðhagslegu samhengi skiptir í sjálfu sér ekki máli hvort hingað komi tvær eða tvær og hálf milljón ferðamanna, heldur hversu mikil verðmæti þessir einstaklingar skapa fyrir þjóðarbúið. Hér leikur gengi krónunnar lykilhlutverk. Veiking krónunnar á seinni helmingi síðasta árs hefur gert það að verkum að hver ferðamaður eyddi fleiri krónum en hann gerði áður í Íslandsheimsókn sinni. Tekjur ferðaþjónustunnar í krónum voru því að vaxa meira en nam fjölgun ferðamanna. Þetta er sólargeisli inn í umræðuna um fækkun í komum ferðamanna á milli ára.

Hér að neðan höfum við gert tilraun til að meta áhrif á heildarneyslu ferðamanna ef farþegaspá Isavia rætist og gengi krónunnar þróast eftir ferli sem er svipaður þeim sem birtur var í hagspá okkar. Þá er gert ráð fyrir að neysla ferðamanna í sinni eigin mynt haldist óbreytt á milli ára. Líkt og sjá má vegur veiking krónunnar á móti fækkun í komutölum, það er að segja, heildarneysla ferðamanna í krónum talið eykst milli ára, þrátt fyrir að færri ferðamenn leggi leið sína til landsins. Miðað við þær forsendur sem stuðst er við hér, mætti komum erlendra ferðamanna fækka um allt að 5,5% milli ára án þess að heildarneyslan dragist saman.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Ferðamálastofa, Isavia, Greiningardeild Arion banka. * Spá Greiningardeildar er byggð á gengisspá og ferðamannaspá Isavia.

Úr bjartsýnu í svartsýnu sviðsmyndina?

Þó að Isavia hafi í gegnum tíðina verið yfirvaldið þegar kemur að spám um fjölda ferðamanna, enda með bestu yfirsýnina yfir umferð um flugvöllinn, óttumst við að nýjasta spáin gæti reynst of bjartsýn þegar upp er staðið. Ferðamálastofa birti nú í morgun tölur um fjölda ferðamanna í janúarmánuði og eru þær um margt áhugaverðar. Brottförum erlendra ferðamanna fækkaði um 5,8% milli ára, sem er töluvert lakari niðurstaða en Isavia hafði ætlað. Þetta kemur okkur nokkuð á óvart í ljósi þess að spá þeirra var birt fyrir viku síðan, þegar einungis tveir dagar voru eftir af janúarmánuði. Þessi mismunur milli spár og rauntalna er framhald af þróun síðasta árs, en þá gekk spágerðin einnig brösuglega.

Ofan á slakar janúartölur bætist gjaldþrot Germania, sem hugðist fljúga hingað til lands í sumar frá þremur áfangastöðum í Þýskalandi. Þá liggur ekki endanlega fyrir hvert framboð íslenskra flugfélaga verður. Allt þetta gefur að okkar mati ákveðna vísbendingu um samdráttur upp á 2,4% ætti ef til vill frekar að titla sem bjartsýna sviðsmynd.

 Heimildir: Ferðamálastofa, Isavia