Dúfurnar höfðu betur í bragðlausum leik - óbreyttir stýrivextir

Dúfurnar höfðu betur í bragðlausum leik - óbreyttir stýrivextir

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að halda meginvöxtum óbreyttum í 4,5%, ákvörðun sem er í fullu samræmi við okkar spá og annarra sem birtu opinberar spár. Þó svo að yfirlýsingin hafi heilt yfir verið bragðlaus leyndust þar nokkur piparkorn. Svo virðist sem nefndin sé tilbúin til að horfa framhjá versnandi verðbólguhorfum þar sem framleiðsluspennan er að minnka hratt og taumhald peningastefnunnar að aukast. Hér vantar þó eitt stórt EN, þar sem nefndin mun líklega ekki umbera mikla hækkun verðbólguvæntinga. Það er að segja, svo virðist sem nefndin sé á þeim buxunum að hleypa verðbólgu yfir markmiði í gegn, svo fremur sem verðbólguvæntingar haldast lágar. Gangi það eftir yrði það óneitanlega sögulegur sigur fyrir peningastefnuna. Að okkar mati er dúfnakurrið yfirgnæfandi að þessu sinni, þó svo að haukarnir haldi áfram að öskra sig hása um vilja og getu í niðurlagi yfirlýsingarinnar. Slík varnaðarorð eru þó orðin að föstum liðum og hætt að rífa í bragðlaukana.

Skemmtileg nýbreytni var á matseðli kynningarfundarins í morgun en seðlabankastjóri talaði nokkuð hispurslaust um bindiskylduna á innflæði fjármagns. Af orðum hans að dæma mun bindiskyldan að öllum líkindum vera lækkuð, jafnvel núllstillt, um leið og frumvarpið um losun aflandskróna verður samþykkt. Slíkt er að okkar mati fagnaðarefni, enda er að hægja hratt á hagkerfinu, krónan hefur veikst og fjármagnsskilyrði innlendra lánastofnana að herðast. Boltinn er því hjá þinginu, en seðlabankastjóri er dauðafrír með augun á markinu.

Spenna, minni spenna, engin spenna

Að þessu sinni voru ný Peningamál mun áhugaverðari en yfirlýsing peningastefnunefndar, þar sem töluverð breyting hefur orðið á þjóðhags- og verðbólguspá bankans. Augljósasta breytingin, og sú sem flestir taka fyrst eftir, er að Seðlabankinn hefur fært hagvaxtarspá sína fyrir árið í ár niður í 1,8% hagvöxt, úr 2,7% hagvexti sem spáð var í nóvember. Hægari vöxtur stafar fyrst og fremst af samdrætti í ferðaþjónustu, en einnig er gert ráð fyrir minni vexti fjárfestingar, þá fyrst og fremst minni vexti í fjárfestingu hins opinbera en áður var talið.

Þó hagvaxtartölurnar fangi yfirleitt fyrst athyglina þá er ástæða til að beina sjónum að spá bankans um framleiðsluspennu. Spá um hægari hagvöxt gerir það að verkum að framleiðsluspennan í hagkerfinu er að minnka mun hraðar en áður var gert ráð fyrir. Þetta er að okkar mati ein áhugaverðasta breytingin í nýrri spá Seðlabankans, enda hefur töluverð framleiðsluspenna í hagkerfinu undanfarin misseri kallað á peningalegt aðhald. Minni framleiðsluspenna ætti þar af leiðandi, að öðru óbreyttu, að draga úr líkum á frekari vaxtahækkunum. Í ljósi þess að samdráttur í ferðaþjónustu er sá áhrifaþáttur sem hefur hvað mest áhrif á spá Seðlabankans að þessu sinni þætti okkur áhugavert að sjá þá ferðamannaspá sem bankinn styðst við. Í glærukynningu aðalhagfræðings í morgun og í Peningamálum er talað um spá Isavia, en hvergi tekið skýrt fram að hún liggi til grundvallar. Eins og við fjölluðum um í gær bendir ýmislegt til þess að þá spá ætti ef til vill frekar að titla sem bjartsýna sviðsmynd. Því veltum við fyrir okkur, er áhættan niður á við þegar kemur að framleiðsluspennunni?

Heimild: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Gengið of veikt að mati Seðlabankans

Fram kom í máli aðalhagfræðings Seðlabankans að horfur á fækkun ferðamanna og samdráttur í flugframboði leiðir til þess að Seðlabankinn spáir samdrætti í útfluttri þjónustu í fyrsta sinn síðan 2008. Að öðru óbreyttu ætti það að draga úr viðskiptaafgangi og lækka þannig jafnvægisraungengi hagkerfisins en þrátt fyrir það telur Seðlabankinn gengi krónunnar enn of veikt.

Heimild: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Nýútgefið mat Seðlabankans á jafnvægisraungengi fyrir þriðja ársfjórðung 2018 er 11,4% sterkara en raungengi desembermánaðar. Miðað við gengis- og verðbólguþróun í janúar má ætla að raungengið hafi styrkst lítillega í janúar en það á þó enn mjög langt í land til að ná jafnvægisraungengi Seðlabankans. Það vekur athygli okkar að í Peningamálum er þrátt fyrir þetta gert ráð fyrir veikari krónu en áður. Þar segir einnig að markmið bankans með inngripunum sé að draga úr óhóflegum skammtímasveiflum í gengi krónunnar en að inngripin endurspegli einnig það mat bankans að gengi krónunnar sé undir jafnvægisgildi sínu.

Þrátt fyrir þessi orð virðist inngripastefnan endurspegla umtalsvert veikara gengi en jafnvægisraungengismatið segir til um. Þegar Seðlabankinn fór á móti styrkingu krónunnar í lok desember var hugsunin líklega að draga úr óhóflegum gengissveiflum þrátt fyrir að það hafi í því tilfelli farið þvert á móti skoðun bankans á jafnvægisgenginu. Seðlabankinn gerir í gengisspá sinni ráð fyrir að meðalgengi krónunnar árið 2019 verði lítillega sterkara en núverandi gengi sem skýrist líklega af því að margt fleira getur haft áhrif á gengið en undirliggjandi efnahagsstærðir. Seðlabankinn gerir aftur á móti ráð fyrir að krónan muni styrkjast um tæp 3% árið 2020 sem má túlka sem svo að þyngdarlögmálið sigri að lokum. Ný gengisspá Seðlabankans um veikari krónu skýrir væntanlega að hluta til hærri verðbólguspá bankans.

 

Heimild: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Verðbólgan fylgir krónunni

Seðlabankinn hefur fært verðbólguspá sína upp á við en í henni er gert ráð fyrir að verðbólgan nái hámarki á þriðja fjórðungi þessa árs, í 3,8%, en fari svo minnkandi og verði komin í markmið í byrjun árs 2021. Þetta er nokkur breyting frá síðustu spá og ætti að öðru óbreyttu að ýta undir vaxtahækkanir. Ef verðbólguvæntingar haldast hins vegar stöðugar, samhliða minnkandi framleiðsluspennu, má vera að peningastefnunefnd sjái ekki þörf á að hækka vexti. Þó er mikilvægt að hafa í huga að ekki er komin niðurstaða í kjarasamninga og því byggir núverandi verðbólguspá bankans á svipaðri launaspá og í nóvember, eða meðalárshækkun launakostnaðar upp á 5,7% á þessu ári og 2,8% á næsta ári.

Heimild: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Á kynningarfundi seðlabankastjóra og aðalhagfræðings kom fram sú skoðun aðalhagfræðings að hann teldi að raunfasteignaverð ætti eftir að halda áfram að hækka á næstunni því gert væri ráð fyrir að raunlaun myndu hækka. Við höfum haldið því fram að framboð íbúðarhúsnæðis ætti eftir að aukast og að aðgengi að lánsfjármagni gæti farið versnandi eða í það minnsta að kjörin fari versnandi. Útlánatölur bankakerfis og lífeyrissjóða eru ekki enn farnar að staðfesta þennan grun okkar. Við birtum nýverið húsnæðisskýrslu þar sem við gerum ráð fyrir að raunfasteignaverð eigi eftir að lækka á næstu árum vegna aukins framboðs og verra aðgengi að lánum.

Að okkar mati minni hagvöxtur, viðsnúningur í ferðaþjónustu, meiri slaki og minnkandi verðbólguvæntingar undanfarna mánuði til þess fallnar að draga úr líkunum á vaxtahækkunum. Haldist verðbólguvæntingar lágar er því ólíklegt að peningastefnunefnd sjái ástæðu til vaxtahækkana.