Verðbólgan hækkar í 3,5%

Verðbólgan hækkar í 3,5%

Við spáum 0,7% hækkun á vísitölu neysluverðs í febrúar, sem þýðir að verðbólgan hækkar úr 3,4% í 3,5%. Þetta er minni hækkun en síðasta bráðabirgðaspá okkar gerði ráð fyrir, en hún hljóðaði upp á 0,8% hækkun. Hagstofan mælir vísitöluna um þessar mundir, eða nánar tiltekið 11. til 15. febrúar, og mælingin verður birt þriðjudaginn 27. febrúar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Af þeim liðum sem við spáum að hækki í mælingu Hagstofunnar má helst nefna útsöluliði eins og verð á fatnaði, skóm og húsgögnum. Samkvæmt janúarmælingunni svipaði útsölum til fyrri ára. Sem dæmi lækkuðu föt og skór um 12% í verði, sem er í góðu samræmi við undanfarin ár, þó ívið meira en á síðasta ári. Útsölur á fyrrnefndum tveimur liðum ganga venjulega til baka í tveimur skrefum, fyrst í febrúar og síðan mars, og gerum við ráð fyrir um 7% hækkun á verði fatnaðar (0,25% áhrif á VNV) í febrúar, sem er eilítið meiri hækkun en undanfarin ár. Verð á húsgögnum lækkaði minna í janúar sl. en í sama mánuði árin á undan, eða um 4,9%. Við gerum ráð fyrir að lækkunin á verði húsgagna gangi að öllu leyti til baka í febrúar, eða sem samsvarar hækkun um 5,7% (0,22% áhrif á VNV). Auk þess má nefna undirliðinn tómstundir sem við spáum að muni hækka um 0,8% (tæplega 0,1% áhrif á VNV). Undir þennan lið falla sjónvörp, tölvur og ýmis raftæki og hækkar liðurinn vanalega í febrúar þrátt að sýna ekki mikil útsöluáhrif í janúar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Fly me to the moon

Í spánni er gert ráð fyrir að verð á flugfargjöldum lækki um 7% (-0,1% áhrif á VNV). Undanfarin ár hefur verð á flugfargjöldum ýmist lækkað eða hækkað í febrúar. Við gerum hinsvegar ráð fyrir því að verðin hafi farið lækkandi, niðurstaða sem er byggð á spálíkani okkar, mælingu okkar á flugfargjöldum á netinu og ummælum stjórnenda flugfélaga um þróun flugfargjalda.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bensínverð hefur hækkað örlítið síðastliðnar vikur. Borið saman við síðustu mælingarviku, fyrir rúmum mánuði, þá hefur bensínlítrinn hækkað í 220,5 kr. úr 219,9 kr. eða hækkun um 0,27%. Dísillítrinn hefur hækkað í 219,9 kr. úr 219,3 kr. eða hækkun um 0,22%. Heildaráhrifin eru 0,008% til hækkunar á vísitölunni.

Heimildir: bensinverd.is, Greiningardeild Arion banka

Húsnæðisverð hækkar, hvað annað er nýtt?

Mælingar okkar á þróun ásetts fermetraverðs í fasteignaauglýsingum benda til þess að árshækkunin fari lækkandi, eða haldist nokkurn veginn í kringum 5% fyrir höfuðborgarsvæðið. Þróunin á landsbyggðinni virðist stefna í sömu átt og þó árstakturinn þar sé enn talsvert hærri, fer hann lækkandi, bæði í mælingum Hagstofunnar sem og mælingum okkar á netinu. Í verðbólguspánni gerum við heilt yfir ráð fyrir að reiknuð húsaleiga (fasteignaverð) hækki um 0,33% eða 4,0% á ársgrundvelli. Það er í takti við fyrri verðbólguspár.

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá – Mun múrinn falla?

Gangi spáin fyrir febrúar eftir þá hækkar árstakturinn í 3,5% og nálgast 4 prósenta múrinn í hænuskrefum. Gangi bráðabirgðaspár okkar fyrir næstu mánuði eftir, verður sá múr snertur í maí sem er mánuði seinna en við gerðum ráð fyrir í síðustu verðbólguspá. Þó hækkanir í apríl og maí séu ekki jafn háar og mánuðina á undan þá námu breytingar á verðlagi þessara sömu mánaða fyrir ári 0,04% í apríl og -0,09% í maí sem veldur því að áhrifin á ársverðbólguna eru þetta mikil til hækkunar.
Verðbólguþróun næstu mánuði (bráðabirgðaspá síðasta mánaðar birt í sviga):

  • Mars 0,5% (0,6%): Vetrarútsölur ganga að fullu til baka. Flugfargjöld hækka.
  • Apríl 0,3% (0,3%): Flestar undirvísitölur hækka smávegis, enginn einn liður stendur upp úr.
  • Maí 0,2%: Flestar undirvísitölur hækka smávegis, enginn einn liður stendur upp úr.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka