Utanríkisviðskiptin á 4F: Hallinn mun sigra?

Utanríkisviðskiptin á 4F: Hallinn mun sigra?

Hagstofa Íslands birti í morgun utanríkisverslunartölur fyrir fjórða ársfjórðung (4F) 2018. Til að gera langa sögu stutta eru tölurnar nokkuð lakari en væntingar okkar stóðu til um. Það var viðbúið að afgangur af þjónustuviðskiptum myndi minnka milli ára, enda hafa óveðurskýin hrannast upp hjá ferðaþjónustunni síðustu mánuði. Sú varð raunin, en afgangur af þjónustuviðskiptum nam 33,4 ma.kr. á 4F, sem samsvarar 42,3% samdrætti milli ára á föstu gengi. Spá okkar fyrir fjórðunginn hljóðaði upp á 50 ma.kr. afgang, og því töluvert sem munar á milli. Það er hinsvegar ekki ferðaþjónustan sem mestu munar um í þetta sinn, heldur lyfjaiðnaðurinn. Engu að síður bera tölurnar þess skýrt merki að farið er að hægja verulega á í ferðaþjónustunni og að það sé þungbúið framundan.

Eins og sjá má þegar rauntölurnar eru bornar saman við spána var ferðaþjónustan aðeins lítillega undir væntingum. Tekjur af erlendum ferðamönnum (ferðalög og farþegaflutningar) námu 103 ma.kr. á 4F, samanborið við 108 ma.kr. spá okkar frá því í október. Það var annar útflutningur, sem við höfum kosið að kalla hinu þjála nafni óferðaþjónustutengdur útflutningur, sem olli mismuninum. Hér vegur þyngst liðurinn Gjöld fyrir notkun hugverka, sem á rætur sínar að rekja til útflutnings á hugverkum fyrirtækja í lyfjaiðnaði. Þessi liður hefur undanfarin ár verið mjög stór á síðari hluta ársins, en þá virðist sem greiðslur séu færðar til bókar. Árið 2017 komu nær allar greiðslurnar inn á 4F, þá 25,5 ma.kr., en árið 2018 dreifðust þær yfir seinni helming ársins, 25 ma.kr. samtals en aðeins 10 ma.kr. voru bókfærðir á 4F. Þetta útskýrir að miklu leyti 42,3% samdrátt þjónustuafgangs á milli ára, sem og frávikið frá okkar spá.

Lokaniðurstaðan er sú að vöru- og þjónustujöfnuður var neikvæður um 3,5 ma.kr. á 4F, samanborið við 14 ma.kr. afgang á 4F 2017, á föstu gengi. Þetta er í fyrsta skipti frá árinu 2008 sem vöru- og þjónustuviðskipti skila halla á ársfjórðungi. Seðlabankinn birtir tölur fyrir viðskiptajöfnuð þann 4. mars nk. skv. birtingardagatali. Reikna má með að nettó rekstrarframlög verði neikvæð, en meiri óvissa er varðandi frumþáttatekjurnar, sem voru jákvæðar á 3F en neikvæðar á 2F. Okkur þykir þó líklegast að jafnvel þótt frumþáttatekjurnar verði jákvæðar, að viðskiptajöfnuður á 4F verði neikvæður. Í hagspá okkar frá október er gert ráð fyrir 4,5 ma.kr. viðskiptahalla.

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Líkt og áður sagði var vöru- og þjónustujöfnuður neikvæður um 3,5 ma.kr. á 4F. Þetta er nokkuð lakari niðurstaða en við væntum, en við gerðum ráð fyrir afgangi upp á tæpa 2 ma.kr. Jafnvel þó vöruskiptahallinn hafi reynst minni en við spáðum, reyndist það ekki duga þegar á hólminn var komið til að vega á móti minni afgangi af þjónustuviðskiptum.

Í heildina litið kom árið þó örlítið betur út en við höfðum þorað að vona. Vöru- og þjónustujöfnuður var jákvæður um 95,5 ma.kr. árið 2018, en okkar spá gerði ráð fyrir 83 ma.kr. afgangi. Þrátt fyrir meiri afgang en væntingar stóðu til um er þetta mun minni afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum en undanfarin ár. Árið 2016 nam afgangurinn 160 ma.kr., og 119 ma.kr. árið 2017. Þetta samsvarar því 20% samdrætti frá árinu 2017, og 40% samdrætti frá árinu 2016, á föstu gengi.

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hvað ef ég get ekki vaxið meir?

Tölurnar sýna svart á hvítu að farið var að hægja verulega á ferðaþjónustunni á 4F, jafnvel þó flugframboð til landsins hafi haldið áfram að aukast á þeim fjórðungi. Þannig drógust tekjur af erlendum ferðamönnum (neysla ferðamanna og farþegaflutningar) saman um 3,3% milli ára, á föstu gengi. Það voru þó ekki ferðamennirnir sjálfir sem ollu sérstökum vonbrigðum, þar sem neysla þeirra jókst um 1% milli ára, heldur voru það farþegaflutningar.

Fyrirfram bjuggumst við við samdrætti milli ára, enda flugfargjöld ennþá lág og lítill vöxtur í leiðarkerfi íslensku flugfélaganna. 10% samdráttur er hinsvegar nokkuð hressilegri en við höfðum áætlað, í ljósi þess að þónokkur framboðsvöxtur var á vegum Icelandair sem við töldum að myndi vega á móti samdrættinum hjá WOW air, sem fyrst tók að bera á í nóvember. 10% samdráttur er jafnframt mesti samdráttur, á föstu gengi, sem mælst hefur í farþegaflutningum frá því að Hagstofan tók að birta þessa sundurliðun (árið 2009).

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Líkt og áður sagði jókst neysla ferðamanna um 1% milli ára á 4F, á föstu gengi. Ferðamönnum fjölgaði hinsvegar um 5,4% á sama tíma, sem þýðir að hver ferðamaður var að eyða minna í sinni eigin mynt en áður, þriðja fjórðunginn í röð. Við kjósum þó frekar að líta á glasið sem hálf fullt, þar sem eyðsla á hvern ferðamann í krónum talið jókst um 6%. Það ætti að vera ánægjulegt fyrir þau íslensku ferðaþjónustufyrirtæki sem bera kostnað í krónum. Veiking krónunnar hefur þannig varið þjóðarbúið fyrir hægari vexti í komum ferðamanna.

Það er útlit fyrir að erlendum ferðamönnum hér á landi muni fækka á þessu ári, sérstaklega á fyrsta ársfjórðungi. Sem dæmi gerir farþegaspá Isavia ráð fyrir að ferðamönnum fækki um 17%, bæði í febrúar og mars. Hversu mikil efnahagsleg áhrif slík fækkun mun hafa ræðst af því hversu mikið hver ferðamaður skilur eftir sig. Þetta atriði hefur verið okkur ofarlega í huga að undanförnu. Sem dæmi birtum við greiningu fyrr í þessum mánuði byggða á farþegaspá Isavia, sem við óttumst þó að gæti verið full bjartsýn, þar sem fram kemur að veiking krónunnar vegi á móti fækkun í komutölum. Það er að segja, heildarneysla ferðamanna í krónum talið eykst á milli ára, þrátt fyrir að færri ferðamenn leggi leið sína til landsins. Miðað við þær forsendur sem stuðst var við í þeirri greiningu mætti erlendum ferðamönnum fækka um allt að 5,5% milli ára án þess að heildarneysla dragist saman. Það er því kappsmál fyrir þjóðarbúið að tryggja að þjónusta við ferðamenn, hvort sem það er afþreying, gisting og samgöngur, séu eins og best verði á kosið til að lágmarka áhrifin sem hljótast af fækkun ferðamanna. 

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Ferðamálastofa, Greiningardeild Arion banka