Útsölu(ó)lok í febrúar - Verðbólgan í febrúar lækkar í 3%

Útsölu(ó)lok í febrúar - Verðbólgan í febrúar lækkar í 3%

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,19% milli mánaða í febrúar skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan lækkaði þar með í 3,0%, úr 3,4% í janúar. Verðbólguspár greiningaraðila voru á bilinu 0,6 til 0,7% og því er raunin talsvert fyrir neðan meðalspá greiningaraðila þ.e. þeirra sem birta spár opinberlega. Við spáðum 0,7% hækkun.

Af þeim liðum sem komu hvað mest á óvart má helst nefna að verð á fötum og skóm hækkaði um 1,2% (0,04% áhrif á VNV) en við gerðum ráð fyrir að útsölulok myndu þrýsta verðinu upp um 7%. Þá lækkaði matarkarfan um 0,4% (-0,05% áhrif á VNV), þvert á væntingar okkar, en okkar spá hljóðaði upp á 0,3% hækkun. Hvað varðar önnur minni frávik frá spánni má nefna að flugfargjöld lækkuðu eilítið meira en við spáðum -10% (0,14% áhrif á VNV) og verð á bílum lækkaði um 0,8% (-0,06% áhrif á VNV). Útsölulok komu skýrt fram í verði á húsgögnum sem hækkaði um 5,4% (0,2% áhrif á VNV). Reiknuð húsaleiga (fasteignaverð) hækkaði um 0,28% (0,06% áhrif á VNV).

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá samanburð á á mælingu Hagstofunnar og spá Greiningardeildar Arion banka.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Fasteignamarkaðurinn er kletturinn í verðbólguspánni

Fasteignaverð á landinu hækkaði um 0,38% í febrúar samkvæmt mælingu Hagstofunnar. Mesta hækkunin var á fasteignaverði á landsbyggðinni eða 0,8% hækkun, á meðan fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,3% en sérbýli um 0,1%. Árstaktur fasteignaverðs á landinu lækkar því í 5,6%, úr 6,0%, og hefur þar af leiðandi lækkað statt og stöðugt undanfarið. Mánaðartakturinn hefur einnig verið tiltölulega stöðugur undanfarna mánuði (fyrir utan janúarmælinguna) og að meðaltali hefur fasteignaverð á landinu hækkað um 0,3% síðan í ágúst á síðasta ári.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hvað er að drífa verðbólguna?

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvernig árstaktur verðbólgunnar er samansettur. Húsnæði ber ábyrgð á 1,34 prósentustigi, af 3,0% árstakti, og er því um 45% ársverðbólgunnar vegna hækkunar á fasteignaverði. Áhrif innfluttra vara á árstaktinn nema um 0,7 prósentustigi og hafa lækkað undanfarna tvo mánuði, úr um 1,2 prósentustigi. Gengi krónunnar hefur veikst  um 11% síðan í febrúar á síðasta ári (reiknað á milli mælingarvikna) en þrátt fyrir það ber veiking krónunnar einungis ábyrgð á um þriðjungi ársverðbólgunnar. Fyrirfram bjuggumst við við því að áhrifin kæmu hraðar fram og af meiri þunga, enda hefur mikill gengisleki leikið landann grátt á árum áður. Vel má vera að gengislekinn hafi minnkað á síðustu árum, m.a. vegna aukinnar alþjóðlegrar samkeppni, en að okkar mati er of snemmt að leggja áreiðanlegt mat á það. Það má allt eins vera að fyrirtæki í landinu séu einfaldlega að bíða eftir að óvissuskýjum á sjóndeildarhringnum fækki.

Síðast en ekki síst má nefna að innlendar vörur og grænmeti hafa 0,52 prósentustiga áhrif á árstaktinn, og hefur takturinn verið stöðugur í kringum þá tölu undanfarna mánuði, en til samanburðar þá má nefna að áhrifin voru 0,1 prósentustig fyrir ári. Við gerum ráð fyrir að áhrif húsnæðisverðs á verðbólguna eigi eftir að minnka þegar fram í sækir, en áhrif annarra liða gætu hækkað. Það fer þó m.a. eftir niðurstöðum kjarasamninga og þeirra aðgerða sem gripið verður til, til að koma til móts við kröfur stéttarfélaganna.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá: Ég veit (held) þú kemur í mars

Útsöluáhrifin á fötum og skóm voru minni í febrúar en spár greiningaraðila gerðu ráð fyrir. Frá 2010 hefur verð á fatnaði hækkað um 5,9% í febrúar að meðaltali en hækkaði nú í ár aðeins um 1,8%. Verð á skóm lækkaði um 1,9% í febrúar en hefur hækkað um 5,2% að meðaltali síðan 2010. Fyrir tveimur árum þá hækkaði verð á fatnaði um 1,7% í febrúar og verð á skóm lækkaði um 3,9%. Í kjölfarið hækkaði verð á fatnaði í mars um 7,3% og verð á skóm um 11%, sem er töluvert yfir sögulegu meðaltali. Síðan 2010 hefur verð á fatnaði hækkað að meðaltali um 5,3% í mars og 5,7% á skóm. Þó ekki sé hægt að byggja það á tölfræðilega breiðum grunni þá benda sögulegu gögnin til þess að þegar útsöluáhrifin láta bíða eftir sér, þá koma þau einfaldlega með meiri krafti mánuði síðar. Það verður spennandi að sjá næstu mælingu og hvort útsöluáhrifin komi af meiri þunga í mars.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspár fyrir næstu mánuði:

  • Mars 0,8% (0,6%): Vetrarútsölur ganga að fullu til baka. Flugfargjöld hækka.
  • Apríl 0,3%: Hefðbundnar smávægilega hækkanir, enginn liður stendur upp úr.
  • Maí 0,2%: Flestar undirvísitölur hækka smávegis, enginn einn liður stendur upp úr.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka