Lendingu frestað, ekki aflýst: 4,9% hagvöxtur árið 2018

Lendingu frestað, ekki aflýst: 4,9% hagvöxtur árið 2018

Hagstofa Íslands birti í morgun hagvaxtartölur fyrir fjórða ársfjórðung (4F). Enn og aftur kemur krafturinn í hagkerfinu okkur á óvart, en landsframleiðslan jókst um hvorki meira né minna en 5,2% milli ára á fjórða fjórðungi. Sé árið 2018 tekið saman mælist 4,9% hagvöxtur, sem er mun meiri vöxtur en flestir væntu við upphaf síðasta árs. Biðin eftir mjúku lendingunni heldur þar af leiðandi áfram, en tölurnar bera þess þó skýrt merki að henni hefur ekki verið aflýst, aðeins frestað. 

Fjórði fjórðungur reyndist töluvert sterkari en bæði við og Seðlabankinn bjuggumst við, en spá okkar fyrir fjórðunginn hljóðaði upp á 2,3% hagvöxt á meðan Seðlabankinn reiknaði með 2,4% vexti. Helstu frávikin frá okkar spá er sterkur fjárfestingavöxtur og lítilsháttar jákvætt framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar.

Hvað varðar fjárfestinguna ber helst að nefna fjárfestingu hins opinbera, sem jókst um 85,1%. Hér er þó ekki um að ræða verulega fjárfestingaaukningu af hendi hins opinbera, heldur skýrist vöxturinn að miklu leyti af afhendingu Hvalfjarðarganganna til ríkisins. Í fréttatilkynningu Hagstofunnar kemur fram að: „Samkvæmt aðferðafræði þjóðhagsreikninga á slík afhending eignar að teljast til fjárfestingar hjá ríkinu á þeim tímapunkti sem eignin er afhent. Á móti fjárfestingarútgjöldum tekjufærist fjármagnstilfærsla í rekstri ríkisins þannig að áhrifin á afkomu þess eru engin.“ Áhrif þessa á heildarfjárfestingu eru engin, þar sem á móti dregur úr atvinnuvegafjárfestingu.

Þegar kemur að utanríkisversluninni þá koma innflutningstölurnar meira á óvart en þróun útflutnings. Vöruinnflutningur dróst saman um 9,1% og þjónustuinnflutningur um 0,6%, en fyrirfram bjuggumst við við lítilsháttar innflutningsvexti. Hafa ber í huga að spá okkar er frá október á síðasta ári. Þetta er í fyrsta skipti frá árinu 2013 sem innflutt þjónusta dregst saman milli ára. Að okkar mati sýna tölurnar skýrt að hægt hefur á innlendri eftirspurn, sem rímar vel við hægari einkaneysluvöxt og samdrátt í hefðbundinni atvinnuvegafjárfestingu. Við teljum að þessi þróun muni halda áfram á komandi misserum, þ.e.a.s. lítill kraftur muni reynast í innflutningi. Sem dæmi voru vöruviðskiptin í janúar hagstæð um tæplega 7 milljarða króna, í fyrsta skipti í meira en tvö ár, enda dróst vöruinnflutningur saman um 6%. Þar af dróst innflutningur á fjárfestingavörum saman um 8% á meðan innflutningur á neysluvörum jókst aðeins um 1% milli ára, á föstu gengi.

Í tilfelli útflutnings þá skýrist samdrátturinn milli ára fyrst og fremst af útflutningi á hugverkum í lyfjaiðnaði, sem kom allur fram á þriðja fjórðungi þessa árs, enda jókst útflutningur þá um 5,3%. Nánari umfjöllun um það má sjá í Markaðspunkti okkar frá því á mánudaginn. 

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Líkt og undanfarna fjórðunga var það einkaneyslan sem dró vagninn, þrátt fyrir að einkaneysluvöxturinn hafi gefið nokkuð eftir. Fjárfesting lagði einnig hönd á plóg, þ.e.a.s. íbúðafjárfesting og fjárfesting hins opinbera, sem og birgðabreytingar. Alls jukust birgðir um 0,4 ma.kr. á fjórða fjórðungi, sem hefur töluverð áhrif á hagvöxt líkt og sjá má hér að neðan. Framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar var lítilsháttar jákvætt, þar sem innflutningur dróst meira saman en útflutningur. Í það heila teljum við að samsetning hagvaxtar sé tiltölulega hagstæð.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Mikill hagvöxtur ruggar ekki peningastefnubátnum

Peningastefnunefnd Seðlabankans mun hittast 18. og 19. mars næstkomandi til að ákvarða stýrivexti. Þrátt fyrir að hagvöxtur hafi reynst nokkuð meiri heldur en Seðlabankinn reiknaði með teljum við að tölurnar séu ekki til þess fallnar að ýta undir vaxtahækkun. Hægt hefur verulega á einkaneysluvextinum og innflutningstölurnar bera þess merki að létt hefur á innlendri eftirspurn. Sterkur hagvöxtur endurspeglar þar af leiðandi ekki aukna þenslu í hagkerfinu. Við teljum að peningastefnunefnd muni taka tillit til þessa, sem og versnandi hagvaxtarhorfa á þessu ári.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Ráðgátan um íbúðafjárfestinguna

Af undirliðum fjárfestingar kom lítill vöxtur íbúðafjárfestingar okkur helst á óvart. Íbúðafjárfesting jókst um 9,4% á 4F, en við höfðum reiknað með 23% vexti. Íbúðafjárfesting jókst alls um 18% árið 2018, sem er töluvert minni vöxtur en við höfðum áætlað. Í milljörðum talið nemur munurinn á okkar spá og rauntölunum um 18 milljörðum króna. Ef við gerum ráð fyrir að ný íbúð kosti að meðaltali um 45 m.kr. þá eru þetta um 400 íbúðir sem munar á milli! Hafa ber í huga að viðhald á eldri eignum telst sem íbúðafjárfesting. Í ljósi þess að tölur Þjóðskrár benda til þess að tæplega 2.400 íbúðir hafi bæst við á síðasta ári á landinu öllu, sem er nýtt frá-því-eftir-hrun met, gæti verið að íbúðafjárfesting undir væntingum endurspegli frekar að viðhald hafi setið á hakanum en ekki uppbygging nýrra eigna.

Hvað varðar atvinnuvegafjárfestingu þá lá nokkurn veginn fyrir að hún myndi dragast saman á fjórða fjórðungi, enda lengi verið vitað um samdrátt í fjárfestingu stóriðju- og raforkuframleiðslu. Þá bentu áætlanir skipa- og flugfélaga til minni fjárfestingar en undanfarin ár. Það sem kemur hins vegar nokkuð á óvart er samdráttur í hefðbundinni atvinnuvegafjárfestingar upp á 3%. Þá er búið að endurmeta hefðbundna atvinnuvegafjárfestingu fyrir aðra fjórðunga ársins og mælist nú samdráttur á öllum ársfjórðungum, samtals 5,8% samdráttur á árinu 2018. Hér er að öllum líkindum tilfærsla Hvalfjarðarganganna frá einkaaðilum til hins opinbera að lita tölurnar og því erfitt að draga of sterkar ályktanir að svo stöddu. Áhugvert væri að sjá hver þróun hefðbundinnar atvinnuvegafjárfestingar sé án Hvalfjarðarganganna.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Árið sem kom greiningaraðilum í opna skjöldu

Hagvöxtur árið 2018 nam 4,9% skv. bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Eins og áður kom fram er þetta mun meiri vöxtur en flestir bjuggust við í upphafi árs, þegar spár hljóðuðu upp á 3% vöxt. Líkt og fyrri ár dró einkaneyslan vagninn en verulega hefur þó hægt á einkaneysluvextinum. Þannig nam vöxtur einkaneyslu 4,8% árið 2018, samanborið við 8,1% vöxt árið áður. Hátíðnivísbendingar, svo sem kortavelta og væntingavísitala Gallup, benda til þess að áfram muni hægja á einkaneysluvextinum. Heildarfjárfesting jókst um 3,5% árið 2018, en atvinnuvegafjárfesting dróst saman, í fyrsta skipti síðan árið 2013. Það sem kemur einna mest á óvart er hins vegar lítill innflutningsvöxtur árið 2018, eða 0,1%. Þetta gerir það að verkum að framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar var jákvætt árið 2018. Samsetning hagvaxtar árið 2018 verður því að teljast nokkuð hagkvæm.

Það má reikna með að meira brimrót verði á vegi þjóðarskútunnar á þessu ári. Hörð kjarabarátta stendur nú yfir sem ekki sér fyrir endann á. Verkföll eru yfirvofandi og ferðaþjónustan, sem stendur höllum fæti fyrir, er með skotmark á bakinu. Eins og það sé ekki nóg, þá er útlit fyrir að komum ferðamanna til landsins muni fækka á árinu. Spá Isavia gerir ráð fyrir 2,4% samdrætti, en við teljum verulegar líkur á að sú spá sé í bjartsýnni kantinum. Komi til harðra og langvarandi verkfalla, samhliða fækkun ferðamanna, má reikna með að það taki stuttan tíma að klípa verulega af væntum hagvexti ársins, sem ekki er mikill fyrir. Þannig gerir Seðlabankinn ráð fyrir 1,8% hagvexti í ár, á meðan okkar spá er nokkuð dekkri og hljóðar upp á 1,3% vöxt. Hver svo sem raunin verður er ljóst að hagvaxtarhorfur fyrir árið hafa farið versnandi og áhættan er nær öll niður á við.

 Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka