Óvæntur viðskiptaafgangur á 4F

Óvæntur viðskiptaafgangur á 4F

Seðlabanki Íslands birti greiðslujafnaðartölur fyrir fjórða ársfjórðung í morgun. Við fyrstu sýn eru tölurnar mun sterkari en á horfðist þar sem viðskiptaafgangur nam 300 m.kr. á 4F. Fyrirfram bjuggumst við við viðskiptahalla, bæði vegna þess að vöru- og þjónustujöfnuður var neikvæður um 3,5 ma.kr. á fjórðungnum og það lá nokkurn veginn fyrir að rekstrarframlög yrðu neikvæð. Frumþáttatekjurnar reyndust hinsvegar björgunarvesti viðskiptaafgangsins og héldu honum á floti. Þær gefa aftur á móti skakka mynd af stöðunni, þar sem afgangur af þeim virðist tilkominn vegna tapreksturs innlendra félaga, ekki vegna aukins þróttar í utanríkisverslun eða aukinnar tekjusköpunar erlendra eigna í eigu Íslendinga.

Líkt og áður sagði nam viðskiptaafgangur 300 m.kr. á 4F. Þetta er mun minni afgangur en á sama tíma árið 2017, sem þá var 7,5 ma.kr. á föstu gengi, og jafnframt slakasti fjórði ársfjórðungur frá árinu 2012. Þrátt fyrir það er niðurstaðan mun betri en við þorðum að vona, en spá okkar frá því í október hljóðaði upp á 4,6 ma.kr. viðskiptahalla. Frávikið frá spánni má fyrst og fremst rekja til frumþáttatekna, sem voru jákvæðar um hvorki meira né minna en 10,1 ma.kr. Séu frumþáttatekjur teknar út fyrir sviga mælist 9,8 ma.kr. viðskiptahalli, samanborið við 9,3 ma.kr. afgang á sama tíma árið 2017.

 Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Frumþáttatekjur: Björgunarvesti viðskiptajafnaðar

Eins og áður kom fram var viðskiptaafgangurinn á 4F mun minni en á sama tíma árið áður. Hér að neðan má sjá í hverju munurinn felst. Að þessu sinni eru tvær neikvæðar breytingar á milli ára og tvær jákvæðar. Ef við byrjum á neikvæðu hliðinni þá voru rekstrarframlög neikvæðari en þau voru fyrir ári síðan. Það sem skýrir þessa breytingu eru auknar peningasendingar á milli landa, en alls námu peningasendingar til erlendra einstaklinga 7,4 ma.kr. á fjórðungnum, og hafa aldrei mælst meiri. Peningasendingar til einstaklinga hafa aukist jafnt og þétt að undanförnu eftir því sem erlendu vinnuafli fjölgar. Það sem vegur hinsvegar þyngst er minni þjónustuafgangur en fyrir ári síðan. Líkt og við höfum áður fjallað um má rekja þennan mun fyrst og fremst til útflutnings á hugverkum fyrirtækja í lyfjaiðnaði.

Af jákvæðu breytingunum er athyglisverðast að sjá hversu mikið frumþáttatekjur eru að aukast á milli ára, en til þeirra teljast aðallega laun og fjárfestingatekjur. Ástæðan fyrir auknum afgangi af frumþáttatekjum er hinsvegar ekki sú að erlendar eignir Íslendinga hafi orðið arðbærari, eða að Íslendingar eru að fá hærri launagreiðslur frá erlendum aðilum, heldur virðist sem innlend fyrirtæki séu að skila erlendum eigendum sínum tapi. Fyrir ári síðan var það sama upp á teningnum, það er að segja innlend fyrirtæki í eigu erlendra aðila voru rekin með tapi. Þá hinsvegar greiddu innlend fyrirtæki erlendum eigendum sínum arð, svo jöfnuður frumþáttatekna var neikvæður (innlendir aðilar greiddu erlendum aðilum meira en þeir fengu greitt frá erlendum aðilum). Á 4F 2018 var hinsvegar enginn arður greiddur, og fyrirtækin rekin með tapi, svo gjaldahliðin, þ.e.a.s. það sem innlendir aðilar greiða erlendum var mun lægri en fyrir ári síðan, á meðan tekjuhliðin var nánast óbreytt. Þetta útskýrir viðskiptaafganginn á 4F að mestu leyti.

 Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Verðbréfakaupin halda áfram

Í hinum fullkomna heimi hagfræðinnar gengur yfirleitt allt upp, viðskiptakostnaður er enginn, allir einstaklingar taka skynsamlegar ákvarðanir og viðskiptajöfnuður og fjármagnsjöfnuður núlla hvort annan út. Heimurinn er hinsvegar langt því frá að vera fullkominn, eins og liðurinn skekkjur og vantalið ber með sér. Að því sögðu, þá var fjármagnsjöfnuðurinn jákvæður um 41 ma.kr. á fjórðungnum. Erlend eign Íslendinga jókst um 12,5 ma.kr. á meðan innlend eign erlendra aðila (einnig hægt að túlka sem skuld innlendra aðila) dróst saman um 28 ma.kr. Á eignahlið Íslendinga munar mestu um aukna verðbréfafjárfestingu, þar sem verðbréfafjárfesting í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum jókst um tæpa 48 ma.kr. Það sem skýrir fyrst og fremst minni „aðra fjárfestingu“ er samdráttur í seðlum og innistæðum. Hvað varðar skuldahliðina, eða eignir erlendra aðila hér á landi, þá vegur þyngst samdráttur í verðbréfafjárfestingu, fyrst og fremst vegna samdráttar í skuldaskjölum.

Þó fjármagnsjöfnuðurinn sé langt því frá að vera fullkominn getur hann gefið ákveðna vísbendingu um hvað lá að baki gengisþróun krónunnar á 4F, þ.e.a.s. útflæði á vegum innlendra aðila í verðbréf, niðurgreiðslur skulda og lítill áhugi erlendra aðila á innlendum eignum. 

 Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Erlendir verðbréfamarkaðir draga niður erlendu stöðuna

Jákvæður fjármagnsjöfnuður bætti erlenda stöðu þjóðarbúsins um tæplega 40 ma.kr. á fjórðungnum. Á móti kemur að gengis- og verðbreytingar höfðu neikvæð áhrif á erlendu stöðuna. Í tilkynningu Seðlabankans kemur fram að það skýrist „…aðallega af tæplega 13% verðlækkunum á erlendum verðbréfamörkuðum á ársfjórðungnum. Aftur á móti var rúmlega 3% lækkun á gengi krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum miðað við gengisskráningarvog.“ Hrein staða þjóðarbúsins við útlönd var jákvæð um 276 ma.kr., eða 9,9% af VLF, og versnaði því nokkuð á milli fjórðunga. Engu að síður er hrein erlend staða þjóðarbúsins ævintýraleg í íslensku sögulegu samhengi.

 Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Þungbúið í kortunum

Viðskiptaafgangur á árinu 2018 nam 89 ma.kr. á föstu gengi. Þetta er talsvert minni afgangur en árin á undan, og minnsti viðskiptaafgangur á einu ári frá 2014. Engu að síður er niðurstaðan betri en bæði við og Seðlabankinn spáðum. Sem dæmi gerðum við ráð fyrir viðskiptaafgangur á árinu 2018 yrði nær 60 ma.kr., eða um 2,3% af VLF, á meðan nýjasta spá Seðlabankans hljóðaði upp á nokkuð meiri viðskiptaafgang, eða 2,7% af VLF. Raunin varð hinsvegar 3% af VLF.

Það eru mun dekkri horfur fyrir árið í ár, enda stendur stærsta útflutningsgrein þjóðarbúsins höllum fæti. Spár greiningaraðila endurspegla þetta, en við spáum að viðskiptaafgangur á þessu ári nemi 0,6% af VLF og Seðlabankinn spáir 0,5% af VLF. Verði snarpari fækkun í komum erlendra ferðamanna til landsins eða ef verkfallsaðgerðir, sem beinast fyrst og fremst gegn ferðaþjónustunni, dragast á langinn, gæti róðurinn reynst enn þyngri.

 Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka