Full vinna, hvað sem það kostar?

Full vinna, hvað sem það kostar?

Meira eða minna allar deilur á Íslandi hafa í nokkrar kynslóðir snúist um hringrás verðbólgu, gengis krónunnar, atvinnustigs og vaxta. Landsmenn vilja litla verðbólgu, sterka krónu, lága vexti og næga atvinnu. Þegar harðnar í ári þá hefur markmið um næga atvinnu yfirleitt vegið þyngst, og þá á kostnað gengis, verðbólgu og vaxta. En hvað gerist þegar sjálfstæður seðlabanki er allt í einu með tæki í höndunum sem gera honum í fyrsta sinn kleift að velja sterka krónu, litla verðbólgu og lága vexti fremur en næga atvinnu? 
Undanfarin þrjú ár hefur mikil spenna einkennt íslenskan vinnumarkað. Laun hafa hækkað hratt, atvinnuleysi verið í lágmarki og fleiri fyrirtæki en færri þurft að lifa við starfsmannaskort. Þó að vinnuaflseftirspurnin sé enn þá töluverð benda nýjustu fréttir af vinnumarkaði til þess að spennan sé tekin að slakna og að atvinnuleysið hafi náð lágmarki. Fréttir af uppsögnum verða sífellt fyrirferðameiri í fréttamiðlum og skráð atvinnuleysi Vinnumálastofnunar hefur skriðið upp á við, en það var 0,6 prósentustigum hærra í janúar á þessu ári heldur en fyrir ári síðan. Þessi þróun kemur í sjálfu sér ekki á óvart, enda útlit fyrir að hægja muni snarlega á hagkerfinu á næstu misserum. Sem dæmi gerir hagspá okkar frá því í október ráð fyrir að hagvöxtur í ár verði 1,3% og að atvinnuleysi verði að meðaltali 3,4% á árinu en stígi upp í 4% á næsta ári. 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Vinnumálastofnun, Greiningardeild Arion banka

Ísland er lítið opið hagkerfi sem byggir verðmætasköpun sína að mestu leyti á útflutningi. Mikill vöxtur útflutnings á undanförnum árum hefur drifið áfram hagkerfið og skapað grundvöll fyrir þeirri gríðarlegu kaupmáttaraukningu sem hefur átt sér stað. Eins og allir vita hefur ferðaþjónustan verið hryggjarstykkið í útflutningsvextinum. Ferðaþjónustan er í eðli sínu mannaflsfrek atvinnugrein og hefur fjölgun starfa þar verið hröð. Svo mikill vöxtur, samfara verulegum launahækkunum, hefur leitt til þess að samfellt í átta ár, eða frá 2009 – 2017, hefur  hlutfall launa í rekstrartekjum fyrirtækja hækkað, og ekki bara í ferðaþjónustunni, þó þróunin sé einna mest áberandi þar. Líklega hefur orðið framhald á þessari þróun á árinu 2018, a.m.k. var hagnaður flestra fyrirtækja í Kauphöll Íslands t.a.m. lægri á árinu 2018 heldur en árið áður. Nú er svo komið að mörg útflutningsfyrirtæki standa höllum fæti, enda hefur sterkt gengi og vaxandi launakostnaður dregið verulega úr samkeppnishæfni þjóðarbúsins. Þessar aðstæður eru Íslendingum þó ekki ókunnugar. 


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Krónunni fórnað fyrir atvinnustigið

Seinni hluta síðari aldar voru stjórnmálamenn á Alþingi, í ríkisstjórn, verkalýðshreyfingu og í Seðlabankanum einhuga um að verja stöðu útflutningsgreina. Oft á tíðum var það eftir að krónan hafði verið látin styrkjast svo mikið að engin afkoma var eftir í útflutningsgreinunum (lesist sjávarútvegi). Að minnsta kosti var sú ákvörðun tekin vitandi vits að fella gengið til þess að auka atvinnusköpun útflutningsgreina. 

Veiking krónunnar í kjölfar hrunsins 2008 jók atvinnusköpun útflutningsgreina. Ekki aðeins ferðaþjónustunnar heldur einnig sjávarútvegsins, ýmissa iðngreina og hugbúnaðar-  og tæknigeirans. Þrátt fyrir nær samfellda styrkingu krónunnar 2009 – 2017 hélt atvinnusköpunin velli og á Íslandi hefur verið nær full atvinna síðustu tvö ár. Til að mæta þörfinni og draga úr þrýstingnum á innlenda framleiðsluþætti fluttu tæplega 15 þúsund útlendingar til landsins árin 2017 og 2018.


Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Viljinn og tækin

Frá því fyrir áramót hafa dunið á þjóðinni fréttir af vinnudeilum og yfirvofandi verkföllum, loðnubresti og samdrætti í ferðaþjónustu. Alla jafna hefðu slíkar fréttir leitt af sér veikingu krónunnar og hækkun verðbólguvæntinga, enda ætti enginn sem þekkir til hagsögu Íslands að velkjast í vafa um að slíkt ástand leiðir nær undantekningalaust til verðbólgu og vaxtahækkana. Það hefur hins vegar ekki gerst og hefur krónan staðið sem nánast óhaggandi klettur í miðjum fréttastormi frá því um miðjan október – eftir reyndar veikingu sumarsins. Þetta vekur upp spurninguna, er um að ræða nýtt landslag í íslensku efnahagslífi? Ætlum við að fara í gegnum kólnun hagkerfisins með stöðuga krónu eða er þetta svikalogn á gjaldeyrismarkaði? Verði krónunni haldið stöðugri þýðir það að ekki er hægt að bæta hag útflutningsgreinanna með gengisveikingu. Aðlögunin þarf þar að leiðandi að koma í gegnum vinnumarkaðinn, eitthvað sem er nýlunda fyrir atvinnustigs-miðaða Íslendinga. En af hverju ætti Seðlabankinn að velja þá leið? 
Rifjum upp að „meginmarkmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi,“ eins og segir í lögum um bankann. Verðlag hér á landi er nátengt krónunni, enda stór hluti neyslukörfu heimilanna innfluttur og gengislekinn tiltölulega mikill. Það þarf því ekki að undra að mikil veiking krónunnar er eins og þyrnir í augum Seðlabanka á verðbólgumarkmiði.  


Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka
(*) Hér er miðað við gengisþróun það sem af er ári

Mun Seðlabankinn, og það sem meira er getur hann stutt við gengið? Svarið felst að miklu leyti í „vilja og tækjum“ peningastefnunefndar Seðlabankans Peningastefnunefnd hefur að minnsta kosti opnað á þann möguleika með eftirfarandi málsgrein, sem birst hefur í nokkurn veginn óbreyttri mynd í síðustu fimm yfirlýsingum nefndarinnar.  „Peningastefnunefnd ítrekar að hún hefur bæði vilja og þau tæki sem þarf til að halda verðbólgu og verðbólguvæntingum við markmið til lengri tíma litið. Það gæti kallað á harðara taumhald peningastefnunnar á komandi mánuðum. Aðrar ákvarðanir, einkum á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum, munu skipta miklu um hvort svo verður og hafa áhrif á hversu mikill fórnarkostnaður verður í lægra atvinnustigi.“ 

Forðabrunnur fyrir fastara gengi

Við búum við breyttan veruleika í utanríkisviðskiptum og erlendri eignastöðu þjóðarinnar. Í honum liggja ný tæki Seðlabankans. Það tæki sem er eftirtektarvert í þessu samhengi er ekki hið hefðbundna vaxtatæki heldur gjaldeyrisforðinn. Seðlabankinn býr yfir 757 ma.kr. gjaldeyrisforða og á hreinar erlendar eignir upp á 620 ma.kr. Þessi stærð samsvarar um fjórðungi af vergri landsframleiðslu og um 60% af öllum vöruinnflutningi síðasta árs. Bankinn er því vel í stakk búinn til að draga úr gengisveikingu skapist þrýstingur til veikingar, t.d. í kjölfar launahækkana. 

Forðinn er auðvitað ekki óþrjótandi brunnur gjaldeyris en hann er engu að síður eitt öflugasta tækið í sífellt stækkandi vopnabúri Seðlabankans í baráttunni gegn verðbólgunni. Seðlabankinn er því í betri stöðu en nokkru sinni fyrr til að beita gjaldeyrisinngripum ásamt vöxtum til að hindra veikingu krónunnar og þar með verðbólguskot. Ekki er óhugsandi að bankinn geri hvorutveggja, lækki vexti og kaupi krónur, ef hann telur ekki efnahagslegar forsendur fyrir veikingu krónunnar þó hagkerfið væri að kólna. Í þessu felst að Seðlabankinn þarf að hafa skoðun á styrk krónunnar. Í fundargerð peningastefnunefndar í desember kom t.d. fram að Seðlabankinn myndi horfa til þess í inngripastefnu sinni að vísbendingar væru um það að gengislækkunin hefði fært raungengið niður fyrir jafnvægisgildi sitt.


Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Verjum vinnuna eða verjum krónuna?

Staðan er sú að Seðlabankinn er nú í fyrsta sinn í þeirri stöðu að hafa burði til þess að beita öðrum tækjum en hækkun vaxta til að stemma stigu við vaxandi eftirspurn og veikari krónu, og þar með hemja verðbólguna. Í gegnum hagsögu Íslands hefur veiking krónu hins vegar gegnt lykilhlutverki í að efla útflutning og skapa atvinnu þegar kreppir að. Það hefur nánast verið grundvallarregla hagstjórnar í landinu. Nú í fyrsta sinn gæti Seðlabankinn hins vegar tekið þá afstöðu að verja verðstöðugleika með því að halda aftur af veikingu krónunnar.

Ef við gefum okkur að Seðlabankinn muni ekki leyfa genginu að veikjast mikið má teljast ljóst að óhófleg hækkun launakostnaðar myndi verðleggja landið víða út af markaði. Slíkt myndi koma verulega illa við kaunin á útflutningsfyrirtækjum, sem nú þegar glíma við rekstrarerfiðleika, og vafalaust mörg sem myndu neyðast til að leggja upp laupana. Verði samkeppnishæfnin ekki endurheimt í gegnum gengisveikingu er líklegt að atvinnuleysi myndi aukast verulega. 
Hvað þá tekur við er svo önnur spurning? Verður ráðist í stórkostlegar innviðaframkvæmdir? Hversu sveigjanlegt er vinnuaflið? Mun stór hluti þess flytja af landi brott? Hvernig tekst að byggja upp önnur atvinnutækifæri? Við svörum ekki þeim spurningum hér en þær verða líklega aðkallandi á næstu misserum.