Óbreyttir vextir – annað kemur varla til greina

Óbreyttir vextir – annað kemur varla til greina

Við spáum því að Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákveði að halda vöxtum óbreyttum á fundi sínum í næstu viku. Fundargerðir bera með sér að yfirleitt veltir nefndin fyrir sér tveimur kostum. Undanfarið hefur valið staðið á milli óbreyttra vaxta eða vaxtahækkunar. Hækkandi raunvextir, hægari vöxtur í innlendri eftirspurn á síðasta fjórðungi 2018, samdráttur í kortaveltutölum og lækkun á verðbólgu úr 3,4% í 3,0% ætti hins vegar að slá hækkun út af borðinu að okkar mati. Að sama skapi er erfitt að sjá fyrir sér vaxtalækkun í ljósi stöðunnar á vinnumarkaði og síðustu hagvaxtartalna. Það kemur því varla annað til greina en að nefndin haldi vöxtum óbreyttum.  

Lendingunni frestað – 4,6% hagvöxtur 2018

Hagvöxtur á fjórða fjórðungi 2018 var býsna kröftugur og nam 4,0%. Hagvöxtur fyrir allt árið 2018 var 4,6% samkvæmt leiðréttum tölum Hagstofunnar sem er 0,3 prósentustigum yfir spá Seðlabankans en þó í fullu samræmi við okkar spá frá október. Samsetning hagvaxtarins gefur hins vegar ekki tilefni til vaxtahækkana. Útflutningur dróst saman um 5,9% á fjórðungnum og framlag utanríkisviðskipta var einungis jákvætt því innflutningur dróst saman um 6,0%. Þessi mikli samdráttur í innflutningi bendir til að innlend eftirspurn sé að dragast hratt saman og því væri óráðlegt að hækka vexti ofan í það.


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Taylor ferillinn

Peningastefnunefnd hefur ýmis tæki og tól til halds og trausts þegar hún tekur vaxtaákvörðun. Eitt slíkt tæki er Taylor-reglan, sem leitast við að ákvarða stýrivexti með því að lágmarka frávik verðbólgu frá verðbólgumarkmiði og framleiðslu frá framleiðslugetu. Í þjóðhagslíkani Seðlabankans eru vextir ákvarðaðir út frá framsýnni Taylor-reglu, þ.e.a.s. miðað er við væntingar um verðbólgu ár fram í tímann. Ef notast er við nýjustu verðbólguspár Seðlabankans á hverjum tíma, sem og mat bankans á framleiðsluspennu, virðist sem peningastefnunefnd hafi fylgt Taylor-ferlinum vel. 


Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka
*Fram á mitt ár 2015 er miðað við 3% jafnvægisraunvexti en þeir fara lækkandi eftir það

Seðlabankinn birti ný Peningamál í byrjun febrúar með nýrri þjóðhags- og verðbólguspá. Hagvaxtarspá bankans fyrir árið var tekin niður úr 2,7% í 1,8% og á móti var verðbólguspáin aðeins hækkuð lítillega. Minni hagvöxtur vegur því þyngra inn í Taylor ferilinn og að öðru óbreyttu ættu stýrivextir Seðlabankans að lækka um u.þ.b. 75 punkta fram til ársloka 2019 m.v. þessi nýju spágildi. Að þessu sögðu er mikilvægt að átta sig á því að ýmislegt annað en Taylor ferillinn hefur áhrif á ákvörðun nefndarinnar og því er alls ekki um vaxtaspá að ræða heldur einungis reikniæfingu. Hvað sem Taylor ferlinum líður teljum við að óvissuástand á vinnumarkaði slái vaxtalækkun út af borðinu. Ferillinn sýnir hins vegar að  færa má góð rök fyrir vaxtalækkun í ljós hagvaxtarhorfa ef vinnumarkaðsdeilan leysist skynsamlega. 

Kortaveltan - lítil velta í kortunum

Kortaveltan í janúar dróst saman um 3,3% á föstu gengi og verðlagi. Þetta var þriðji mánuðurinn í röð sem kortaveltan dregst saman. Í ljósi þróunarinnar síðastliðna mánuði, aukinnar svartsýni heimilanna og óvissu í hagkerfinu, bæði vegna ferðaþjónustunnar og kjarasamninga, áttum við ekki von á að kortaveltan myndi byrja árið með krafti. Engu að síður kom okkur á óvart hversu lágar veltutölurnar reyndust vera, að því leyti að þær virðast endurspegla enn meira aðhald í einkaneyslu en við reiknuðum með. 
Sem fyrr má fyrst og fremst rekja samdráttinn til innlendrar kortaveltu, sem dróst saman um 5,2%. Líkt og við höfum áður fjallað um hefur kortaveltan alla jafna gott forspárgildi fyrir þróun einkaneyslunnar. Það verður að segjast að byrjunin á árinu, og þróunin síðustu þrjá mánuði, bendir ekki til kröftugrar einkaneyslu á árinu. 


Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Verðbólguvæntingar til lengri tíma

Kjölfesta verðbólguvæntinga er nefndinni afar hugleikinn og má ætla að nefndin sé reiðubúin að hleypa verðbólguskoti í gegn ef verðbólguvæntingar til lengri tíma haldast í námunda við verðbólgumarkmiðið. Í kjölfar síðustu vaxtaákvörðunar tók verðbólguálagið til þriggja, fimm og átta ára að þokast upp á við. Meðalálagið stóð í 3,74% við síðustu vaxtaákvörðun en fór hæst í 4,13% þann 26. febrúar. Þetta skýrist m.a. af horfum á vinnumarkaði og viðræðuslitum. Í kjölfarið kom hins vegar aflandskrónu- og bindiskyldufrumvarpið til bjargar. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi og í kjölfarið tók álagið að lækka og er nú á mjög svipuðum slóðum og við síðustu ákvörðun. 


Heimildir: Kodiak Excel, OMXI Nasdaq Ísland, Seðlabankinn, Greiningardeild Arion banka

Í þessu samhengi má nefna að taumhald peningastefnunnar er mælt í raunvöxtum. Ef litið er á raunvexti á nokkra mælikvarða má sjá að frá síðustu ákvörðun hafa meðalraunvextir hækkað lítillega og taumhaldið þ.a.l. harðara. Þessir mælikvarðar benda því sterklega til óbreyttra vaxta.   


Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Kodiak Excel, Greiningardeild Arion banka

Horft fram á veginn

Í síðustu fundargerð nefndarinnar kemur fram að helstu rökin fyrir óbreyttum vöxtum voru þau að framleiðsluspennan er að minnka hraðar en áður er talið. Jafnframt var bent á að verkföll gætu leitt til hraðrar kólnunar í þjóðarbúskapnum en á móti var talin hætta á niðurstöður kjarasamninga yrðu ekki í samræmi við verðbólgumarkmiðið.
Nefndin ræddi einnig stöðu frumvarps um losun aflandskróna, inngripastefnuna og bindiskylduna. Í síðustu viku varð frumvarpið svo að lögum og bindiskyldan var í kjölfarið færð niður í 0%. Það er því líklegt að sömu hlutir muni leita á huga nefndarmanna í næstu viku. 
Síðan bindiskyldan var færð niður í 0% hefur ásókn í óverðtryggð ríkisskuldabréf aukist. Þetta getur bæði stafað af innflæði frá erlendum fjárfestum og væntingum innlendra aðila um innflæði frá erlendum aðilum. Þetta hefur endurspeglast í dugmikilli krónu og lækkandi kröfu. Fyrir utan 2,5 ma.kr. inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði í 5 ma.kr. veltu á þriðjudaginn í síðustu viku hefur farið lítið fyrir útflæði aflandskróna. Hingað til virðast viðbrögð aflandskrónueigenda því hafa verið í takt við væntingar Seðlabankastjóra en áhugavert verður að heyra hvernig nefndarmönnum þykir hafa tiltekist við losun hafta. 
Nefndin hefur talað um að krónan sé líklega of veik m.v. jafnvægisraungengi og til stendur að skipa vinnuhóp sem mun skila peningastefnunefnd tillögum um inngripastefnuna. Nefndinni hefur verið tíðrætt um viljann og tækin og við veltum því nýlega fyrir okkur að hve miklu leyti Seðlabankinn er tilbúinn til að beita forðanum til að beina launahækkunum út í atvinnustigið í stað verðbólgu. Inngripastefna Seðlabankans mun að öllum líkindum hafa mikil áhrif á vaxtaákvarðanir á næstunni og því verður fróðlegt að sjá hvaða tækjum verði beitt á næstunni til að halda verðbólgu við markmið.