Allir liðir saman nú - Spáum 3,1% verðbólgu í mars

Allir liðir saman nú - Spáum 3,1% verðbólgu í mars

Við spáum 0,7% hækkun á vísitölu neysluverðs í mars sem er 0,2 prósentustigum hærra en síðasta bráðabirgðaspá okkar. Samkvæmt spánni hækkar 12 mánaða taktur verðbólgunnar í 3,1% úr 3,0% frá því í síðasta mánuði. Hagstofan mælir vísitöluna um þessar mundir eða nánar tiltekið 11. til 15. mars og mælingin verður birt þriðjudaginn 27. mars.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Spáin fyrir mars gerir ráð fyrir að allir undirliðir vísitölu neysluverðs hafi hækkað s.l. mánuð. Í febrúarmælingu Hagstofunnar kom fram að verð á fatnaði og skóm hafi nánast staðið í stað sem er óvenjulegt þar sem útsöluáhrif janúar ganga venjulega að mestu til baka strax í febrúar. Slíkt hefur hent áður og þegar það hefur gerst þá voru áhrifin einfaldlega meiri í næsta mánuði, þ.e. mars. Við erum því að gera ráð fyrir að verð á fatnaði og skóm hækki meira í mars en í venjulegu ári eða um 7,2% (0,2% áhrif á VNV) en undanfarin sex ár hefur verð á fatnaði hækkað um 4,7% í mars.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Verð á bensínlítra hefur hækkað um 2,3% milli mánaða eða í 225,6 kr.. Dísillítrinn hefur á sama tíma hækkað um 2,0% í 224,2 kr. Því er gert ráð fyrir að eldsneytisverð hafi hækkað um 2,2% (0,12% áhrif á VNV).

Heimildir: bensinverd.is, Greiningardeild Arion banka

Í spánni er gert ráð fyrir að verð á flugfargjöldum hafi hækkað um 6,2% (tæplega 0,1% áhrif á VNV). Í þetta skiptið eru verðmæling okkar á netinu og tölfræðilíkanið nokkurn veginn samhljóða hvað varðar hækkun flugfargjalda í mars. Hafa skal í huga að Hagstofan mælir ekki flugfargjöldin í mælingarvikunni, heldur áður en miðað er við að farið sé í flug í mælingarvikunni. Við framkvæmum því okkar mælingar á netinu með hálfs, eins og tveggja mánaða fyrirvara með því markmiði að átta okkur á verðþróuninni. Þess vegna búum við yfir tveimur mælingum m.v. mælingarvikuna í apríl sem gefur okkur ákveðna vísbendingu um þróunina í næsta mánuði. Mæling okkar bendir til um 15% hækkunar á flugfargjöldum m.v. mælingarvikuna í mars en tölfræðilíkanið sem notar söguleg gögn bendir til 3% hækkunar. Páskarnir í ár eru 21. apríl en voru 1. apríl fyrir ári sem gæti skýrt þessa miklu væntu hækkun í apríl.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Mælingar okkar á þróun ásetts fermetraverðs í fasteignaauglýsingum bendir til þess að árshækkunin haldist nokkurn veginn óbreytt á verði fjölbýlis og sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu en að árstaktur fermetraverðs á landsbyggðinni fari áfram lækkandi. Mæling okkar á ásettu verði fjölbýlis bendir til þess að árstakturinn sé á bilinu 4-5% sem er í takt við mælingu Hagstofunnar. Mæling á ásettu verði sérbýlis bendir til að árstakturinn hafi verið á bilinu 1-4% undanfarna mánuði sem er lægra en sem nemur mælingu Hagstofunnar sem telur árstaktinn hafa verið á bilinu 5-7%. Árstaktur ásetts verðs á landsbyggðinni hefur farið lækkandi og nemur um 7% sem er í takt við mælingu Hagstofunnar. Við þetta má bæta að nýjustu gögn Íbúðalánasjóðs benda til að hlutfall fasteigna til sölu sem fer á ásettu verði eða yfir ásettu verði, hefur farið lækkandi undanfarna mánuði, sem bendir til að mæling okkar á ásettu verði á netinu sé líklega ofspá og að árstakturinn sé eilítið lægri. Í spánni er gert ráð fyrir að fasteignverð sé að hækka um 4% á ársgrundvelli.

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá – 4%-vígið ekki líklegt til að falla að sinni:

Gangi spáin fyrir mars eftir fer árstakturinn í 3,1% og fer síðan hækkandi fram í maí en miðað við það sem við sjáum núna þá ætti árstakturinn að fara lækkandi frá og með maímánuði. Þrátt fyrir óvissu um kjarasamninga og hver áhrif þeirra verður á verðlag, þá er margt sem gæti haft jákvæð áhrif á verðlag næstu misserin:

  • minni hækkanir fasteignaverðs, aukið framboð eigna á söluskrá og kaupsamningar eru frekar að falla undir ásettu verði
  • lækkun bindiskyldu í 0% gæti haft áhrif á krónuna til styrkingar
  • matarkarfan hefur hækkað minna en við töldum líklegt miðað við þróun krónunnar á síðari hluta síðasta árs. Í uppgjörum Haga og Festi kemur fram að félögin hafi ekki náð að ýta kostnaðarhækkunum út í verðlag, en spurningin er hvort að þetta sé tímabundið og að áhrifanna gæti einfaldlega síðar eða að þetta sé vegna aukinnar samkeppni og lækkandi álagningar

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Apríl 0,3%: Flestar undirvísitölur hækka smávegis, flugliðurinn hækkar meira en venjulega vegna þess að páskar falla rétt á eftir mælingarviku
  • Maí 0,2%: Verð á hótelgistingu og veitingastöðum hækkar, verð tómstunda hækkar
  • Júní 0,3%: Flugfargjöld, tómstundir og hótelgisting hækka í verði

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka