Vaxtastigið veltur á vinnumarkaðnum

Vaxtastigið veltur á vinnumarkaðnum

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að halda meginvöxtum óbreyttum í 4,5%, ákvörðun sem er í fullu samræmi við okkar spá og annarra sem birtu opinberar spár. Að okkar mati kom varla annað til greina að þessu sinni en að halda vöxtum óbreyttum. Hingað til hefur val nefndarinnar staðið á milli óbreyttra vaxta og vaxtahækkana. Í ljósi þess að ferðaþjónustan stendur höllum fæti, loðnubrestur þjakar sjávarútveginn, allt er í járnum á vinnumarkaði og verkföll yfirvofandi, finnst okkur allt eins líklegt að vaxtalækkun fari að fikra sig inn á matseðil nefndarmanna. Við reiknum þó með að Seðlabankinn vilji sjá til lands á vinnumarkaði áður en til vaxtabreytinga kemur.  
Næsta vaxtaákvörðun verður tekin 22. maí en þá verða nefndarmenn vopnaðir nýjum Peningamálum og vonandi verða línur á vinnumarkaði farnar að skýrast. 

Krónan – kraftar í kögglum

Krónan hefur styrkst um tæp 3% frá síðustu vaxtaákvörðun en styrkingin kom öll í kjölfarið á því að bindiskyldan var færð niður í 0%. Aðspurður sagðist seðlabankastjóri síður hafa búist við því að krónan myndi styrkjast jafn mikið og raun ber vitni í kjölfar gildistöku aflandskrónufrumvarpsins og lækkunar á bindiskyldunni. Hann bjóst við því að lausar aflandskrónur myndu fara hraðar út, en á kynningarfundinum í morgun kom fram að staða á aflandskrónureikningum hefur aðeins lækkað 10 ma.kr hingað til. Ekki er víst að öll sú upphæð hafi farið út í gegnum gjaldeyrismarkaðinn þar sem þær aflandskrónur sem höfðu verið í samfelldu eignarhaldi frá hruni höfðu heimild til að fjárfesta hér áfram, án þess að fara í gegnum gjaldeyrismarkaðinn. Þann 5. mars, þegar að aflandskrónufrumvarpið tók gildi, seldi Seðlabankinn gjaldeyri fyrir 2,5 ma.kr., í 5 ma.kr. veltu á gjaldeyrismarkaði, og spornaði þannig gegn veikingu krónunnar. 


Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Frá inngripinu hefur krónan styrkst, seðlabankastjóri telur það skýrist af því að nýfjárfesting á skuldabréfamarkaði og útflæði aflandskróna hafa jafnað hvort annað út undanfarið. Við þetta má bæta að umtalsvert innflæði virðist hafa verið inn í Marel sem hefur ýtt undir styrkingu krónunnar. 

Hvar er verðbólgan?

Verðbólga í febrúar mældist 3% og lækkaði þar með um 0,4 prósentustig milli mánaða. Þetta gæti m.a. skýrst af því að útsölur virðast hafa dregist á langinn en mælingin kom greinendum töluvert á óvart. Einnig má nefna að e.t.v. hefur dregið úr áhrifum hækkunar innflutningsverðs vegna gengisveikingar krónunnar í haust. Seðlabankinn telur líklegt að verðbólga muni aukast eitthvað fram eftir ári en hversu mikil hækkunin verður sé þó háð niðurstöðu kjarasamninga meðal annarra þátta. Í þessu samhengi má nefna að á kynningu síðustu Peningamála sagði aðalhagfræðingur Seðlabankans að áhættan varðandi verðbólguhorfur væri fyrst og fremst upp á við. 
Samkvæmt bráðabirgðaspá okkar fer verðbólgan í 3,8% í maí og við teljum að hún haldi áfram að stíga út árið og verði í kringum 4% undir lok árs. Ef það gengur eftir mun verðbólgan haldast innan eða við vikmörk verðbólgumarkmiðsins í ár. 


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Síðan að bráðabirgðaspáin var birt hefur hins vegar komið fram að fasteignaverð lækkaði um 1% í  febrúar. Fasteignaverð hefur ekki lækkað svona mikið milli mánaða síðan í desember 2010 og því ljóst að þetta mun hafa tilfinnanleg áhrif á verðbólguna til skamms tíma að öðru óbreyttu. Í því samhengi má nefna að óverðtryggð ríkisbréf voru keypt strax í kjölfar birtingar vísitölu íbúðaverðs í gær sem bendir til að verðbólguvæntingar á markaði hafi lækkað við upplýsingarnar.


Heimildir: Þjóðskrá Íslands, Greiningardeild Arion banka

Við teljum að það séu litlar hækkanir í kortunum á húsnæðismarkaði í ár. Samkvæmt húsnæðisverðsspá okkar sem birt var í janúar mun árstakturinn halda áfram að lækka og verður kominn undir 3% undir lok árs. Þessi spá byggir á væntingum okkar um að íbúum á hverja íbúð muni fækka í ár og á næstu árum, þ.e.a.s. að unnið verði á framboðsskortinum á húsnæðismarkaði. Þetta stafar af stígandi atvinnuleysi, ekki síst meðal erlendra ríkisborgara, og versnandi hagvaxtarhorfum en hvort tveggja bendir til að ekki megi búast við jafn kröftugum fólksflutningum til landsins í ár og undanfarið. Auk þess bendir talning Samtaka iðnaðarins til að tæplega 5.000 íbúðir séu í byggingu en samhliða því má vænta að Heimavellir haldi áfram að minnka eignasafn sitt. Minni fólksfjölgun og aukið framboð ásamt hertara aðgengi að lánsfé til fasteignakaupa bendir til lítilla verðhækkana á fasteignamarkaði í ár. Það verður því að teljast ólíklegt að húsnæðisliðurinn drífi verðbólguna áfram á næstunni.  

Verðbólguálag á markaði

Peningastefnunefnd til mikillar mæðu hafa verðbólguvæntingar heimila og fyrirtækja hækkað og langtímaverðbólguvæntingar eru enn yfir verðbólgumarkmiðinu á alla mælikvarða. 
Þrátt fyrir þetta hefur verðbólguálag á skuldabréfamarkaði lækkað býsna hratt undanfarið. Þegar betur er að gáð má sjá að álagið tók að lækka í kjölfarið á því að aflandskrónufrumvarpið var samþykkt og væntingar um að bindiskyldan yrði færð niður í 0% jukust. Innflæði  í óverðtryggð ríkisskuldabréf er til þess fallið að draga úr verðbólguálagi á markaði. Tilhneiging erlendra aðila til að stunda frekar viðskipti með óverðtryggð bréf en verðtryggð gæti orðið til þess að verðbóluálagið á markaði hætti að endurspegla verðbólguvæntingar markaðsaðila og því má velta fyrir sér hve mikið vægi nefndin mun gefa þessum mælikvarða á næstunni.  


Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Horft fram á veginn má búast við því að peningastefnan muni ráðast af versnandi hagvaxtarhorfum og þróun langtímaverðbólguvæntinga. Útflutningsgreinarnar, með ferðaþjónustuna í broddi fylkingar, munu gegna lykilhlutverki í efnahagsþróun ársins. Hversu mikil áhrif átök á vinnumarkaði og ástand raunhagkerfisins munu hafa á gengi krónunnar mun síðan vega þungt í mótun verðbólguvæntinga. Samanlagður fjöldi ferðamanna í janúar og febrúar í ár var 6,4% minni en á sama tímabili í fyrra. Ofan á það hefur kortavelta á hvern ferðmann á föstu gengi dregist saman undanfarna mánuði og þó nokkur óvissa ríkir um flugframboð til landsins. Á móti vegur að ekki sér fyrir endann á vinnumarkaðsdeilunni en boðað er til allsherjarverkfalls þann 1. maí. Hljóðið í samningsaðilum hefur verið þungt, þó inn á milli hafi kveðið við bjartsýnistón. 

Það eru því býsna sterkir kraftar sem munu togast á við mótun peningastefnunnar á næstunni en eins og áður kom fram teljum við ólíklegt að vöxtum verði breytt á meðan að vinnumarkaðurinn liggur líkt og mara yfir peningastefnunefnd.