Verðbólgan lækkar - hún þarf ekki að fara úr böndunum

Verðbólgan lækkar - hún þarf ekki að fara úr böndunum

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,52% á milli mánaða í mars skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan lækkaði þar með í 2,9%, úr 3,0% í febrúar. Verðbólguspár greiningaraðila voru á bilinu 0,5 til 0,7% og er niðurstaðan því eilítið fyrir neðan meðalspá greiningaraðila þ.e. þeirra sem birta spár opinberlega. Við spáðum 0,7% hækkun.

 Af þeim liðum sem ýttu undir hækkun verðlags má helst nefna; verð á fatnaði og skóm hækkaði um 9,5% (0,31% áhrif á VNV), eldsneyti hækkaði um 1,8% (0,06% áhrif á VNV), verð flugfargjalda hækkaði um 5,4% (0,06% áhrif á VNV) og reiknuð húsaleiga (fasteignaverð) hækkaði um 0,21% (0,05% áhrif á VNV).

Matarkarfan lækkaði annan mánuðinn í röð eða um 0,1% (-0,01% áhrif á VNV) sem gæti verið enn ein vísbendingin um harða samkeppni á matarmarkaði. Verð á húsgögnum lækkaði um -0,4% (-0,02% áhrif á VNV) og verð á raftækjum lækkaði um -0,3% (-0,03% áhrif á VNV).

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá samantekt á mismun á mælingu Hagstofunnar og spá Greiningardeildar Arion banka.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Landsbyggðin heldur uppi taktinum

Fasteignaverð á landinu í heild hækkaði um 0,32% í mars samkvæmt mælingu Hagstofunnar. Fasteignamarkaður á landsbyggðinni ýtti verðinu upp á við og en vísitala íbúðaverðs utan höfuðborgarsvæðisins hækkaði um hvorki meira né minna en 3,7% milli mánaða!!  Fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu lækkaði hins vegar um 0,8% og sérbýli lækkaði um 0,2%. Án húsnæðis hækkaði vísitala neysluverðs um 0,66% eða minna en vísitala neysluverðs sem skýrist að hækkun húsnæðisverðs nær ekki að halda í við aðrar hækkanir verðlags þó það sé enn að hækka.

Árstaktur húsnæðisverðs lækkaði á milli mánaða og stendur í 4,4% á landinu þar sem húsnæðisverð á landsbyggðinni stendur 8,9% en árstaktur fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu stendur í 2,6% en sérbýlis í 5%. Að raunvirði hefur því verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu lækkað um 0,3% þar sem það hefur ekki náð að hækka í takt við hækkun verðlags (með húsnæði).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hvað er að drífa verðbólguna?

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvernig árstaktur verðbólgunnar upp á 2,9% er settur saman. Húsnæði ber ábyrgð á 1,1 prósentustigi og innfluttar vörur bera ábyrgð á 0,8 prósentustigi. Við gerum ráð fyrir að áhrif húsnæðisverðs á verðbólguna eigi eftir að minnka og væntanlega hefði markaðsverð húsnæðis lækkað í mælingu Hagstofunnar ef ekki hefði komið til hækkun á landsbyggðinni. Hagstofan reiknar fasteignaverð úr þinglýstum kaupsamningum en Þjóðskrá reiknar vísitölu markaðsverðs húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu úr sömu gögnum og útreikningar þeirra síðarnefndu staðfestir útreikninga Hagstofunnar. Því gerum við ráð fyrir að það dragi enn frekar úr verðhækkunum á næstunni. Hvort að verð lækkar eða helst nokkurn veginn óbreytt ætti að fara eftir því hvernig ferðamannasumarið þróast, hver hagvöxtur verður og hversu hratt nýtt framboð húsnæðis kemur fram.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá

Í verðbólguspá okkar fyrir mars tókum við fram að nokkrir þættir væru að vinna með því að halda verðbólgu lágri; minni hækkanir fasteignaverðs, lækkun bindiskyldu sem gæti styrkt krónuna og vísbending um aukna samkeppni á matarmarkaði. Mæling Hagstofunnar (og Þjóðskrár) í mars styrkir þá skoðun okkar að a.m.k. tvennt af þessu þrennu sé að koma fram: fasteignaverð lækkar á milli mánaða sem og smávægileg lækkun matarverðs. Þó er of snemmt að lesa of mikið í eina til tvær mælingar.

Ef hóflegir kjarasamningar nást og WOW air heldur flugi, er ekkert því til fyrirstöðu að verðbólga haldist innan vikmarka verðbólgumarkmiðs Seðlabankans.

Bráðabirgðaspár fyrir næstu mánuði:

  • Apríl 0,3%: Flestar undirvísitölur hækka smávegis, flugliðurinn hækkar meira en venjulega vegna þess að páskar falla rétt á eftir mælingarviku.
  • Maí 0,2%: Verð á hótelgistingu og veitingastöðum hækkar, verð tómstunda hækkar.
  • Júní 0,3%: Flugfargjöld, tómstundir, hótelgisting hækka í verði, undirvísitölur sem verða fyrir útsöluáhrifum í júli gætu hækkað eilítið í júní.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka