Hagspá 2019-2021: Hagkerfið kyrrsett

Hagspá 2019-2021: Hagkerfið kyrrsett

Greiningardeild Arion banka kynnti í síðustu viku tvær hagspár, aðra sem innihélt flugfélagið WOW air, hina án þess. Í kjölfar gjaldþrots flugfélagsins er orðið ljóst hvor sviðsmyndin á við. Eftir sterkan vöxt árið 2018 er útlit fyrir að eitt lengsta hagvaxtartímabil Íslandssögunnar líði undir lok á þessu ári. Við reiknum með að landsframleiðslan dragist saman um 1,9% í ár, fyrst og fremst vegna útflutningssamdráttar. Samdrátturinn stendur stutt yfir og spáum við að hagkerfið taki að vaxa á nýjan leik á næsta ári, þó ekki af sama krafti og við höfðum áður reiknað með.

Heimilin eru nú þegar farin að stíga varlega til jarðar líkt og endurspeglast í kortaveltutölum og aukinni svartsýni. Við spáum að einkaneyslan, sem að undanförnu hefur verið dráttarklár hagvaxtar, dragist lítillega saman á þessu ári, þrátt fyrir spá um launahækkanir umfram það sem samræmist verðstöðugleika. Við teljum að stígandi atvinnuleysi samhliða fækkun ferðamanna, og veikari króna vegi þyngra í neyslu heimilanna en kaupmáttaraukningin. Þrátt fyrir fækkun ferðamanna, loðnubrest og launahækkanir reiknum við með að krónan haldist tiltölulega stöðug og að aðlögun hagkerfisins fari í meira mæli en áður í gegnum vinnumarkaðinn. Verðbólgan stígur þar af leiðandi ekki jafn mikið og ella, sem getur veitt Seðlabankanum tækifæri til að lækka vexti.

Efnahagshorfur 2019-2021 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka