Spáum að verðbólgan fljúgi í 3,3% í apríl

Spáum að verðbólgan fljúgi í 3,3% í apríl

Við spáum 0,4% hækkun á vísitölu neysluverðs í apríl, sem er eilítið meiri hækkun en bráðabirgðaspá okkar frá því í síðasta mánuði gerði ráð fyrir en hún hljóðaði upp á 0,3% hækkun. Samkvæmt spánni eykst verðbólgan í 3,3% úr 2,9% frá því í síðasta mánuði. Hagstofan mælir vísitöluna um þessar mundir eða nánar tiltekið 8. til 12. apríl og mælingin verður birt þriðjudaginn 29. apríl.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hækkun á verði flugfargjalda hefur mest áhrif á vísitölu neysluverðs í apríl, en gert er ráð fyrir 12% hækkun (0,17% áhrif á VNV). Hækkunina má fyrst og fremst rekja til yfirvofandi páskafrís, ekki gjaldþrots WOW air, en við teljum að áhrifin af minni samkeppni á flugmarkaði séu ekki komin fram. Af öðrum undirliðum sem hækka má nefna að eldsneyti hækkar um 2% (0,07% áhrif á VNV), reiknuð húsaleiga hækkar um 0,25% (0,06% áhrif á VNV), húsnæði án reiknaðrar húsaleigu 0,4% (0,05% áhrif á VNV) og tómstundir 0,3% (0,02% áhrif á VNV).

Útsöluáhrifin virðast öll vera gengin til baka eftir óvenju lífseigar útsölur fram í mars. Okkur sýnist að eftir töf í febrúar hafi áhrifin gengið að fullu til baka í mars. Það vekur athygli að undirvísitalan tómstundir hefur látið lítið fyrir sér fara að undanförnu þrátt fyrir að vera að miklu leyti háð gengi krónunnar. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá breytingu á undirvísitölum fatnaðar og tómstunda. Þar sést að breytingin fyrstu þrjá mánuði ársins er oftast mjög nálægt breytingunni á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Áhugavert er að sjá hvað verð tómstunda (sjónvörp, DVD diskar og spilarar og annað slíkt) hefur breyst lítið á fyrstu mánuðum ársins, sérstaklega í ljósi þess að  fyrir nokkrum árum hækkuðu verð á þessum lið nokkuð reglulega á fyrsta fjórðungi.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Akandi eða fljúgandi, páskaferðalagið hækkar í verði

Bensínverð hefur hækkað um 2% borið saman við síðustu mælingarviku. Þar af hefur bensínlítrinn hækkað í 230,8 kr. úr 225,6 kr., eða hækkun um 2,33%, á meðan dísillítrinn hefur hækkað í 225,6 kr. úr 224,2 kr. sem samsvarar 0,6% hækkun. Heildaráhrifin er 0,07% til hækkunar á vísitölunni.

Heimildir: bensinverd.is, Greiningardeild Arion banka

Í spánni er gert ráð fyrir að verð á flugfargjöldum hækki um 12,0% (tæplega 0,17% áhrif á VNV) milli mánaða. Óvissubilið í spánni er að þessu sinni töluvert þar sem nokkrir hlutir koma saman og erfitt er að meta hvernig samspili þeirra er háttað. Mæling okkar á flugfargjöldum bendir til um 15% hækkunar á flugfargjöldum. Tímasetning páskanna skýrir væntanlega þessa miklu hækkun, en páskadagur er þann 21. apríl nk. samanborið við 1. apríl í fyrra. 
Hagstofan mælir flugfargjöldin tveimur vikum, einum mánuði og tveimur mánuðum fyrir mælingarviku. Flugfargjöldin sem eru mæld þessa vikuna koma því ekki inn í útreikninga fyrr en eftir einn til tvo mánuði. Mögulega litar gjaldþrot WOW air mælinguna að einhverju leiti þar  sem mælingin fyrir tveimur vikum var framkvæmd í vikunni sem félagið fór í þrot. Stóra spurningin er því, hvernig ætlar Hagstofan að meðhöndla verðmælingar þar sem WOW air var með lægsta verð flugfargjalda? Nú þegar félagið er gjaldþrota getur neytandinn ekki lengur neytt vörunnar (flugsins) í mælingarvikunni, sem þýðir að  tæknilega eru þau verð ónothæf. Ef WOW air verðin eru tekin út úr mælingunni eykur það hættuna á meiri hækkun á verði flugfargjalda en ella. Myndin hér fyrir neðan sýnir spá samkvæmt tölfræðilíkaninu en líkanið leiðréttir ekki fyrir tímasetningu páska heldur spáir samkvæmt árstíðasveiflu og leitni.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Húsnæðisverðshækkanir: Lítil verður minni

Mælingar okkar á þróun ásetts fermetraverðs í fasteignaauglýsingum bendir til þess að árshækkun ásetts verðs hafi lítið breyst undanfarið, í það minnsta eru ekki komnar fram vísbendingar um að ásett verð sé farið að lækka. Útreikningar Íbúðalánasjóðs benda til þess að hlutfall kaupsamninga undir ásettu verði hafi hækkað, sem gefur til kynna að þróun ásetts verðs sé að ofmeta verðhækkunina. Mæling Þjóðskrár á þróun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu bendir til þess að verðin hafi lækkað í febrúar. Af þessum sökum hefur vænt hækkun fasteignaverðs verið lækkuð í 0,25% á mánuði úr 0,33%. Næsta mæling Þjóðskrár verður birt 16. apríl næstkomandi sem gæti gefið vísbendingu um þróun fasteignaverðs (reiknuð húsaleiga) í mælingu Hagstofunnar.

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

 

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

 

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá: Flug og fasteignir, laun og lífskjarasamningur

Gangi spáin fyrir apríl eftir fer verðbólgan í 3,3% eftir að hafa farið undir 3% mörkin tímabundið. Bráðabirgðaspáin gerir ráð fyrir smávægilegum hækkunum næstu mánuði, en þar sem mánaðarbreytingin var ennþá lægri fyrir ári síðan leiðir það til hækkunar á árstaktinum, sem hækkar í 3,6% í maí. Þrátt fyrir að búið sé að skrifa undir kjarasamninga við stærstu verkalýðsfélögin á almenna markaðinum á enn eftir að koma í ljós hvort félagsmenn samþykki samninginn og hver viðbrögð annarra félaga verður. Yfirlýsingar nokkurra formanna benda til að þjóðarsátt ríki ekki um hinn svokallaða lífskjarasamning og að sum félög vilji fá meiri hækkun launa. Einnig verður áhugavert hvaða áhrif gjaldþrot WOW air mun hafa á fasteignaverð og verð flugfargjalda, en einnig hver áhrifin verða á krónuna og þannig verðlag óbeint. Það er nánast öruggt að verð flugfargjalda hækki en meiri óvissa er um áhrifin á fasteignaverð. Könnun Ferðamálastofu bendir til þess að farþegar WOW air voru líklegri til að leiga íbúð í gegnum Airbnb og því gæti aukið framboð komið fram af íbúðum miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu á næstunni með tilheyrandi verðlækkunum.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Maí 0,2%: Verð á hótelgistingu og veitingastöðum hækkar en mögulega minni hækkun en undanfarin ár vegna fækkunar ferðamanna, verð tómstunda hækkar
  • Júní 0,3%: Flugfargjöld, tómstundir og hótelgisting hækka í verði
  • Júlí 0,0%: Útsölur á verði fatnaðar og húsgögnum, flugfargjöld hækka mikið (undanfarin ár 10-30% hækkun)

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka