Hvað gæti lífskjarasamningurinn þýtt fyrir hagspá?

Hvað gæti lífskjarasamningurinn þýtt fyrir hagspá?

Það var að kvöldi 3. apríl, á ellefta tímanum, og þjóðin sat límd við skjáinn. Í fyrsta skipti í langan tíma sveif léttur andi yfir vötnum í karphúsinu, lífskjarasamningur var í höfn. Vopnahléslína eða þjóðarsátt, löngum og ströngum kjarasamningsviðræðum var lokið og óvissuskýin sem byrgt höfðu landsmönnum sýn urðu gegnsærri. Dagana áður höfðum við kynnt hagspá okkar fyrir árin 2019-2021. Sú spá grundvallast m.a. á forsendu um niðurstöðu kjarasamninga sem nú liggja fyrir. En hvað þýðir lífskjarasamningurinn fyrir nýútgefna hagspá Greiningardeildar?

Fyrstu viðbrögð Greiningardeildar við lífskjarasamningnum? Jákvæð. Samið var um hóflegri beinar launahækkanir en við höfðum þorað að vona og tengingu við siglingarhraða þjóðarskútunnar komið á í gegnum hagvaxtarauka. Skilyrði eru nú betri fyrir minni verðbólgu, sterkari krónu, lægri vexti og minna atvinnuleysi en við höfðum þorað að vona. Lífskjarasamningurinn kollvarpar þó ekki sýn okkar á hagkerfið og teljum við að stóra myndin hafi í sjálfu sér lítið breyst, enda byggist hagvaxtarspáin að mestu leyti á útflutningshöggi. Hann endurspeglar hins vegar rökrétt viðbrögð við stefnu hagkerfisins samhliða samdrætti í ferðaþjónustu og loðnubresti. Með samningnum er vonandi lagður grunnur að því að milda áhrif þeirra högga. Samningurinn sýnir einnig skýran vilja vinnumarkaðarins að hér skuli stefnt að lágri verðbólgu og lægri vöxtum til langframa. Viðbrögð á gjaldeyrismarkaði og á verðbréfamörkuðum sýna aukna tiltrúa á þessa stefnu. Krónan hefur styrkst, langtímavextir hafa lækkað og verðbólguálag dregist saman.

Stolt siglir krónan, stórsjónum á

Gjaldeyrismarkaðurinn tók vel í jákvæðar fréttir af vinnumarkaði og styrktist krónan um 2,7% skv. gengisvísitölunni sama dag og samningar voru í höfn. Þegar þetta er skrifað hefur krónan styrkst um rúm 2% frá byrjun apríl. Fyrstu viðbrögð benda því til að markaðurinn telji innihald lífskjarasamningsins styðja við krónuna. Við erum sama sinnis. Þar kemur tvennt til. Annars vegar leiða hóflegar launahækkanir til þess að áhrif á samkeppnisstöðu landsins verða minni en ef beinar nafnlaunahækkanir hefðu orðið meiri. Hins vegar er líklegt að Seðlabankinn, lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar meti langtímahorfur í hagkerfinu betri en ella sem hefur jákvæð áhrif á streymi fjárfestingar. Slíkt flæði hefur mun meiri áhrif gengi krónunnar til skemmri tíma en undirliggjandi efnahagsstærðir. Sem dæmi þá hefur Seðlabankinn verið talsvert virkur á gjaldeyrismarkaði t.d. í kjölfar falls WOW air og stutt við krónuna. Högg á útflutningstekjur þjóðarbúsins í kjölfar falls WOW air virðist því hafa að mestu verið verðlagt inn í krónuna að mati fjárfesta, þar með talins Seðlabankans.

Eins og áður sagði var samið um hóflegri beinar launahækkanir en við höfðum þorað að vona. Það eitt og sér ætti að auka viðnámsþrótt krónunnar, að öllu öðru óbreyttu, og þar af leiðandi draga úr verðbólguþrýstingi í gegnum gengisfarveginn. 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. * Miðað við meðalgengi þann 12. apríl.

Ofmat launaspárinnar hangir á launaskriði

Í hagspá okkar er gert ráð fyrir að launavísitala Hagstofunnar hækki um 6,1% í ár og nokkuð meira á næsta ári, eða um 6,7%. Hafa ber í huga að spáin byggir á ársmeðaltölum sem þýðir að nú þegar er komin fram talsverð hækkun fyrir árið í ár. Með öðrum orðum, ef launavísitalan er fest í febrúargildi sínu út árið mælist 2,7% hækkun milli ársmeðaltala. Launaspá okkar byggir hinsvegar á nokkuð hærri launahækkun en nýundirritaðir kjarasamningar hljóða upp á.

Ef við reynum að máta lífskjarasamninginn við launavísitölu Hagstofunnar gefur slík reikniæfing út 4,5% hækkun í ár og 4,8% á næsta ári. Hafa skal í huga að hér er ekki tekið tillit til styttingu vinnuvikunnar. Stóra forsendan í þessu reiknidæmi, fíllinn í herberginu, er að sömu krónutöluhækkanir ganga þvert yfir allan vinnumarkaðinn, þ.e. gert er ráð fyrir að að íslenskur vinnumarkaður brjóti blað í íslenskri hagsögu og að launaskrið verði ekkert. Raunhæft? Vonandi, út frá sjónarhóli verðbólgu, enda mikið í húfi fyrir íslenskt hagkerfi. Það vekur hins vegar upp ugg að almenn sátt virðist ekki vera meðal annarra stétta um fordæmi lífskjarasamningsins og því er átökum á vinnumarkaði ekki lokið. Til þess að okkar spá gangi eftir verður launaskrið tæplega tvö prósentustig í ár og um þrjú prósentustig á næsta ári. Miðað við launaþróun síðustu áratugina virkar sú spá varfærin þó hún sé líklega talsvert umfram væntingar aðila að lífskjarasamningnum.

Verði launaskriði aftur á móti haldið í skefjum og lífskjarasamningurinn lagður til grundvallar við samningagerð á komandi vikum er verðbólguspá okkar mögulega of brött. Þá heldur stöðug króna aftur af innlendum verðbólguþrýstingi. Sama hver niðurstaðan verður erum við hins vegar ennþá þeirrar skoðunar að verðbólga muni stíga á árinu og fram á næsta ár, þó hallatalan gæti reynst lægri.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Framboð í framtíð, eftirspurn í nútíð

Húsnæðismarkaðurinn hefur verið mikið í sviðsljósinu í undanfarinni kjaradeilu, enda hefur húsnæðisverð hækkað töluvert umfram laun á síðustu árum. Spjótin hafa einkum beinst að stjórnvöldum sem brugðust við með aðgerðarpakka þau meta upp á 80 milljarða króna að heildarumfangi. Af þeim 45 aðgerðum sem tilteknar eru beinast 13 beint að húsnæðismálum. Að okkar mati eru aðgerðirnar bæði til þess fallnar að styðja við framboðs- og eftirspurnarhliðina.

Íbúðafjárfesting hefur verið á miklu skriði að undanförnu og útlit fyrir að svo verði áfram. Markaðurinn er þar af leiðandi sjálfur að leiðrétta það ójafnvægi sem skapast hefur á síðustu árum. Það verður að teljast jákvætt þar sem aðgerðir ríkisins, eins og að hefja skipulagningu á Keldnalandi og auka framlög í almenna íbúðakerfið munu ekki skila sér strax í auknu framboði. Eftirspurnarhliðin er hins vegar mun kvikari og munu aðgerðir þar, s.s. breytt lánafyrirkomulag, skila sér fyrr inn á húsnæðismarkaðinn. Það sem vekur einna helst athygli okkar eru skrefin sem áætluð eru til afnáms verðtryggingarinnar. Takmarka á verulega lánstíma verðtryggðra jafngreiðslulána, sem hingað til hafa borið lægstu greiðslubyrðina. Að öðru óbreyttu ætti þessi breyting að kæla húsnæðisverð þar sem ákveðinn hópur er með henni útilokaður af markaðnum. Á móti vegur að stuðningur við fyrstu kaup verður aukinn og ný tegund húsnæðislána verður innleidd. Það liggur því ekki í augum uppi hvaða heildaráhrif aðgerðarpakkinn mun hafa á húsnæðisverð á næstu misserum.

Aðgerðir stjórnvalda á húsnæðismarkaði breyta ekki sýn okkar á markaðinn að svo stöddu. Við teljum að litlar sem engar húsnæðisverðhækkanir séu í kortunum og búumst allt eins við því að sjá nafnverðslækkanir (miðað við stöðuna í dag) í ár og á næsta ári.

Heimildir: Þjóðskrá Íslands, Greiningardeild Arion banka

Stöðugleiki, svigrúm og sigur vaxtadúfnanna

Jafnvel áður en lífskjarasamningurinn var kynntur til leiks töldum við að vaxtalækkun væri á næsta leyti, enda meiri líkur en minni á efnahagssamdrætti í ár. Þá hefur Seðlabankinn tækin og tólin, m.a. í formi 600 ma.kr. hreins gjaldeyrisforða, til standa við stóru orðin og beina aðlögun hagkerfisins í gegnum vinnumarkaðinn og atvinnustig, en ekki verðlag og gengi eins og Íslendingum hefur verið tamt að gera.

Lífskjarasamningurinn styður við þá skoðun að vaxtalækkun sé í farvatninu. Eins og haft var eftir seðlabankastjóra fyrir skemmstu: „Svigrúm Seðlabanka Íslands til að lækka stýrivexti hefur aukist í kjölfar nýlegra kjarasamninga.“ Í hagspá okkar var teiknuð inn 25 punkta vaxtalækkun og gert ráð fyrir að Seðlabankinn myndi hleypa raunvöxtum undir 0% til að styðja við hagkerfið. Miðað við lífskjarasamninginn og gengi krónunnar frá undirritun hans, sem og orðum seðlabankastjóra um aukið svigrúm, teljum við spá um 25 punkta vaxtalækkun sé líklega of varfærnisleg. Hvort vaxtalækkunin líti dagsins ljós á næsta vaxtaákvörðunarfundi í maí er hins vegar alls kostar óvíst. Það mun eflaust ráðast að einhverju leyti af stöðu annarra samningaviðræðna á vinnumarkaði , enda peningastefnunefnd margrómuð fyrir að stíga varlega til jarðar. Þá bendir ýmislegt til að vaxtaákvæðið í lífskjarasamningnum hafi farið öfugt ofan í nokkra nefndarmenn, sem gætu við næstu vaxtaákvörðun talið sérstaklega mikilvægt að undirstrika sjálfstæði Seðlabankans.

Hvernig svo sem framvindan verður teljum við að þau skref sem tekin voru með undirritun lífskjarasamningsins vera í heild sinni jákvæð. Þá er niðurstaðan nokkuð betri en við þorðum að vona, sem léttir á verðbólguþrýstingi, gengisveikingu og opnar á frekara svigrúm til vaxtalækkana. Björninn er hinsvegar ekki unninn og verður fróðlegt að sjá hvort önnur stéttarfélög og launþegar utan stéttarfélaga samþykki að setja lífskjarasamninginn sem viðmið og hamla þannig launaskriði. Tækifærið er til staðar, nú þarf bara að grípa það.

 

Heimild: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Miðað við þjóðhags- og verðbólguspá Seðlabankans sem birtist í PM 2019/1