Hagvöxtur beint í budduna

Hagvöxtur beint í budduna

Í efnahagsumræðunni er mikið fjallað um hagvöxt og hagvaxtarhorfur. Minna er rætt um hagvöxt á mann og framleiðnivöxt sem hvoru tveggja segja þó meira til um þróun efnislegra lífsgæða landsmanna. Nú verður líklega breyting á, því í nýundirrituðum lífskjarasamning er svo búið um hnútana að hagvöxtur á mann skilar sér beina leið í buddu landsmanna.
En hvað mælir hagvöxtur nákvæmlega? Hagvöxtur er breyting í verðmætasköpun innan landsins sem ræður því hve mikið af veraldlegum gæðum er til skiptanna. M.ö.o. þá er hagvöxtur bara breyting í framleiðslu. 
Önnur mikilvæg hagstærð er fólksfjöldaþróun en hún er lykilþáttur þegar reyna á að meta þróun verðmætasköpunar hvers og eins að meðaltali. Vilji maður bregða mælistiku á þróun lífsgæða út frá efnislegum gæðum er því mun eðlilegra að líta á hagvöxt á mann fremur en hagvöxt einan og sér. 
Íbúum á Íslandi hefur fjölgað um tæplega 19.000 manns undanfarin tvö ár, eða um 5,5%. Hröð fólksfjölgun undanfarið, aðallega vegna aðflutts vinnuafls, hefur leitt til þess að hagvöxtur og hagvöxtur á mann hafa að einhverju leyti orðið viðskila. Þetta endurspeglast í því að meðalhagvöxtur á mann síðustu tvö ár hefur verið 1,8% þrátt fyrir að meðalhagvöxtur hafi verið 4,6%.


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Spá um fólksfjölda byggir í grunninn á lágspá mannfjöldaspár Hagstofunnar

Greiningardeild Arion banka gaf út hagspá í byrjun mánaðarins en hún gerir ráð fyrir að það muni draga saman með þessum hagstærðum á næstu árum vegna minni fólksflutninga til landsins. Þrátt fyrir það verður hagvöxtur á mann áfram minni en vöxtur hagkerfisins en það er engin nýlunda. Síðan árið 1997 hefur hagvöxtur aðeins einu sinni verið minni en hagvöxtur á mann og það var í kjölfar hrunsins þegar íbúum landsins fækkaði um tæplega 2.000 manns. 
Þrátt fyrir að munurinn á þessum hagstærðum virðist ekki vera mikill til skemmri tíma þá eru  uppsöfnunaráhrifin gífurleg. Á meðan íslenska hagkerfið hefur meira en tvöfaldast (vaxið um 104%) síðan 1997 hefur landsframleiðsla á mann aðeins vaxið um 55%. 
Það er e.t.v. ekki sanngjarnt að tala um „aðeins“ 55% meiri framleiðslu á mann enda þó nokkur árangur að skapa 55% meiri verðmæti á hvern íbúa heldur en fyrir rúmum tveimur áratugum. Þessi þróun hefur að miklu leyti verið drifin áfram af tækniframförum sem stafa m.a. af auknu fjármagni og vaxandi mannauði svo eitthvað sé nefnt.  


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Fimmta bestasta land í heimi

Ef litið er á landsframleiðslu á mann hér á landi í alþjóðlegum samanburði kemur í ljós að Ísland er með fimmtu mestu landsframleiðslu á mann í heiminum samkvæmt nýjustu tölum Alþjóðabankans (e. World Bank.) Þá er landsframleiðsla á mann á Íslandi 84% yfir meðaltali OECD ríkjanna og því ljóst að Íslendingar standa mjög framarlega á þennan mælikvarða.  


Heimildir: The World Bank data, Greiningardeild Arion banka 

Stytting vinnuvikunnar þegar hafin

Vöxtur framleiðslu á mann verður enn merkilegri þegar horft er til þess að undanfarin 15 ár hefur vinnutími þeirra sem eru á vinnumarkaði dregist saman um 5,5% og er nú 39,6 klukkustundir á viku í stað 41,9 klukkustunda á viku, skv. Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar. 


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar er spurningakönnun og byggir á huglægu mati svarenda, sem getur verið villandi. Ef litið er á fjölda vinnustunda samkvæmt þjóðhagsreikningum sem hlutfall af fjölda starfandi er þróunin hins vegar enn þá greinilegri, þ.e.a.s. vinnutíminn er að styttast.  


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Það er því ljóst sama á hvorn mælikvarðann er litið að vinnutími hefur verið að dragast saman. Það er bara eitt sem getur skýrt aukna framleiðslu á mann þrátt fyrir að meðalmaðurinn vinni skemur og það er aukin framleiðni. 

Framleiðni er lykillinn að bættum lífskjörum

Framleiðni ætti að vera í miklum metum meðal þeirra sem vinna að því að auka efnisleg gæði þjóðarbúsins og landsmanna. Hún er skilgreind sem hlutfall VLF og heildarvinnustunda, þ.e. hversu mikil verðmætasköpun á sér stað á hverri vinnustund. Aukin framleiðni þýðir að hægt sé að sinna sömu verkefnum á styttri tíma og þar með viðhalda sömu verðmætasköpun (og jafnvel auka hana) þrátt fyrir færri vinnustundir. 
Ef litið er á framleiðni eins og hún kemur fyrir í þjóðhagslíkani Seðlabankans má sjá að hún hefur vaxið um u.þ.b. 50% síðan 1997. Þetta þýðir að vinnuafl íslenska hagkerfisins árið 2018 var 33% fljótara að skapa verðmæti en íslenskt vinnuafl var árið 1997 sem skapar grunninn að auknum efnislegum gæðum og/eða styttri vinnutíma. Það er því freistandi fyrir yngri kynslóðir að núa eldri kynslóðum því um nasir að þær hafi verið 50% lengur að öllu árið 1997 en hinar yngri eru núna. 


Heimildir: Seðlabanki Íslands og Greiningardeild Arion banka

Lífskjarasamningarnir - hagvaxtarauki

Í hinum margumtöluðu lífskjarasamningum sem voru undirritaðir í byrjun apríl var margt áhugavert að finna. Meðal þess var svokallaður hagvaxtarauki en honum er ætlað að tryggja hlut launafólks í verðmætasköpun þjóðarbúsins. Hagvaxtaraukinn er ekki tengdur við hagvöxt heldur hagvöxt á mann. Þetta er skynsamlegt þar sem hagvöxtur síðustu tveggja ára hefur að hluta skýrst af þeim augljósu sannindum að fleiri hendur framleiða meira. Aukin framleiðsla vegna fleira starfsfólks skapar ekki forsendur fyrir ekki launahækkanir en aukin framleiðsla á mann gerir það hins vegar.  
Hagvaxtaraukinn mun ráðast af útreikningum Hagstofunnar á hagvexti á mann en ekki liggur nákvæmlega fyrir við hvaða reikningsaðferð verður stuðst. Í töflunni hér að neðan má sjá hagvaxtarauka ofan á taxtalaun og almenna hækkun m.v. mismunandi forsendur um hagvöxt á mann. 


Heimildir: Samtök atvinnulífsins, Greiningardeild Arion banka

Að okkar mati er jákvætt að slík hugsun sé komin inn í kjarasamninga. Það er mikilvægt að hagsmunir launþega og atvinnurekanda gangi sem best í takt og við teljum að þessi breyting sé til þess fallin að auka verðmætasköpun í landinu. 
Allir þeir mælikvarðar á efnislega velferð sem hér hafa verið reifaðir benda til þess að lífskjör landsmanna fari almennt séð hratt batnandi. Vinnuvikan virðist vera að styttast og landsframleiðsla á mann er sú fimmta mesta í heimi. Góðir hlutir gerast hægt en þessi þróun hefur hlotið litla athygli miðað við áhrifin sem hún hefur á lífsgæði þjóðarinnar. Bætt lífsgæði eru langtímaverkefni sem krefst tækniframfara og samstöðu þátttakenda í hagkerfinu. Með skýrri sýn á markmiðið, hvort sem það er styttri vinnuvika, aukin framleiðsla eða bland beggja, næst vonandi sami árangur á næstu áratugum og við höfum náð undanfarið.