Litla gula Greiningardeildin og páskaeggin

Litla gula Greiningardeildin og páskaeggin

Páskaegg eiga rætur sínar að rekja til miðalda, þegar leiguliðar greiddu landeigendum páskaskatt í formi eggja. Saga páskaeggja á Íslandi er töluvert styttri, rétt svo nokkrar blaðsíður í annars viðamiklum doðranti, enda fór lítið fyrir hænsnarækt hér á landi á árum áður. Samkvæmt Vísindavefnum hefst sagan árið 1920 þegar Björnsbakarí auglýsti fyrst páskaegg til sölu. Á fimmta áratugnum hófu síðan íslenskir framleiðendur að framleiða súkkulaðipáskaegg og stóð valið einkum á milli Nóa Siríusar og Freyju. Spólum nokkra áratugi fram í tímann, fram til dagsins í dag, og páskaeggjalandslagið hefur tekið stakkaskiptum. Páskaeggjaflóran hefur sjaldan verið jafn fjölbreytt og litskrúðug, en yfir 100 tegundir af eggjum eru til sölu, af öllum stærðum og gerðum!

Fyrir mörgum koma páskarnir ekki fyrr en búið er að opna páskaeggið, skeggræða málsháttinn og hella ískaldri mjólk í glas. Fyrst þarf hins vegar að velja rétta eggið, hrein vísindi að mati einhverra, enda má kakóbragðið ekki vera of mikið, né of lítið, málshátturinn þarf helst að vera gamalgróinn, páskaunginn þarf að vera krúttlegur og nammið inn í egginu að vera til fyrirmyndar. Fyrir suma, sem dæmi rúðustrikaða hagfræðinga Greiningardeildar, er verð páskaeggjanna aftur á móti mun áhugaverðara, sérstaklega verðbreytingar yfir tíma. Verðkönnun ASÍ, þrátt fyrir alla sína kosti og galla, er því eins og himnasending fyrir páskaeggjagreinendur, en niðurstöðurnar hafa verið birtar nokkrum dögum fyrir páska undanfarin ár. Til gagns og gamans höfum við tekið saman þessi gögn til að sjá hvernig verðþróunin hefur verið. Áður en lengra er haldið er vert að taka fram að þessi Markaðspunktur er ekki styrktur af, né unnin í samráði við, páskaeggjaframleiðendur heldur voru páskaeggin hér að neðan valin af handahófi af helsta súkkulaðigæðingi deildarinnar. Þá er miðað við lægsta verð hverju sinni í könnun ASÍ, en tilboð verslana geta skekkt samanburð á milli ára.

Í nær öllum tilfellum hafa páskaegg hækkað í verði frá árinu 2014 og nemur hækkunin allt frá 12% upp í 23%. Aðeins eitt páskaegg í úrtakinu hefur lækkað í verði á þessu tímabili, Góu páskaegg númer 5. Það vekur athygli að verðhækkunin á hvert kílógramm er ekki jafn mikil og hækkun stykkjaverðs, þar sem mörg páskaeggin hafa stækkað nokkuð frá árinu 2014. Þá er áhugavert að sjá að mestu verðhækkanirnar voru árið 2016, í kjölfar mikilla launahækkana, og svo í ár. Kannski vegna launahækkana, kannski vegna hækkunar á heimsmarkaði á súkkulaði, kannski vegna veikari krónu. Sjálfsagt ýmsar ástæður. Við veltum því fyrir okkur, gengur páskaeggjaframleiðendum betur en öðrum að velta kostnaðarverðshækkunum út í verðlag, mögulega þar sem páskaegg eru nauðsynjavörur í augum margra, eða er þetta vísbending um það sem koma skal?

  

Heimildir: ASÍ, Greiningardeild Arion banka

Líkt og áður sagði hafa öll páskaeggin nema eitt í úrtaki Greiningardeildar hækkað í verði frá árinu 2014. Til að gæta sanngirni er rétt að taka fram að Góu páskaegg númer 5, eina eggið sem hefur lækkað, var líklega á sérstöku tilboði þegar verðkönnun ASÍ var framkvæmd. Ef notast er við meðalverð þess fæst sambærileg þróun í ár og á Kroppeggi Nóa Siríusar, þ.e.a.s. hækkun milli ára. Hástökkvarinn í ár er aftur á móti páskaegg númer 5 frá Nóa Siríusi, sem hefur hækkað um 11,9% milli ára skv. verðkönnun ASÍ.

Þróunin á myndinni hér að neðan er dálítið eins og lýsing á 100 metra heimsmeistarahlaupi Usain Bolt árið 2009; allir byrja á sama upphafspunkti, fyrstu skrefin eru spennandi en snemma sker einn sig úr hópnum og sigrar með miklum yfirburðum. Í þessu tilfelli eru það laun, sem hafa hækkað um heil 43% frá febrúar árinu 2014.

  

Heimildir: ASÍ, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Launaseðillinn metinn út frá páskaeggjum

Þegar laun hækka umfram almennt verðlag er sagt að kaupmáttur launa hafi aukist, þ.e.a.s. launþegar geta keypt meira fyrir launin sín en þeir gátu áður. Sama hugsun gildir ef laun hækka meira en páskaeggjaverð, hægt er að kaupa fleiri páskaegg fyrir launaseðilinn en áður. Tökum sem dæmi, Hraunegg Góu hefur hækkað um tæplega 24% frá árinu 2014, út frá verðkönnun ASÍ. Á sama tíma hafa laun hækkað um 43%, sem samsvarar tæplega 16% kaupmáttaraukningu í Hrauneggjum á fimm árum! Við fyrstu sýn virðist þetta mikil kjarabót fyrir nammigrísi og súkkulaðiunnendur, en stígum út úr súkkulaðimókinu og lítum á heildarmyndina. Kaupmáttur launa, miðað við almennt verðlag, hefur hækkað um 30% á sama tíma! Það leiðir aftur til spurningarinnar: Er auðveldara að velta kostnaðarverðshækkunum út í páskaeggjaverð en önnur verð?

Þó að kaupmáttur launa mældur í páskaeggjum hafi aukist frá árinu 2014 blasir allt önnur mynd við ef litið er eitt ár aftur í tímann. Laun hafa hækkað um 5,6% milli páskahátíða, en verð á páskaeggjum hefur hækkað um 8% eða meira. Það þýðir að hinn hefðbundni launamaður getur keypt færri páskaegg fyrir launin sín en hann gat í fyrra! Höggið er þyngst fyrir aðdáendur rjómasúkkulaðis Nóa Siríusar, þar sem kaupmáttur mældur í hefðbundnum Nóa páskaeggjum númer 5 hefur minnkað um 5,6% milli ára. Kaupmáttarrýrnunin í Nóa páskaeggjum númer 4 er mun minni og því gætu rjómasúkkulaðisunnendur sem vilja „besta“ páskana fjárhagslega ,mögulega sætt sig við minna páskaegg í þetta skiptið. Þeir neytendur sem duttu niður á tilboðsverð á Góu páskaeggjum númer 5 geta hinsvegar glaðst, enda náð að læsa inni 13% kaupmáttaraukningu.

  

Heimildir: ASÍ, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Páskaegg, páskalamb, páskabjór og peningar

Margir landsmenn taka páska fram yfir jól, enda stressið minna, frídagarnir að jafnaði fleiri, veislurnar færri og meltingarfærin undir minna álagi, þrátt fyrir allt súkkulaðiátið. Jólahátíðin er sannarleg matarhátíð og nýta margir tækifærið og gera vel við sig í mat og drykk, eitthvað sem endurspeglast greinilega í kortaveltu landsmanna í stórmörkuðum og áfengisverslunum (bleiku súlurnar). Páskahátíðin, þrátt fyrir páskalambið, páskabjórinn og páskaeggin, er ekki jafn áberandi í kortaveltutölunum (gulu súlurnar), þó nokkuð greinilegur munur hafi mælst í fyrra samanborið við nærliggjandi mánuði.

Erfitt er að átta sig á hver þjóðhagsleg áhrif páskanna verða í ár. Seðlabanki Íslands birti í gær kortaveltutölur fyrir mars og voru þær lítilsháttar sterkari en við þorðum að vona, þrátt fyrir einungis 0,04% vöxt milli ára. Fyrirfram áttum við allt eins von á samdrætti þar sem lítið annað en neikvæðar fréttir af verkföllum og rekstrarerfiðleikum WOW air komust að í mánuðinum. Þá var dymbilvikan í lok mars í fyrra en í apríl í ár sem hefur áhrif á samanburð á milli ára. Engu að síður er ljóst að heimilin eru nú þegar farin að stíga varlega til jarðar, þróun sem hefur átt sér stað í nokkurn tíma. Sem dæmi jókst heildarkortavelta Íslendinga um 1,1% á fyrsta ársfjórðungi, á föstu gengi og verðlagi, sem er minnsti vöxtur á einstaka fjórðungi síðan árið 2013, sama ár og einkaneysluvöxturinn gaf nokkuð eftir. Þessar tölur ríma vel við nýja hagspá okkar, sem gerir ráð fyrir um 3% einkaneysluvexti á fyrsta ársfjórðungi. Aftur á móti teljum við að einkaneyslan gefi eftir þegar líða tekur á árið, fyrst og fremst vegna aukins atvinnuleysis í kjölfar fækkunar ferðamanna, hækkandi launa og minni umsvifa í hagkerfinu, allt atriði sem draga úr væntingum heimila og herða takið á veskinu.

 

Heimildir: Rannsóknarsetur verslunarinnar, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka