Verðbólgan hækkar í 3,3% - í takt við spár

Verðbólgan hækkar í 3,3% - í takt við spár

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,37% á milli mánaða í apríl skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan hækkaði þar með í 3,3%, úr 2,9% í mars. Verðbólguspár greiningaraðila voru á bilinu 0,3 til 0,4% en meðalspá þeirra sem birta spár opinberlega var 0,37% eða nákvæmlega í takt við mælinguna. Við spáðum 0,4% hækkun.

Tveir liðir áttu stóran þátt í því að ýta verðlagi upp á við; verð á flugfargjöldum sem hækkaði um 20,6% (0,29% áhrif á VNV) og bensínverð sem hækkaði um 2,5% (0,08% áhrif á VNV). En fleiri liðir hækkuðu, t.d. verð á fatnaði um 0,85% (0,04% áhrif á VNV) og verð á hótelum og veitingastöðum um 0,27% (0,02% áhrif á VNV). Af þeim liðum sem lækkuðu á milli mánaða má helst nefna verð á matarkörfunni sem lækkaði um 0,17% (-0,02% áhrif á VNV) og verð á húsgögnum lækkaði um 0,55% (-0,03% áhrif á VNV). Matarkarfan hefur lækkað á milli mánaða undanfarna þrjá mánuði og ekki er einsýnt hver ástæðan á bak við slíka þróun er.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá samantekt á mismun á mælingu Hagstofunnar og spá Greiningardeildar Arion banka.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Höfuðborgarsvæðið heldur uppi taktinum

Fyrir mánuði bar yfirskrift þessa kafla „Landsbyggðin heldur uppi taktinum“, þ.e. fyrir mánuði lækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu á meðan það hækkaði á landsbyggðinni en núna lækkaði fasteignaverð á landsbyggðinni en hækkaði á höfuðborgarsvæðinu. Það virðist vera innbyggður sveiflujafnari í fasteignaverðsþróun á landinu eins og er. Verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,77% í apríl en sérbýli um 0,88% á meðan verð á landsbyggðinni lækkaði um 2,5%. Á heildina litið hækkaði fasteignaverð um 0,04% á milli mánaða. Undanfarið ár hefur verð á fjölbýli hækkað um 3,4% (sem er rétt fyrir ofan ársverbólgu), verð á sérbýli um 4,3%, verð á landsbyggðinni um 8,9% og 4,6% á öllu landinu.

Á myndinni hér fyrir neðan sést að árstakturinn hefur farið lækkandi undanfarin tæp tvö ár, þ.e. þó mánaðarbreytingar séu jákvæðar þá þarf að meðaltali hver mánaðarbreyting að vera lægri en ársins á undan til að árstakturinn geti farið lækkandi og það er það sem er að gerast.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hvað er að drífa verðbólguna?

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvernig árstaktur verðbólgunnar er settur saman. Húsnæði ber ábyrgð á 0,9 prósentustigi af 3,3% árstakti sem þýðir að innan við þriðjungur verðbólgunnar er vegna hækkunar á fasteignaverði. Það hlutfall hefur ekki verið jafn lágt síðan í september 2013 en síðan þá hefur fasteignaverð hækkað um tæp 70% að nafnvirði eða 51% að raunvirði m.v. vísitölu neysluverðs með húsnæði.

Innfluttar vörur bera mesta ábyrgð á ársverðbólgunni núna eða um 1,06 prósentustigi af árstaktinum eða um þriðjungi. Innfluttu vörurnar eru því komnar í fyrsta sæti áhrifavalda á árstaktinn en húsnæðisverð hefur haldið því sæti síðan í september 2013. Hástökkvari vikunnar er önnur þjónusta en hún ber ábyrgð á 0,42 prósentustigi (eða um 13% af ársverðbólgunni) en fyrir mánuði nam hennar hlutur 0,2 prósentustigi. Önnur þjónusta hefur ekki haft jafn mikil áhrif á ársverðbólguna síðan árið 2016. Opinber þjónusta hefur haft 0,23 prósentustiga áhrif, áfengi og tóbak 0,04 prósentustig og innlendar vörur og grænmeti 0,55 prósentustig og breyttust ekki mikið á milli mánaða.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá

Í verðbólguspá okkar fyrir mars tókum við fram að nokkrir þættir væru að vinna með því að halda verðbólgu lágri; minni hækkanir fasteignaverðs, lækkun bindiskyldu sem gæti styrkt krónuna og vísbending um aukna samkeppni á matarmarkaði. Mæling Hagstofunnar í mars og apríl styrkir þá skoðun okkar að a.m.k. tvennt af þessu þrennu sé að koma fram: fasteignaverð lækkar á milli mánaða sem og smávægileg lækkun matarverðs. Þó er of snemmt að lesa of mikið í eina til tvær mælingar. Matarkarfan er einnig ólíkleg til að lækka mikið meira þar sem geta smásala til að lækka álagningu er væntanlega ekki endalaus og kostnaður smásala vegna kjarasamninga er væntanlega talsverður. Sumir innlendir framleiðendur hafa nú þegar gefið það út að hækka þurfi verðskrár vegna kjarasamninga og hækkandi verðs aðfanga erlendis frá.

Flugfargjöld hækkuðu mikið í apríl, bæði vegna framboðskells og ferðatímabils í kringum páskana, og er alls ekki ólíklegt að þessi mikla hækkun gangi eitthvað tilbaka en það er kannski fullsnemmt að fullyrða um slíkt. Bensínverð hefur nú þegar hækkað um 2% í samanburði við síðustu mælingarviku sem hefur um 0,06% áhrif á vísitöluna til hækkunar.

Bráðabirgðaspá fyrir næstu mánuði:

  • Maí 0,2%: Bensínverð hækkar, verð á hótelgistingu og veitingastöðum hækkar, verð tómstunda hækkar.
  • Júní 0,3%: Flugfargjöld, tómstundir og, hótelgisting hækka í verði, undirvísitölur sem verða fyrir útsöluáhrifum í júli gætu hækkað eilítið í júní.
  • Júlí 0,0%: Útsölur á verði fatnaðar og húsgögnum, flugfargjöld hækka mikið (undanfarin ár 10-30% hækkun).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka