Verðmiðinn á Íslandsferðinni lækkar

Verðmiðinn á Íslandsferðinni lækkar

Það dylst engum sem fylgst hefur með fréttaflutningi síðustu mánuði að ferðaþjónustan á í vök að verjast. Komum ferðamanna hefur fækkað um 8% það sem af er ári, greinin var skotmark verkfallsaðgerða og til að bæta gráu ofan á svart var WOW air lýst gjaldþrota fyrir rúmum mánuði síðan. Við þetta bætast launahækkanir, sem þrátt fyrir að vera í hóflegri kantinum verða eflaust þungur baggi fyrir mörg ferðaþjónustufyrirtæki sem standa nú þegar höllum fæti. Eftir gjöful ár finnur ferðaþjónustan sig í nýjum veruleika, veruleika þar sem ekki er hægt að treysta á að „þetta reddist“ vegna fjölgunar ferðamanna.

Útistandandi ferðamannaspá Greiningardeildar gerir ráð fyrir 16% fækkun í komum erlendra ferðamanna í ár. Spáin byggir fyrst og fremst á flugframboði til og frá landinu, sem hefur verulega látið á sjá eftir fall WOW air, sem flutti um 27% allra ferðamanna til landsins í fyrra. Þá glímir Icelandair við kyrrsetningu MAX vélanna og hefur þar af leiðandi ekki getað vaxið jafn mikið og áður var útlit fyrir. Jafnvel þó önnur flugfélög hafi séð sér leik á borði og fjölgað flugferðum til Íslands er það aðeins dropi í hafið sem WOW air skildi eftir sig. Nýjustu flutningatölur Icelandair gefa þó til kynna að hlutfall ferðamanna til Íslands í hópi farþega fari hækkandi á kostnað skiptifarþega.

Þrátt fyrir að það sé lágskýjað yfir ferðaþjónustunni þetta árið ætti þróun kortaveltunnar að veita ákveðna huggun harmi gegn. Það sem af er ári hefur kortavelta á hvern erlendan ferðamann aukist, bæði í krónum talið sem og í erlendri mynt. Á fyrsta ársfjórðungi eyddi hver erlendur ferðamaður að jafnaði 15% fleiri krónum en hann gerði á sama tíma fyrir ári síðan, enda krónan talsvert veikari en þá. Þetta þýðir að jafnvel þótt ferðamönnum hafi fækkað um tæplega 5% á fyrsta ársfjórðungi jókst heildarkortaveltan um 9,3% í krónum talið. Hafa ber í huga að WOW air var starfrækt á fyrsta ársfjórðungi og að samdráttur í komum ferðamanna í apríl var mun meiri en aðra mánuði, eða 18,5%. Það er líklegt að einhver samdráttur mælist í heildarkortaveltu í apríl, þrátt fyrir veikari krónu, en höggið verður mun mildara en það hefði annars verið.

 

Heimildir: Ferðamálastofa, RSV, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Ekki lengur dýrast í heimi

Fyrir tveimur árum síðan var íslenska krónan á mikilli siglingu. Bandaríkjadalur fór undir 100 krónur í fyrsta sinn frá hruni og í þrjá daga kostaði evran 110. Það sama ár hlotnaðist Íslandi sá vafasami heiður að vera dýrasta land innan Evrópu. Síðan þá hafa aflandskrónur verið frelsaðar, WOW air orðið gjaldþrota, lífeyrissjóðirnir verið stórtækir í erlendri fjárfestingu, viðskiptaafgangur minnkað og krónan veikst um 23% gagnvart evru og 25% gagnvart Bandaríkjadal. Gengisveikingin hefur gert það að verkum að Ísland er ekki lengur dýrasta land innan Evrópu fyrir ferðamenn heim að sækja, heldur hefur Sviss endurheimt efsta sætið.

Þessi breyting þýðir, að öðru óbreyttu, að verðmiðinn á Íslandsdvölinni hefur lækkað í erlendri mynt. Rannsóknir benda til þess að dvalartími og neysluhegðun ferðamanna séu viðkvæm fyrir verðbreytingum, eitthvað sem íslensk hótel og veitingastaðir hafa að einhverju leyti fundið á eigin skinni síðustu ár. Þessi verðbreyting gæti því mögulega þýtt að erlendir ferðamenn muni leyfa sér meira á meðan dvölinni stendur og dvelja lengur en áður.

 

Heimildir: Eurostat, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. * Útreikningar Greiningardeildar

Flugið er ódýrt - ennþá

Hingað til virðist hátt verðlag ekki hafa reynst þrándur í götu ferðamanna til landsins. Sem dæmi, árið 2016 var verðlag á Íslandi að jafnaði 50% hærra en innan ESB, en engu að síður fjölgaði komum erlendra ferðamanna um 40%. Ári síðar, þegar Ísland var orðið dýrasta land innan Evrópu, nam fjölgunin 24%! Hvað veldur? Rannsóknir benda til þess að í tilfellum lítilla eyríkja skiptir flugframboð til og frá viðkomandi landi mun meira máli en hversu dýr áfangastaður landið er. Flestir geta eflaust tengt við þá niðurstöðu, enda fyrsta skrefið í skipulagningu frís oftar en ekki að leita að ódýru flugi til framandi staða.

Þó að Ísland sé vissulega dýr áfangastaður erum við í Greiningardeildinni ívið meira uggandi yfir þróun flugfargjalda. Sama hvert á er litið, vísitölu neysluverðs eða ferðaþjónustureikninga Hagstofunnar, flugfargjöld til landsins hafa lækkað verulega frá árinu 2014. Flugfargjöld hafa þannig vegið á móti hækkandi verðlagi og sterkari krónu, haldið verðmiðanum á Íslandsferðinni niðri og átt sinn þátt í að laða ferðamenn til landsins. Eins og staðan er í dag er ljóst að komum erlendra ferðamanna til landsins mun fækka í ár. Flugmiðinn til landsins er hinsvegar ennþá nokkuð ódýr og veiking krónunnar gert það að verkum að landið ber ekki lengur titilinn dýrasti áfangastaður Evrópu, eitthvað sem vonandi mildar höggið fyrir ferðaþjónustuna.

Í ljósi þess að annað íslensku flugfélaganna er farið í þrot og hitt í taprekstri um þessar mundir, er hætt við að flugfargjöld muni hækka, að öðru óbreyttu. Enda má segja að flugfarþegar hafi á undanförnum árum upplifað einstakt árferði sem á endanum reyndist ekki innistæða fyrir og sýndi sig einna best í því að WOW air greiddi með flugfarþegum í leiðakerfi sínu í fimm af sjö árum sem félagið starfaði. Slíkt gæti haft veruleg áhrif á komur ferðamanna til landsins þar sem Íslandsdvölin er ekki gefins. Hækki flugfargjöld til landsins snarpt, og meira en til annarra áfangastaða, gæti það haft djúpstæðari áhrif á ferðaþjónustuna en verðlag og gengi krónunnar, og ýkt þannig framboðsskellinn sem ferðaþjónustan stendur frammi fyrir.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka