Svarta gullið dregur verðbólguvagninn í maí – verðbólgan hækkar í 3,6%

Svarta gullið dregur verðbólguvagninn í maí – verðbólgan hækkar í 3,6%

Við spáum 0,2% hækkun vísitölu neysluverðs í maí, sem er í takti við bráðabirgðaspá okkar. Samkvæmt spánni hækkar 12 mánaða taktur verðbólgunnar í 3,6%, úr 3,3% frá síðasta mánuði. Verðbólgan hefur fikrað sig hægt og rólega upp á við undanfarna mánuði. Sem dæmi, var árstakturinn í 2,9% fyrir tveimur mánuðum. Veruleg hækkun er hinsvegar ekki í sjónmáli í nánustu framtíð, og 4% múrinn mun fjarlægari en við höfðum áður talið, m.a. í hagspá okkar. Hagstofan mælir vísitöluna um þessar mundir,  nánar tiltekið 13. til 17. maí, og verður niðurstaða mælingarinnar birt þriðjudaginn 28. maí.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Verðmælingar á netinu benda til að verð á eldsneyti hafi hækkað um 3,2% (0,1% áhrif á VNV) á milli mánaða í maí, þar af hækkaði bensínverð um 3,8%, í 239,5 krónur að meðaltali á lítrann, en verð á dísel um 1,5%, í 229 krónur að meðaltali á lítrann. Samkvæmt verðbólgulíkani Greiningardeildar má búast við að verð á hótelum og veitingastöðum hækki í maí, sem nemur 1%  (0,07% áhrif á VNV). Hafa ber í huga að líkanið er takmörkunum háð þar sem það byggir á þróun í fortíðinni, en alla jafna hafa verð á hótelum og veitingastöðum hækkað í maí þegar háannatími í ferðaþjónustunni færist nær. Landslagið í ferðaþjónustunni hefur hinsvegar breyst svo um munar síðustu mánuði, bæði með gjaldþroti WOW air og kyrrsetningu MAX véla Icelandair, svo töluverð óvissa er um þennan þátt verðbólguspárinnar.  Að öðru óbreyttu ætti áhrifanna að gæta í fækkun ferðamanna, sem er raunin samkvæmt talningu Ferðamálastofu, og því spurning hvort fyrirtæki sem þjónusta ferðamenn vilji hækka verð og bjóða þar með hættunni heim að viðskiptavinum fækki.

Ef við höldum áfram að vinna okkur niður listann á þeim undirliðum sem, samkvæmt spánni, ýta verðlagi upp á við í maí, þá má þar finna reiknaða húsaleigu (fasteignaverð) sem við förum nánar yfir í sérkafla hér fyrir neðan, og síðan verð á fatnaði. Líkanið gerir ráð fyrir 1,3% hækkun á verði fatnaðar (0,06% áhrif á VNV) en til samanburðar  hefur verð á fatnaði lækkað í maí undanfarin tvö ár en hækkað árin þar á undan í sama mánuði. Ástæðuna fyrir hækkuninni í ár má meðal annars rekja til hreyfinga krónunnar að undanförnu.

Heimildir: bensinverd.is, Greiningardeild Arion banka

Færri flug, hærra flug?

Flugfargjöld hækkuðu um 20,6% í síðasta mánuði, hækkun sem má bæði rekja til þess að páska-flugumferðin náði inn í þá mælinga en einnig vegna minna flugframboðs eftir gjaldþrot WOW air. Netmæling okkar á verði flugfargjalda í síðasta mánuði náði ekki að mæla þetta mikla hækkun, en mælingin gaf til kynna 15,6% hækkun á meðan tölfræðilíkanið benti til 3% hækkunar (líkanið leiðréttir ekki fyrir mismunandi tímasetningu páskahátíðarinnar). Að þessu sinni segja verðmælingin og tölfræðilíkanið ólíka sögu, þar sem verðmæling á netinu bendir til að verðin hafi hækkað um 2,3% milli mánaða á meðan líkanið spáir 13% verðlækkun. Við völdum að fylgja líkaninu að þessu sinni, jafnvel þó hættan sé frekar í þá áttina að við séum að ofspá lækkunum. Þegar líður fram að sumri eru verð á flugfargjöldum líkleg til að hækka eins og undanfarin sumur en væntanlega verða áhrifin meiri í ár vegna framboðsskells en erfitt að segja hversu mikið meiri.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Mælingar okkar á þróun ásetts fermetraverðs í fasteignaauglýsingum bendir til þess að árshækkun ásetts verðs hafi lítið breyst undanfarna mánuði. Íbúðalánasjóður, sem og Þjóðskrá, sem búa yfir bestu fáanlegum gögnum um þróun fasteignamarkaðarins telja að árstaktur ásetts verðs sé um einu og hálfu prósentustigi hærri en þróunin í kaupsamningum. Út frá þeirri vitneskju gerum við ráð fyrir að raunveruleg þróun fasteignaverðs sé ofmetin í mælingum okkar á ásettu verði. Netmæling bendir til að árshækkun fjölbýlis og sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu sé á bilinu 3-4% en á landsbyggðinni er árstakturinn 8-9%, en hefur þó farið hratt lækkandi. Í spánni er gert ráð fyrir að fasteignaverð hækki um 0,2% að meðaltali í mánuði, sem gerir rúmlega 2,4% árstakt.

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heimildir: fasteignir.is, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá: Gangur hagkerfisins að breytast

Efnahagsumhverfið er að breytast hratt þessa stundina. Það stefnir í meira atvinnuleysi, minni hagvöxt og framleiðsluspennu og fækkun í komum ferðamanna. Að öðru óbreyttu ætti allt að benda til minni eftirspurnar og verðbólguþrýstings. Á móti vegur að óvíst er hver áhrif alls þessa verða á íslensku krónuna, sem hingað til hefur staðið ölduganginn mestmegnis af sér, og hver viðbrögð atvinnurekenda verða við boðuðum launahækkunum, sérstaklega í neðstu þrepunum.  Þó fyrirhugaðar launahækkanir séu lægri en markaðsaðilar gerðu ráð fyrir eru þær samt sem áður umfram framleiðniþróun að viðbættri verðbólgu, í það minnsta í lægstu launaþrepum. Þrátt fyrir það teljum við að aukin alþjóðleg samkeppni, sem og vilji Seðlabankans til að halda verðbólgu í skefjum með öllum tiltækum ráðum (gleymum ekki að Seðlabankinn á 600 ma.kr. hreinan gjaldeyrisforða), muni tempra áhrif launahækkana á verðlag. Að okkar mati mun aðlögunin koma í meira mæli fram í atvinnuleysi en verðhækkunum. Óvissa er um hverskonar samningar verða undirritaðir við opinbera starfsmenn en að okkar mati er ólíklegt að hið opinbera geti farið í miklar launahækkanir m.v. útspil starfsmanna í einkageiranum.Minna flugframboð til landsins mun að öllum líkindum ýta verði upp á við, í það minnsta til skemmri tíma. Þá hefur verið ljóst í þó nokkurn tíma að flugfargjöld til landsins þurfa að hækka, það hefur sýnt sig að það gengur ekki til lengri tíma að greiða með hverjum farþega.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Júní 0,3%: Flugfargjöld, tómstundir og hótelgisting hækka í verði
  • Júlí 0,0%: Útsölur á verði fatnaðar og húsgögnum, flugfargjöld hækka mikið (undanfarin ár 10-30% hækkun)
  • Ágúst 0,35%: Útsölur ganga tilbaka, flugfargjöld lækka

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka