Dúfurnar sigra, haukarnir hrynja, sameinuð sem eitt í vaxtalækkun

Dúfurnar sigra, haukarnir hrynja, sameinuð sem eitt í vaxtalækkun

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands mun funda í byrjun næstu viku og ákvarða meginvexti bankans. Tveir mánuðir eru frá síðustu vaxtaákvörðun og má segja að nýr veruleiki blasi við nefndarmönnum. Rúmri viku eftir að nefndin kom síðast saman var WOW air, flugfélagið sem flutti tæplega þriðjung af erlendum ferðamönnum til landsins, lýst gjaldþrota. Tíðindin losuðu um málbeinið á aðilum vinnumarkaðarins, sem viku síðar náðu saman og sigldu lífskjarasamningnum í höfn. Í stuttu máli sagt, efnahagsáfallið raungerðist, óvissunni vegna kjarasamninga var eytt, og með orðum seðlabankastjóra, hindrun vaxtalækkunar því horfin. Vegna þessa spáum við að peningastefnunefnd ákveði að lækka stýrivexti um 50 punkta í næstu viku, úr 4,5% niður í 4%.

Að því sögðu, þá kæmi okkur ekki á óvart að sjá einhverja sundrung meðal nefndarmanna þegar kemur að kosningu. Nefndin er rómuð fyrir varkárni sína þegar kemur að vaxtaákvörðunum og mun vaxtahaukur deildarinnar, þ.e. sá nefndarmaður er vildi hækka vexti um 50 punkta í nóvember, eflaust kjósa að fara hægar í sakirnar, byrja á að dýfa tánum í vaxtalækkunarlaugina en ekki stinga sér beint út í. Þá hafa einhverjir nefndarmenn tekið stirt í vaxtaákvæðið í lífskjarasamningnum, sem getur latt þá til vaxtalækkana, að minnsta kosti fyrst um sinn, í þeim tilgangi að sýna fram á sjálfstæði nefndarinnar og Seðlabankans. Ein síðasta nálin í óbreyttir-vextir-heystakknum er svo sú staðreynd að fjölmargir kjarasamningar opinberra starfsmanna eru lausir. Launaskrið getur þar af leiðandi enn þá skotið upp kollinum. Að okkar mati mun annað þó vega þyngra, s.s. versnandi efnahagshorfur, hóflegir kjarasamningar og þéttara taumhald á milli funda.

Hvað segir kristalskúla Seðlabankans?

Samhliða vaxtaákvörðun verða ný Peningamál birt. Innan Greiningardeildar er spenningurinn fyrir útgáfunni meiri en fyrir Eurovision þar sem ritið inniheldur nýja þjóðhags- og verðbólguspá Seðlabankans. Fram til þessa hafa tvær opinberar hagspár verið gefnar út frá gjaldþroti WOW air; okkar sem birt var í byrjun apríl, og Hagstofunnar sem var birt síðasta föstudag. Þessar tvær útistandandi spár eru verulega frábrugðnar, svo ekki sé meira sagt. Þannig spáir Hagstofan mun minni efnahagssamdrætti á þessu ári heldur en við og sterkari viðsnúningi á næstu árum. Munurinn liggur fyrst og fremst í þróun útflutnings og einkaneyslu, en sem dæmi spáir Hagstofan 2,5% útflutningssamdrætti í ár á meðan hagspá okkar gerir ráð fyrir tæplega 11% samdrætti. Hafa ber í huga að frá útgáfu okkar spár kom verulegur flugvélaútflutningur inn í tölur frá Hagstofunni, sem við töldum að hefðu þegar komið fram enda tilkynnt um þau viðskipti í lok síðasta árs, ásamt því að kortaveltutölur voru leiðréttar afturvirkt. Það getur að einhverju leyti skýrt muninn á milli spánna. Spár Hagstofunnar eru oftar en ekki bragðdaufari en aðrar spár, skiljanlega þar sem þær liggja til grundvallar fjármálaáætlunar, en að þessu sinni teljum við að Hagstofan sé full spör á kryddstaukinn. Af þeim sökum er eftirvæntingin fyrir nýrri spá Seðlabankans þeim mun meiri.

Síðasta þjóðhagsspá Seðlabankans vakti mikla athygli, enda átti sér stað mikil breyting milli útgáfa. Umtalaðasta breytingin var að bankinn færði hagvaxtarspá sína fyrir árið niður, úr 2,7% niður í 1,8%, fyrst og fremst vegna samdráttar í ferðaþjónustu. Það verður athyglisvert að sjá hvaða sýn bankinn hefur á útflutning þjóðarbúsins í ár eftir gjaldþrot WOW air. Í ræðu seðlabankastjóra ár ársfundi Seðlabankans kemur fram að það „er ljóst að fall Wow mun hafa neikvæð áhrif á hagvöxt, sérstaklega á þessu ári. Ólíklegt er þó að það eitt og sér nægi til að það verði beinlínis samdráttur á árinu.“ Hann útilokaði þó ekki samdrátt og minntist í því samhengi á loðnubrest, kjarasamninga (ekki var búið að semja á þessum tíma) og óskipulagt Brexit.

Sama hver endanleg niðurstaða verður er ljóst að Seðlabankinn mun þurfa að færa spá sína fyrir árið í ár niður á við, hvort sem spáð verður samdrætti eður ei. Hratt minnkandi framleiðsluspenna, og mögulegur framleiðsluslaki, ætti að öðru óbreyttu að kalla á minna peningalegt aðhald og greiða leiðina að vaxtalækkunum.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Launahækkanir kollvarpa ekki stöðugleika

Verðbólguspá Seðlabankans hefur fikrað sig hægt og rólega upp á við, líkt og sést á myndinni hér að neðan, og hljóðar nýjasta spá bankans upp á 3,7% verðbólgu á öðrum ársfjórðungi. Miðað við verðbólguþróunina og skammtímaspár er ólíklegt að verðbólgan nái að klifra nægilega hátt til að sú spá raungerist, eitthvað sem ætti að kæta nefndina. Krónan hefur haldið sjó frá síðustu verðbólguspá bankans og reynst mun þrautseigari en margir, þar á meðal við, höfðum áætlað. Gengisþróun undanfarinna mánaða ætti því ekki að gefa tilefni til hækkunar á verðbólguspá bankans. Því til viðbótar er lífskjarasamningurinn, samkvæmt orðum seðlabankastjóra „miklu hófstilltari en mátti óttast.“ Launahækkanir munu því ekki kollvarpa verðstöðugleika í bili, og nefndin og skuldabréfamarkaðurinn geta andað léttar. Við sjáum því engar verulegar breytingar á verðbólguspá Seðlabankans í kortunum að þessu sinni.

Ef verðbólguspáin heldur sér í grófum dráttum, á sama tíma og yfirgnæfandi líkur eru á lægri spá um framleiðsluspennu, er líklegt að Taylor ferillinn verði áfram niðurhallandi og að öllum líkindum brattari en teiknað er upp hér að neðan. Hafa ber í huga að ekki er um vaxtaspá að ræða, þar sem Taylor ferillinn er aðeins eitt af þeim tækjum og tólum sem peningastefnunefnd býr yfir til að auðvelda vaxtaákvörðunartöku. Ferillinn bendir hins vegar til þess að vaxtalækkun sé möguleg, og miðað við hratt minnkandi framleiðsluspennu, líkleg.

 Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. * Fram á mitt ár 2015 er miðað við 3% jafnvægisraunvexti en þeir fara lækkandi eftir það

Í kjölfar undirritunar lífskjarasamningsins létti yfir skuldabréfamarkaðnum. Verðbólguálag hefur lækkað skarpt sem bendir m.a. til þess að verðbólguvæntingar hafi lækkað. Könnun á væntingum markaðsaðila segir sömu sögu, verðbólguvæntingar bæði til skemmri og lengri tíma hafa lækkað. Þetta þýðir að raunvextir Seðlabankans hafa hækkað á milli funda, þ.e.a.s. aðhald peningastefnunnar hefur orðið þéttara. Miðað við að nefndin virðist hafa verið sátt við raunvexti í kringum 0,8-0,9% þegar enn þá var útlit fyrir tæplega 2% hagvöxt í ár, er vaxtalækkun nánast borðliggjandi miðað við núverandi efnahagsaðstæður og aðhaldsstig. Að okkar mati dugar 25 punkta lækkun ekki til að slaka nægilega á aðhaldsstiginu og því verði 50 punkta lækkun fyrir valinu.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Kodiak, Greiningardeild Arion banka

Trúverðugleiki seðlabankastjóra að veði

Eins og áður kom fram féll vaxtaákvæði lífskjarasamningsins ekki í kramið hjá Peningastefnunefnd enda sjálfstæði Seðlabankans lykilforsenda fyrir trúverðugleika hans. Ákvæðið þótti óheppilegt, truflandi og skerða svigrúm til vaxtalækkana. Ein af forsendunum til að samningurinn haldi er að „vextir taki verulegum lækkunum fram að endurskoðun samningsins í september 2020 og haldist lágir út samningstímann“ en svo ónákvæmt orðalag verður að teljast nokkuð óheppilegt í jafn mikilvægum samningum sem þessum.

Af þeim sökum áttum við allt eins von á því að nefndin myndi sitja á sér þegar kæmi að vaxtalækkunum, geyma þær fram í júní eða ágúst, til þess eins að ítreka sjálfstæði bankans og nefndarinnar til vaxtaákvörðunar. Sú skoðun fauk hins vegar út í veður og vind þann 30. apríl sl. þegar grein eftir seðlabankastjóra birtist í Morgunblaðinu. Þar segir að vaxtaákvæðið eigi ekki og muni ekki hafa áhrif á vaxtaákvarðanir á næstunni, þótt það geti flækt framkvæmd peningastefnunnar í framtíðinni.

Í greininni segir jafnframt að töluverðar líkur séu á vaxtalækkunum á næstunni. Í ljósi þess að seðlabankastjóri tók sér tíma til að setjast niður, rita blaðagreinina og tala jafn tæpitungulaust um vaxtalækkun og raun ber vitni, þykir okkur fátt annað koma til greina en að seðlabankastjóri leggi til vaxtalækkun á komandi fundi.