Haukarnir farnir í sumarfrí: 50 punkta vaxtalækkun

Haukarnir farnir í sumarfrí: 50 punkta vaxtalækkun

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka meginvexti bankans um 0,5 prósentustig, úr 4,5% niður í 4%. Ákvörðunin er í samræmi við væntingar greiningaraðila, sem fyrirfram höfðu allir spáð vaxtalækkun, mismikilli þó og vorum við þau einu sem spáðum 50 punkta lækkun. Eins og við var að búast var yfirlýsingin eins og stútfullur konfektkassi af dýrari gerðinni, uppfullur af áhugaverðum og bitastæðum molum, enda miklar sviptingar átt sér stað í íslenskum þjóðarbúskap síðustu mánuði.

Eftir mikið brimrót undanfarna mánuði hefur íslenska þjóðarskútan tekið kúvendingu. Þannig gerir ný þjóðhagsspá Seðlabankans ráð fyrir 0,4% samdrætti í ár, samanborið við 1,8% hagvöxt sem spáð var í febrúar, og minni verðbólgu en áður var talið. Á sama tíma hefur krónan haldið sjó, kjarasamningum verið siglt í höfn og akkeri verðbólguvæntinga haldið þegar á reyndi. Peningastefnunefnd nefnir alla þessa þætti sem rökstuðning fyrir vaxtalækkun og sýnist okkur á máli nefndarinnar að hún sé hvergi nærri hætt heldur búin að girða vaxtalækkunarbuxurnar og tilbúin í næstu skref. Farin eru tækin og tólin og viljinn og hótanir um vaxtahækkanir, leyst af hólmi af svigrúmi peningastefnunnar til að mæta efnahagssamdrætti.

Úr spennu í slaka á augabragði

Nýtt rit Peningamála leit dagsins ljós í morgun, rit sem við höfðum beðið óþreyjufull eftir, enda um að ræða fyrstu þjóðhagsspá Seðlabankans frá því að WOW air varð gjaldþrota. Veruleg breyting hefur orðið á þjóðhagsspá bankans frá því í febrúar. Í stað 1,8% hagvaxtar á þessu ári er nú gert ráð fyrir 0,4% samdrætti, viðsnúning sem rekja má til erfiðleika stærstu útflutningsgreina þjóðarinnar. Við þetta bætist mun hægari vöxtur einkaneyslu en áður var talið, bæði vegna stígandi atvinnuleysis og hægari kaupmáttaraukningar. Þetta er í annað skipti á skömmum tíma sem þjóðhagsspá Seðlabankans tekur verulegum breytingum, en í nóvember sl. spáði bankinn 2,7% hagvexti.

Efnahagssamdrátturinn þýðir að framleiðsluspennan, sem hingað til hefur verið óþægur ljár í þúfu vaxtadúfna, snýst í slaka á næstunni. Það ríkir alla jafna mikil spenna innan Greiningardeildarinnar fyrir mati Seðlabankans á framleiðsluspennunni enda hefur hún mikið að segja um vaxtastig í landinu og spilar stórt hlutverk í Taylor-ferlinum svokallaða, sem peningastefnunefnd virðist hafa fylgt nokkuð vel eftir. Annað sem skiptir máli fyrir Taylor-ferilinn er verðbólguþróun og verðbólguvæntingar (í þessu tilfelli verðbólguspá Seðlabankans). Verðbólguspáin hefur tekið þó nokkrum breytingum frá síðustu útgáfu og gerir spá bankans ráð fyrir að verðbólga nái hámarki í 3,4% um mitt ár. Þetta er minni verðbólga en áður var spáð, m.a. vegna þess að gengi krónunnar hefur haldist tiltölulega stöðugt og gengislekinn enn sem komið er verið minni en vænst var. Að okkar mati er áhættan hinsvegar upp á við, þ.e.a.s. að Seðlabankinn sé að vanmeta verðbólguna, sérstaklega í ljósi þess að spáð er meiri launakostnaði á framleidda einingu en í febrúar. Þá er óvíst hvort gengisveikingin eigi eftir að skila sér í meira mæli út í verðlag og hvort launaskrið verði á vinnumarkaði.

 

Heimild: Seðlabanki Íslands

Ef við teiknum upp Taylor-ferilinn eins og hann blasir við okkur núna, þ.e.a.s. miðað við nýja spá Seðlabankans, bendir hann til þess að frekari vaxtalækkanir séu í farvatninu og að vextir muni lækka meira en fyrri spár bentu til. Á myndinni hér að neðan er miðað við óbreytta vexti á næsta vaxtaákvörðunarfundi, sem er í júni. Hér er ekki um formlega spá okkar að ræða, aðeins leik að tölum, en samkvæmt ferlinum er rými fyrir allt að 50 punkta vaxtalækkun strax í júní. Eins og kom fram á kynningarfundi vaxtaákvörðunar fyrr í dag sér seðlabankastjóri ekkert að því að raunvextir verði neikvæðir í samdrætti, en þeir eru rúmt hálft prósent eftir vaxtalækkun dagsins miðað við meðaltal ólíkra mælikvarða. Það er því ekki loku fyrir það skotið að frekari vaxtalækkanir líti dagsins ljós í júní.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. * Fram á mitt ár 2015 er miðað við 3% jafnvægisraunvexti en þeir fara lækkandi eftir það

Fögnum ferðamannaspá, en drögum hana í efa

Ekki nóg með það að yfirlýsing nefndarinnar hafi verið bitastæð og Peningamál áhugaverð þá lumaði Seðlabankinn á auka glaðningi fyrir greinendur, ferðamannaspá! Hingað til hefur bankinn ekki birt ferðamannaspá opinberlega og fögnum við því þessari nýbreytni, enda veigamikil breyta inn í þjóðhagsspá bankans.

Spá Seðlabankans gerir ráð fyrir að ferðamönnum sem sækja Ísland heim muni fækka um 10,5% í ár. Það er nokkuð minni samdráttur en spá okkar gerir ráð fyrir, en sem kunnugt er höfum við spáð 16% samdrætti. Miðað við hvernig farþegaskipting Icelandair hefur þróast á síðustu mánuðum, þar sem vægi farþega sem koma til landsins hefur aukist umtalsvert á kostnað skiptifarþega, kann að vera að okkar spá sé eilítið svartsýn á þróunina fyrir þetta ár. Það þýðir hins vegar ekki að við séum sammála Seðlabankanum. Það sem af er ári hefur komum ferðamanna fækkað um 8% frá því á sama tíma í fyrra, erlend flugfélög hafa að mjög takmörkuðu leyti stigið inn í það gat sem WOW air skilur eftir sig, a.m.k. í sumar, og enn er óvíst hvenær Max vélar Icelandair fara aftur á loft. Í ljósi þessa þykir okkur áhættan heldur vera niður á við en hitt í spá Seðlabankans og líklegra að fækkun ferðamanna verði nær fráviksspá bankans, sem gerir ráð fyrir 15% samdrætti á þessu ári. Það myndi að öðru óbreyttu þýða töluvert meiri útflutningssamdrátt og meiri efnahagssamdrátt, eða sem nemur 0,8 prósentum meiri samdrætti en í grunnspánni, niðurstaða sem er mun áþekkari okkar hagspá.

 

Heimildir: Ferðamálastofa, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Kjarasamningar kollvarpa ekki sýn Seðlabankans

Nýir kjarasamningar hafa áhrif á mat Seðlabankans á launaþróun en í ljósi þess hve afturhlaðnir kjarasamningarnir eru hafa þeir lítil áhrif á árið í ár. Ef horft er fram til ársins 2021 gerir Seðlabankinn nú ráð fyrir að laun á vinnustund muni aukast um rúm 5% samanborið við tæp 4% í síðustu spá. Það má því teljast ljóst að Seðlabankinn telur áhrif kjarasamningana á launaþróun vera í hóflegri kantinum. Helsti óvissuþátturinn hvað varðar þetta mat er auðvitað launaskrið en hratt stígandi atvinnuleysi, ásamt sífellt færri fyrirtækjum sem telja sig skorta starfsfólk, ætti að halda því í skefjum.

 

Heimild: Seðlabanki Íslands

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Vinnumálastofnun, Gallup, Greiningardeild Arion banka

Á nokkrum stöðum í nýbirtum Peningamálum má sjá að Seðlabankinn hefur áhyggjur af þróun efnahagsmála erlendis. Nefnt er að hagvaxtaspár helstu hagkerfa heims hafa verið leiðréttar niður á við, vaxtaferillinn í Bandaríkjunum er nánast flatur, sem oft hefur verið vísbending um efnahagssamdrátt, og í einni af fráviksspám bankans er farið yfir möguleg áhrif „hard“ Brexit, þ.e.a.s. Brexit án samnings, á hagvöxt, verðbólgu, stýrivexti og aðrar hagstærðir. Seðlabankar heims eru nú frekar að renna hýru auga til vaxtalækkana, sem endurspeglast í kröfum erlendis og því er vaxtamunur við útlönd ekki að minnka jafn mikið og ella vegna þessarar lækkunar, jafnvel þó langir óverðtryggðir vextir hafi lækkað hressilega undanfarið hér innanlands.

Á fundi seðlabankastjóra og aðalhagfræðings með greiningaraðilum og fjölmiðlum í morgun kom fram í máli bankastjóra að erlendir seðlabankar hafi í gegnum tíðina getað sveiflað sínum raunstýrivöxtum meira en raunin hefur verið hér á landi en staðan nú væri breytt miðað við það sem áður hefur verið. Því má túlka orð bankastjórans á þá leið að þegar verðbólguvæntingar eru tryggari, þá geta seðlabankar brugðist við efnahagsþrengingum með vaxtalækkunum sem jafnvel leiða til neikvæðra stýrivaxta. Það gæti orðið raunin nú þó full snemmt sé að svara þeirri spurningu. Aftur á móti ef krónan helst stöðug, efnahagsumsvif minnka, verðbólga fer ekki úr böndunum og kjölfesta verðbólguvæntinga heldur, þykir okkur alls ekki ólíklegt að sjá tímabundið neikvæða raunstýrivexti.