Utanríkisviðskiptin á 1F: Skin og skúrir

Utanríkisviðskiptin á 1F: Skin og skúrir

Hagstofan birti í morgun utanríkisverslunartölur fyrir fyrsta ársfjórðung (1F) 2019. Það var viðbúið að afgangur af þjónustuviðskiptum myndi minnka milli ára, enda ferðaþjónustan, gullgæs þjóðarbúsins, vængbrotin eftir ókyrrð síðustu mánaða. Sú varð raunin, en afgangur af þjónustuviðskiptum nam 29,7 ma.kr. á 1F, sem samsvarar 27% samdrætti milli ára á föstu gengi. Tölurnar eru engu að síður ívið betri en við þorðum að vona, þar sem spá okkar fyrir fjórðunginn hljóðaði upp á 22,3 ma.kr. afgang. Að þessu sinni var það ekki lyfjaiðnaðurinn og stórar sveiflukenndar greiðslur sem skýra muninn, heldur ferðaþjónustan og utanlandsferðir Íslendinga.

Eins og sjá má þegar rauntölurnar eru bornar saman við spána reyndist ferðaþjónustan þrautseigari þegar á reyndi en við höfðum áætlað. Útflutningstekjur af erlendum ferðamönnum (ferðalög og farþegaflutningar) námu 93,2 ma.kr., samanborið við spá okkar upp á 89,9 ma.kr. frá því í mars. Hér eru tveir kraftar að verki, sem vega á móti hvor öðrum og skýra frávikið. Í fyrsta lagi sóttu fleiri erlendir ferðamenn landið heim á fyrsta ársfjórðungi en við reiknuðum með. Marsmánuður var ólíkindatólið, þegar komum erlendra ferðamanna fækkaði aðeins um 1,7%, m.a. vegna mikillar aukningar í vægi farþega til og frá Íslandi hjá Icelandair, á kostnað skiptifarþega. Í öðru lagi drógust útflutningstekjur farþegaflutninga meira saman milli ára en við væntum, eða um 26% samanborið við spá upp á 20% samdrátt. Þennan mismun má mögulega rekja til óhagstæðrar þróunar meðalfargjalda á fjórðungnum, líkt og sást á uppgjöri Icelandair.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Heilt yfir var þjónustuútflutningur í takti við væntingar okkar. Þjónustuinnflutningur reyndist aftur á móti minni en við áttum von á, sem útskýrir af hverju þjónustuafgangur fór fram úr væntingum okkar. Ferðalög Íslendinga til útlanda bera höfuð og herðar yfir aðra undirliði þjónustuinnflutnings. Það að útlandaferðum Íslendinga hafi fækkað meira á 1F en spá okkar gerði ráð fyrir skýrir að einhverju leyti þennan mun á milli spárinnar um þjónustuinnflutning og rauntalnanna. Þar að auki má nefna að innflutt viðskiptaþjónusta dróst saman um 21% milli ára á föstu gengi, en undir þennan flokk fellur ýmis þjónusta s.s. rannsóknar- og þróunarþjónusta, lögfræðiþjónusta, bókhaldsþjónusta og verkfræðiþjónusta, svo fátt eitt sé nefnt.

Ofan á 29,7 ma.kr. þjónustuafgang leggst 3,5 ma.kr. vöruskiptaafgangur, sá fyrsti síðan 1F 2015. Afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum á 1F nam því 33,2 ma.kr., samanborið við 10,4 ma.kr. afgang á sama tíma í fyrra, á föstu gengi. Þetta er mun meiri afgangur en við áætluðum enda spáðum við vöruskiptahalla. Munurinn liggur í vöruútflutningi, sem fór langt fram úr væntingum okkar. Ástæðan er flugvélaútflutningur en sala fjögurra WOW air véla til Air Canada var ekki bókfærð í útflutningstölum Hagstofunnar fyrr en eftir að spá okkar kom út. Í ljósi þess að viðskiptin fóru fram undir lok síðasta árs tókum við ekki tillit til þeirra í nýrri spá fyrir 1F. Ef ekki hefði komið til þessa flugvélaútflutnings hefði mælst vöruskiptahalli, þó ekki jafn mikill og á sama tíma í fyrra

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Eins og áður sagði er þetta fyrsti ársfjórðungurinn frá 2015 sem afgangur er á vöruskiptum við útlönd. Árið fer þar af leiðandi vel af stað í bókstaflegri merkingu. Í eiginlegri merkingu er vöruskiptaafgangurinn hins vegar ekki tilefni til fagnaðarláta, þar sem hann er tilkominn vegna flugvélasölu, sem þýðir minna flugframboð til landsins, sem þýðir færri erlendir ferðamenn, sem þýðir minni útflutningstekjur.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Færri ferðamenn en fleiri krónur

Jákvæðustu tíðindin eru eyðsla ferðamanna, sem dróst aðeins saman um 3% milli ára á föstu gengi en jókst um 8% í krónum talið, enda krónan umtalsvert veikari en fyrir ári síðan. Komum erlendra ferðamanna til landsins fækkaði um 4,7% á 1F, sem þýðir að eyðsla á hvern ferðamann var að aukast, bæði í krónum talið og erlendri mynt. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá að hver ferðamaður er að eyða meira í sinni eigin mynt, eftir samdrátt í þrjá fjórðunga þar á undan. Þetta gæti bent til þess að dvalartími ferðamanna sé tekinn að lengjast, eða til hlutfallslegrar aukningar í betur borgandi ferðamönnum. Það er löngu ljóst að erlendum ferðamönnum hér á landi mun fækka, og útlit fyrir að fækkunin nái í tveggja stafa tölu. Haldi eyðsla ferðamanna hins vegar áfram að aukast mun það tempra efnahagslegu áhrifin sem slík fækkun mun hafa.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Ferðamálastofa, Greiningardeild Arion banka