Verðbólgan hækkar í 3,6% - í takt við væntingar (aftur)

Verðbólgan hækkar í 3,6% - í takt við væntingar (aftur)

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,21% á milli mánaða í maí skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan hækkaði þar með í 3,6%, úr 3,3% í apríl. Árstakturinn hefur hækkað um 0,7 prósentustig frá því í mars, þegar verðbólgan mældist 2,9%. Verðbólguspár greiningaraðila voru á bilinu 0,1 til 0,2% en meðalspá þeirra sem birta spár opinberlega var 0,17%. Við spáðum 0,2% hækkun.

Þrír liðir léku stærstu hlutverkin í breytingu á vísitölunni á milli mánaða að þessu sinni, tveir til hækkunar og einn til lækkunar. Í aðalhlutverki var eldsneytisverð, sem hækkaði í mælingu Hagstofunnar, líkt og flestir bjuggust við. Hagstofan mældi 3,1% hækkun (0,11% áhrif á VNV), sem er í takt við spá okkar. Síðan Hagstofan mældi vísitöluna hefur bensínlítrinn hækkað um nokkrar krónur og því viðbúið að framhald verði á áhrifum til hækkunar, nema verðin lækki fram að næstu mælingu. Annað bitastætt hlutverk kom í hlut matarkörfunnar sem hækkaði um 0,7% (0,09% áhrif á VNV) milli mánaða. Verð á matarkörfunni hafði lækkað undanfarna þrjá mánuði, þ.e. fram að síðustu mælingu, en árstaktur matarkörfunnar er búinn að vera á bilinu 4-5% frá því í haust. Matarkarfan er að miklu leyti innflutt og flöktir verð hennar meira í takt við þróun krónunnar en vísitala neysluverðs sjálf. Síðasta veigamikla hlutverkið féll í skaut undirliðar sem vart þarf að kynna því hann skipar reglulega stórt hlutverk í mánaðarlegri verðmælingu Hagstofunnar: Flugfargjöld til útlanda. Að þessu sinni lækkar liðurinn um 7,9% (-0,15% áhrif á VNV). Greiningaraðilar höfðu almennt gert ráð fyrir að liðurinn myndi lækka vegna mikillar hækkunar í apríl (áhrif til hækkunar vegna páska), auk þess sem liðurinn á það til að lækka í maí áður en sumarvertíð ferðamennskunnar hefst.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá samantekt á mismun á mælingu Hagstofunnar og spá Greiningardeildar Arion banka.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Þrengir að ferðaþjónustufyrirtækjum

Það er athyglisvert að sjá að sá undirliður sem tengist ferðaþjónustunni einna mest, hótel og veitingastaðir, hækkar lítið í verði milli mánaða, þrátt fyrir að háönnin færist sífellt nær með hækkandi sólu. Verð á hótelum og veitingastöðum hækkaði um 0,26% (0,02% áhrif á VNV) í maí, sem er mun minni hækkun en við gerðum ráð fyrir í spá okkar, þó að við nefndum möguleikann á þessari þróun í verðbólguspá okkar. Í venjulegu árferði hefði mátt gera ráð fyrir meiri hækkunum, en þetta er minnsta verðhækkun í maí mánuði frá 2007. Á árunum 2008-2018 hefur verð á hótelum og veitingastöðum hækkað um 1,1% að jafnaði í maí mánuði.

Það er löngu ljóst að erlendum ferðamönnum er sækja landið heim muni fækka í ár. Á sama tíma standa ferðaþjónustufyrirtæki, sem mörg hver eru mannaflsfrek og byggja á ófaglærðu starfsfólki, fyrir kostnaðarverðshækkunum s.s. í formi launahækkana. Mögulega mun minni eftirspurn eftir hótelum og veitingastöðum yfir sumarmánuðina halda aftur af verðhækkunum, þó það sé eflaust full snemmt að segja til um það að svo stöddu.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Lengi lifir í gömlum glæðum

Samkvæmt mælingu Hagstofunnar hækkaði verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu um 0,6% en fasteignir á landsbyggðinni um 0,54%. Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu stóð í stað á milli mánaða. Horft 12 mánuði aftur í tímann þá hefur sérbýli hækkað um 5,2%, fjölbýli um 3,9% og fasteignir á landsbyggðinni um 10,3%. Á heildina litið hækkaði fasteignaverð á landinu um 0,45% í maí, sem hækkar árstaktinn í 5,4% úr 4,6%.

Á myndinni hér fyrir neðan sést að árstakturinn hefur farið lækkandi undanfarin tæp tvö ár, þ.e. þó mánaðarbreytingar séu jákvæðar þá þarf að meðaltali hver mánaðarbreyting að vera lægri en ársins á undan til að árstakturinn geti farið lækkandi. Mæling Hagstofunnar nú leiðir til þess að árstaktur allra fasteignavísitalna Hagstofunnar hækkar á milli mánaða, þ.e. hækkunin nú er meiri en verðbreytingin í maí fyrir ári.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hvað er að drífa verðbólguna?

Á myndinni hér að neðan má sjá samsetningu verðbólgunnar. Húsnæði ber ábyrgð á 1,0 prósentustigi af 3,6% árstakti, sem þýðir að innan við þriðjungur verðbólgunnar er vegna hækkunar á fasteignaverði.

Eftir að hafa vegið á móti innlendum verðbólguþrýstingi lengi vel hefur verðþróun innfluttra vara tekið  stefnubreytingu og ber nú mesta ábyrgð á ársverðbólgunni, eða um 1,2 prósentustig af árstaktinum. Innfluttar vörur halda þar af leiðandi fyrsta sætinu, eftir að hafa hrifsað það af húsnæðisliðnum í síðasta mánuði. Fram að því hafði húsnæðisliðurinn haldið fyrsta sætinu frá því í september 2013.  Aðrir liður breyttust lítið á milli mánaða.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bráðabirgðaspá: Mun framleiðsluslaki slaka á verðhækkunum?

Horft nokkra mánuði fram í tímann, þá má gera ráð fyrir að liðir tengdir ferðamannaiðnaðnum leiði til minni verðhækkana nú en í venjulegu árferði. Væntanlega munu áhrif færri ferðamanna ekki koma fram fyrr en að sumri loknu. Ímyndum okkur fyrirtæki sem þjónustar ferðamenn, ef það hefur lifað veturinn af, þá er engin ástæða til að loka dyrunum fyrr en að ferðamannatímabilinu loknu. Greiningaraðilar gera almennt ráð fyrir auknu atvinnuleysi og má því sjá fyrir sér að höggið komi ekki fyrr en í haust. Verði það raunin ætti minna framboð af ferðaþjónustutengdum fyrirtækjum að hafa áhrif til verðhækkana. Á móti vegur (allir hagfræðingar eru jú með tvær hendur) að ferðamönnum er að fækka, sem ætti að leiða til minni eftirspurnar, að öðru óbreyttu, sem gæti temprað verðhækkanir og mögulega leitt til verðlækkana. Hvor krafturinn verður yfirsterkari er erfitt að svara, en þar sem aukið atvinnuleysi leiðir til minni framleiðsluspennu, má gera ráð fyrir að síðarnefndi krafturinn verði áhrifameiri.
Bráðabirgðaspá fyrir næstu mánuði:

  • Júní 0,3%: Flugfargjöld, tómstundir, hótelgisting hækka í verði, undirvísitölur sem verða fyrir útsöluáhrifum í júlí gætu hækkað eilítið í júní.
  • Júlí 0,0%: Útsölur á verði fatnaðar og húsgögnum, flugfargjöld hækka mikið (undanfarin ár 10-30% hækkun).
  • Ágúst 0,4%: Útsöluáhrif ganga til baka, flugfargjöld lækka í lok sumars

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka